33,3% hétu Ormarr
ORRABLÓT - I
Þegar ég var við nám í Þelamerkurskóla veturinn 1982-83 hétu 33,3% kennara Ormarr – sem hlýtur að vera Íslandsmet, jafnvel heimsmet. Menn heita almennt ekki Ormarr í öðrum löndum. Þeir voru sumsé tveir, Ormarr Snæbjörnsson og Ormarr Örlygsson.
„Abbababb, hér er málabrautarstúdentinn að reikna skakkt, enn eina ferðina, karlanginn,“ hugsið þið nú með ykkur. En nei, ég hef margrennt þessu gegnum reiknivélina og fæ alltaf sömu niðurstöðu. Þelamerkurskóli var nefnilega – og er ábyggilega enn – mjög fámennur skóli og kennararnir voru ekki nema sex, alla vega þeir sem sinntu bóknámi. Yngri bekkjunum var kennt saman í stofu og engan núllbekk var heldur þarna að finna.
Alltént, þegar Kristján eða Guðrún voru ávörpuð á kennarastofunni sperrti aðeins einn maður eyrun en þegar nafnið Ormarr bar á góma hváðu tveir menn. „Ertu að tala við mig?“ Kennarastofan á Þelamörk er eftirminnileg, smá skonsa. Ég kom þangað inn daglega téðan vetur til að sækja bekkjarkladdann. Ég var sumsé kladdavörður. Ein mesta ábyrgð sem mér hefur verið falin.
Nafnið Ormarr er ekki algengt. Látið mig þekkja það, annar af þessum ágætu kennurum er faðir minn, sá sem er Snæbjörnsson. Hann átti raunar að heita Grettir en frá því var horfið á elleftu stundu þegar presturinn minnti ömmu á Grund á þá staðreynd að Grettir hefði verið ógæfumaður. Fletti hún þá upp í Sögu Borgarættarinnar og nam staðar við kempuna Ormarr Örlygsson. Það gekk kannski ekki allt upp hjá honum en aldrei var hann þó dæmdur sekur skógarmaður.
Afi valdi nafnið á tvíburabróður pabba, Sturlu, en hann sótti gjarnan innblástur í Sturlungu og las verkið aftur á bak og áfram allt sitt líf og undir það síðasta á hvolfi. Í mínum nánasta frændgarði eru Þórður Sturluson, Snorri Sturluson og Sturla Sighvatsson. Allt miklir kappar. Enginn hlaut þó nafnið Svarthöfði Dufgusson, sem er skellur. Þeir Dufgussynir voru allir hraustir og miklir bardagamenn.
Ég spurði svo sem aldrei formlega en geng út frá því að hinn kennarinn, sem á þessum tíma var nýstúdent og kunnari fyrir fótmenntir en uppfræðslu, hafi líka verið skírður í höfuðið á bóndanum og fiðlaranum hans Gunnars Gunnarssonar. Heimur manns var ekki stór á þessum árum og þar sem maður hafði bæði séð Ormarr Örlygsson leika listir sínar á velli, meðal annars með sjálfum George Best, og nafnið hans í Degi þá gaf maður sér að um heimsfrægan mann væri að ræða. Koma hans að Þelamörk var því mikill hvalreki, ekki síst fyrir okkur sparkelskustu börnin. Ormarr reyndist líka prýðilegur kennari, þó hann legði starfið ekki fyrir sig, og einn sá skemmtilegasti sem ég hef haft. Hinn sjeikspírski Rafn Kjartansson í MA kemur líka upp í hugann í því sambandi.
Ormarr Örlygsson er eini Ormar(r)inn í Þjóðskrá sem býr að tveimur errum í endann eins og Ormarr á Borg. Einhver handvömm í kirkjubókum varð til þess að pabbi er einerringur. Ég veit ekki til þess að mannanafnanefnd hafi verið farin að koma saman í stríðslok, þegar hann var vatni ausinn, þannig að ekki hefur hún haft skoðun á errafjöldanum. Pabbi hefur samt aldrei tekið mark á þeim ógjörningi og skrifar nafn sitt alltaf með tveimur errum í endann – jafnvel þremur ef mikið liggur við.
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu.