Akureyrarflugvöllur eftir að ný álma flugstöðvarinnar og nýtt flughlað var tekið í notkun. Mynd: Hörður Geirsson
Bæjarráð Akureyrar hefur áhyggjur af þeirri töf sem orðið hefur á því að hanna nýja aðflugsferla fyrir fyrir lendingar véla úr suðri á Akureyrarflugvelli. Samkvæmt reglum sem íslensk stjórnvöld hafa fullgilt átti að ljúka verkinu fyrir 25. janúar á þessu ári og skorar bæjarráð á Isavia að ljúka verkinu sem fyrst.
Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs í morgun. Þar var merkum áfanga í samgöngumálum fagnað, reglubundnu flugi easyJet frá Akureyri til London og Manchester, en seinkun á þeirri þörfu úrbót varðandi aðflug sem lengi hafi blasað við er hörmuð. Nýir aðflugsferlar muni bæta aðgengi og öryggi umtalsvert, „ekki síst fyrir núverandi flug easyJet. Í vetur eru áætluð um 100 flug.“
Í fundargerðinni segir einnig:
- Bættir flugferlar úr suðri hafa legið á borði Isavia frá árinu 2020, en frumdrög voru hönnuð þegar árið 2017.
- Samkvæmt reglum sem stjórnvöld hafa fullgilt átti að ljúka verkinu fyrir 25. janúar 2024.
- Bæjarráð harmar þessa seinkun og skorar á Isavia að ljúka útgáfu RNP ferla sem fyrst.
Umræddur liður í fundargerð bæjarráðs Akureyrar í morgun er svohljóðandi í heild:
Rætt um stöðu mála á Akureyrarflugvelli, aukið millilandaflug og seinkun á tilkomu aðflugsferla úr suðri.