Fara í efni
Pistlar

Aðeins um ættfræði

Þegar ég bjó í Winnipeg var ég stundum að dunda mér við að skrifa eitthvað aðeins í Lögberg-Heimskringlu, blað þeirra Vestur-Íslendinga, og þá oftast um eitthvað mjög íslenskt sem ég taldi að Vestur-Íslendingar vissu ekkert endilega en hefðu kannski gaman af að vita. Í eitt þessara skipta skrifaði ég svolítið um ættfræðiáhuga Íslendinga, sennilega af tilefni þess að Íslendingabók var orðin aðgengileg öllum Íslendingum, og það hvarflaði að mér að með smá breytingum ætti þessi grein kannski líka erindi til Íslendinga hér heima. Hér er greinin því þýdd, uppfærð og pínulítið staðfærð.

Íslendingar hafa löngum haft mikinn áhuga á ættfræði, sérstaklega þegar þeir byrja aðeins að eldast, og þegar eldri Íslendingar hitta yngri Íslendinga spyrja þeir oft að því hverra manna þeir eru, og eru þá oftast að leita eftir upplýsingum um foreldra þeirra eða jafnvel afa og ömmur. Eitt sinn þegar ég var í heimsókn á Íslandi á meðan ég bjó í Kanada kom þáverandi kærasti minn, kanadískur, með mér og þegar hann hitti föðursystur mína spurði hún auðvitað eins og góðum Íslendingi sæmir hverra manna hann væri. Hann sagði deili á sér, nefndi föður sinn og að hann væri frá Steinbach í Manitoba og móður sína sem væri frá Winnipeg. Þetta sagði frænku minni auðvitað ekki neitt enda þekkti hún sennilega engan í Kanada en það var bara einhvern veginn alltaf eðlilegt að spyrja að þessu.

Og í raun er þetta ekkert óeðlileg spurning á Íslandi því líkurnar á því að hægt sé að staðsetja ungmennið einhvern veginn eru bara nokkuð góðar. Fyrir mörgum árum var Haukur bróðir minn á sjó á skipi frá Þorlákshöfn og hann vingaðist þar við einn heimamanninn sem bauð honum eitt sinn heim í mat til mömmu sinnar. Hún spurði bróður minn að sjálfsögðu að því hverra manna hann væri en þótt hann gæfi henni nöfn foreldra sinna hjálpaði það henni ekkert. En hún sagði það kannski ekkert skrítið því hún þekkti næstum því enga fyrir norðan. Hún hefði þó kynnst tveim pörum þegar hún var á síld á Siglufirði á æskuárum sínum. Og reyndar hefði annar mannanna heitið Haukur, rétt eins og bróðir minn. Haukur Frímannsson, sagði hún svo. Og konan hans hefði verið Kristín Björnsdóttir. Haukur bróður varð ekkert smá hissa því þetta voru einmitt föðurafi okkar og amma. En svo bætti sú gamla við: „Hin hjónin hétu Geir Ívarsson og Guðrún Ólafsdóttir.“ Nú datt kjálki bróður míns í gólfið því þetta voru móðurafi okkar og amma. Þessi kona í Þorlákshöfn þekkti sem sagt bara fjórar manneskjur fyrir norðan og það voru einmitt afi hans og amma. Og það skal taka fram að þetta hafði verið þegar mamma og pabbi voru bara börn og enn nokkur ár í það að þau ættu eftir að kynnast og síðar giftast.

