Ýviður á Íslandi
TRÉ VIKUNNAR - LXXX
Undanfarin misseri höfum við birt eina fimm pistla um hinn stórmerkilega ývið eða Taxus. Nú er komið að sjötta og síðasta pistlinum um þetta tré, að minnsta kosti í bili. Í þetta skiptið beinum við sjónum okkar að þeim ývið sem ræktaður er á Íslandi.
Rétt er að taka það fram að aðalheimild þessa pistils er grein sem Sigurður Þórðarson skrifaði í Garðyrkjuritið árið 2023. Hann á ekki minna í þessum pistli en Sig.A. Í þeirri grein er í raun sagt allt sem segja þarf og málin þróuðust þannig að hann telst nú meðhöfundur þessa pistils. Við bætum aðeins við þær upplýsingar sem þar er að finna, meðal annars með aðstoð frá Trjáræktarklúbbnum sem heldur úti Facebooksíðu.
Ýviður í Hólavallakirkjugarði af óþekktum uppruna. Líklega er þetta Taxus cuspidata. Ársvöxtur 10-15 cm á toppsprotum. Það er óvenjumikið á ývið á Íslandi. Myndir og upplýsingar: Bessi Egilsson.
Taxus er ættkvíslarheiti á hópi trjáa og runna sem á Íslandi eru lágvaxin. Í útlöndum geta þetta orðið allt að 20 metra há tré ef aðstæður henta en hérlendis er vöxturinn mjög hægur og hæstu plöntur varla meira en tveir til þrír metrar á hæð. Nafnið Taxus er komið af gríska nafninu ταξος (taksos) sem talið er vera komið frá fornpersnesku þar sem orðið gat merkt bogi. Nánar má fræðast um nafnið í þessum pistli. Ættkvíslin hefur verið nefnd ýr eða ýviður á íslensku en meðal garðáhugamanna er þó nafnið Taxus gjarnan notað þegar rætt er um tegundir ættkvíslarinnar.
Ýviður með gulleitt barr í garði á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Annar pistillinn heitir Ýviður í Evrópu og notkun hans. Þar má meðal annars sjá að hann var notaður til vopnasmíða í árþúsundir. Þar er einnig skoðað hvar hann helst er að finna og hvernig hann er nýttur í garð- og skógrækt.
Þriðji pistillinn heitir Hinn dulmagnaði ýviður og fjallar um hvernig ýviður tengist menningu Evrópubúa. Hann tengist gömlum átrúnaði, útfararsiðum, rúnaletri og skipar að auki stóran sess í mannkynssögunni. Fjórði pistillinn heitir Hin mörgu heiti ýs. Þar er komið inn á ýmis heiti tegundarinnar og hvernig þau tengjast menningu okkar og sögu. Fimmti pistillinn heitir Fræg ýviðartré. Í honum er sagt frá methöfum í hópi ýviða og nokkrum af þeim eldgömlu og frægu trjám sem finna má víða í Evrópu. Sum þeirra eiga jafnvel sína eigin Wikipediusíðu.
Fjölmargar sígrænar tegundir í garði í Reykjavík. Þar á meðal eru ýviður, einir og fura. Fremst fyrir miðri mynd er súlulaga yrki sem heitir 'David' og hefur náð um 70 cm hæð. Mynd: Þorsteinn Magni Björnsson.
Ýr eða ýviður vex ekki villtur á Íslandi. Bútur af honum virðist samt hafa verið í Reykjavík allt frá landnámi. Svanur Gísli Þorkelsson (2024) fræddi okkur í Facebookfræðslu um elsta, þekkta ýviðinn á Íslandi. Hann sagði okkur að við fornleifarannsóknir á hinum svokallaða Alþingisreit hafi komið í ljós viðarbrot sem á voru elstu rúnaristur sem fundist hafa á landinu. Risturnar voru á tálguðu ýviðarkefli frá lokum 9. aldar eða upphafi þeirrar 10. Þar sem ýviður vex ekki á Íslandi hefur keflið án efa borist hingað með einhverjum af fyrstu innflytjendum Reykjavíkur. Svona geta innflytjendur auðgað menningu okkar.
