Fara í efni
Pistlar

Bixímatur

EYRARPÚKINN - 21

Einar Jónsson henti engu að yfirlögðu ráði. Naglar voru réttir og öllu timburkyns haldið til haga. Erfðum við flíkur hver af öðrum og skófatnað bræðurnir en mamma bætti og stoppaði.

Var ég fljótur að fóta mig í holi og garði og þótti frekur til fjárins með augun mömmu og upplitið. Sigmundur eldri og slægari og bar meira úr býtum hjá pabba sem mundi hann sofandi í sykurkassa bláeygan og þægan.

Mamma hafði aldrei fjárráð á heimilinu heldur var skammtað af karli föður fyrir ýsu og mjólk og aurarnir uppurnir.

Ertu búin með peningana kona? söng í kalli.

Ætlarðu alveg að setja okkur á hausinn?

Og fór hún ekki oft út að borða fjölskyldan í Eyrarvegi 35.

Þrættu þeir um Viðreisn Nabbni og pabbi en Jóhann Árnason var góðglaður maður feitlaginn með gráan hatt og gleraugu sem sló úr og í með semingi sem æsti pabba um allan helming.

Praktískur krati Nabbni og vitnaði í haftastefnu vinstri stjórnarinnar hrifningarlaust. Nú voru stöndugir menn við stjórnvöl með hatta herðabreiða. Höfðingjar eins og Gylfi Þ. og Emil Jónsson sem Nabbni hafði tröllatrú á.

Það var fjör í eldhúspólitíkinni. Ekki síst þegar ég komst í toddíið hans Nabbna og fann á mér fyrsta sinni. Sætt kúmenbragð af heitu toddíinu og veittu vinirnir mér ekki athygli fyrr en ég var búinn úr glasi Nabbna og og bullaði um Eystein og Emil, Ólaf Thors og Bjarna Ben og kallaði skítakalla. Mamma signdi sig en Nabbni hló.

Var mér tyllt á stól í holinu að hlýða á Skeggja Ásbjarnarson og Dansi dansi dúkkan mín.

Launin voru lág á verksmiðjunum og varð pabba stundum svarsins vant afhvurju þær heilögu kýr Sambandið og Framsókn gerðu ekki betur við sitt fólk. Hvatti ég pabba til að hætta á Skógerðinni og gerast sjálfstæður garðyrkjumaður og lóðahirðir og vildi frelsa hann undan áþján stimpilklukkunnar en Einar Jónsson hristi hausinn og sá ský á berum himni.

Pabbi fór einu sinni í bíó fyrir norðan og sá stórmyndina Titanic og sagðist þannig frá að skipið hélt áfram að sökkva. Og Austfirðingamótið var fastur liður í febrúar. Bjóst þá mamma upphlutnum með hnöppunum gylltu og skúfnum langa en pabbi mætti stífur og strokinn í svörtum jakkafötum og gljáfægðum skóm.

Kvöldmáltíð fjölskyldunnar á matsölustað nægja nokkur orð. Vorum að koma að austan og hafði seinkað því marga þurfti að kveðja og búið að loka búðum á Akureyri þegar við komum í bæinn. Samþykkt pabbi loks að blæða á okkur kvöldverði á Teríunni. Var það bixímatur og maltöl með og þótti ólystugt, rýrt og dýrt.

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Bixímatur er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00

Um mórber og óvænt heimsmet

Sigurður Arnarson skrifar
08. janúar 2025 | kl. 09:30

Með tæknina mér við hlið: Hlutverk gervigreindar í skólastarfi

Ástrós Guðmundsdóttir skrifar
07. janúar 2025 | kl. 17:30