Sjálf kynntist ég ættfræðinni þegar föðurætt pabba hélt í fyrsta sinn ættarmót og lítið sem ekkert var vitað um framættina. Það var fyrir daga Íslendingabókar og því mun erfiðara að komast að því sem maður vildi vita. Svo ég tók að mér að rekja ættina og þar sem ég var þá að kenna í MA kom ég mér vel fyrir á Amtinu þar sem ég rakti mig í gegn um alls kyns kirkjubækur á filmum. Ég fann langafa minn Frímann Þorvaldsson og föður hans Þorvald Þorvaldsson, föður hans Þorvald Þorvaldsson og hans föður, Þorvald Þorvaldsson. Já, þeir voru þarna fjórir Þorvaldarnir í röð og bjuggu að auki í Þorvaldsdal á Árskógsströnd. Ég gat að auki grafið upp upplýsingar um frænda minn sem allir vissu að var frændi okkar en ekki hvernig hann væri skyldur. Með því að skoða skrár um aðflutta og brottflutta náði ég loks að púsla því öllu saman.

Í dag fer maður bara inn á Íslendingabók og rekur sig til hinna og þessara. Ég rakti t.d. ætt mína í beinan karllegg til Ólafs Jónssonar sem fæddist 1615. Það er reyndar furðulega stutt miðað við marga aðra en eitthvað hefur faðerni hans sennilega verið á reiki. Talað er um beinan karllegg sem virðulegustu ættina en auðvitað er beinn kvenleggur miklu öruggari. Í beinan kvenlegg gat ég rakið mig sextán ættleggi aftur á bak, að Guðrúnu Einarsdóttur sem fæddist 1495. Ef ég skáskýt mér hingað og þangað kemst ég auðvitað mun lengra aftar en því nennti ég ekki. Maður getur hins vegar leitað eftir ýmsu fólki. Ég er t.d. bæði komin af Helga magra og Ingólfi Arnarsyni – eins og sennilega þúsundir annarra – í þrítugasta og fyrsta ættlið. Svona gæti maður lengi haldið áfram ef maður vildi. Þegar ég las Laxdælu var ég t.d. mjög hrifin af Ólafi pá Höskuldssyni. Ég er komin af honum í tuttugasta og sjötta ættlið, og af Agli Skallagrímssyni í tuttugasta og áttunda. Ég vildi að ég hefði ástæðu til að monta mig af þessu en það er víst ekki svo því ég hugsa að við séum meira og minna öll komin af þessum sömu köllum. Jón Loptsson, barnabarn Sæmundar fróða eignaðist til dæmis níu börn með sex konum svo við erum flest komin af honum. Og svo var það karlinn Jón Þorvaldsson, fæddur 1510, sem eignaðist 15 skilgetin börn og 15 launbörn. Ég efast um að nokkur sleppi við að vera kominn af þeim graðkarli.

Vegna þess hvernig við erum öll komin meira og minna af sama fólkinu hafði ég einhvern tímann komið með þá tilgátu að við værum öll skyld meira og minna í sjöunda lið. Með tilkomu Íslendingabókar gat ég síðan sannreynt þá tilgátu. Hún féll. Ég þurfti stundum að fara í níunda og jafnvel tíunda lið til að ná þessu. Við maðurinn minn erum t.d. skyld í sjöunda og áttunda lið. Það má. Reyndar má eiginlega allt slíkt núorðið en hér áður fyrr máttu fjórmenningar (hvað þá meira skyldir) ekki giftast enda varð að passa upp á skyldleikaræktunina. Hreinræktun er nefnilega bara góð þegar hún er ekki of náin. Sjáið bara hundana. Vinkona mín átti einu sinni kolklikkaðan hund sem hún varð að láta lóga og ástæðan var að of margir hundar voru undan of fáum. Við vildum ekki slíkt og því voru viðurlög hörð. En málið er samt að við erum enn sem komið er hér um bil öll skyld (þótt það sé aðeins að breytast með aukinni fjölmenningu) — maður þarf bara að fara mislangt aftur til að sjá skyldleikann. Það þýðir líka að ég er skyld nær öllum sem eru að lesa þennan pistil og ég vona því að þið, kæra frændfólk, hafið það gott í dag.

Kristín M. Jóhannsdóttir er dósent við Háskólann á Akureyri

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00