Ungur ýr í garði á Akureyri. Ef til vill verða skornar rúnir í hann eftir 1000 ár. Mynd: Sig.A.
Mismunandi er eftir bókum og alþjóðlegum plöntulistum hvað tegundirnar eru taldar margar. Sumir grasafræðingar telja þó að aðeins sé um eina tegund að ræða, Taxus baccata L. og að önnur form séu afbrigði af henni. Algengara er að segja að viðurkenndar tegundir sem teljast til ættkvíslarinnar séu 6–13 auk blendinga og óteljandi yrkja.
Við hjá Skógræktarfélaginu skoðum gjarnan lista hjá The World Flora Online (WFO) til að fá einhverja hugmynd um fjölda tegunda. Þar eru nú gefin upp nöfn á 13 viðurkenndum tegundum auk afbrigða. Er það með því allra mesta. Til samanburðar eru í hinni stóru bók, Conifers of the World (Eckenwalder 2009) nefndar níu tegundir og tvær blendingstegundir. Því fer þó fjarri að allar tegundirnar þrífist á Íslandi.
Ekki er minnst á ývið í bókinni Garðagróðri (1950 og 1968), en í bókinni Garðaprýði (1961) er bæði talað um T. baccata og T. cuspidata en þeim eru ekki gefin íslensk nöfn. Nú kallast þessar tegundir ýviður (eða evrópuýr) og japansýr. Í bókinni segir Kristmann Guðmundsson að erfiðlega hafi gengið að fá tegundir af Taxus sem þrifust hjá honum en T. baccata 'Overeynderi' hafi reynst sæmilega og einnig hafi T. cuspidata dafnað vel í garði hans.
Í Skrúðgarðabókinni (1976) er T. baccata nefnd barrlind og T. cuspidata japansbarrlind. Nafnið er komið frá orðinu barlind á dönsku og norsku. Í Danmörku er algengast að tala um „taks“ en barlind er minna notað. Nafnið barrlind kemur einnig fyrir í bókinni Dýra- og plöntuorðabók (1989) en nöfnin ýviður og japansýr eru ráðandi þar.
Japansýr, Taxus cuspidata 'Nana' í Lystigarðinum í desember 2023. Mynd: Sig.A.
Í Bókinni Tré og runnar (1989) eru notuð nöfnin ýviður, japansýr og garðaýr. Þar er sagt að afbrigðið T. cuspidata var. nana hafi reynst vel í nokkrum görðum í Reykjavík og einnig að afbrigðið T. x media 'Hatfieldii' sé ágætlega harðgert. Þessi blendingstegund (x-ið í nafninu kemur upp um það) er nú nefnd garðaýr á Íslandi.
Yrkin 'Fastigata' (til vinstri) og 'Hillii' (til hægri) tilheyra sitthvorri tegundinni af ývið. Nánar um þessi yrki síðar. Mynd: Sigurður Þórðarson.
Tegundin T. baccata er eina tegundin sem vex villt í Evrópu. Þegar talað er um ývið eða ý er nær alltaf átt við þessa tegund en stundum alla ættkvíslina. Ef hætta er á misskilningi er rétt að nota orðið evrópuýr yfir þessa tegund. Flestar aðrar tegundir, sem hlotið hafa íslensk nöfn, hafa hlotið nöfn eftir vaxtarstöðum.
Það eru fyrst og fremst tvær tegundir, evrópuýr, T. baccata og japansýr, T. cuspidata, sem þrífast á Íslandi auk blendinga þessara tveggja tegunda sem kallast garðaýr, T. x media. Aðrar tegundir, eins og kanadaýr, T. canadensis og kyrrahafsýr, T. brevifolia, hafa verið reyndar hér en ekki þrifist jafn vel.
Hér á eftir fjöllum við um hverja tegund fyrir sig og yrki og afbrigði sem við vitum til að þrífist hér á landi. Ólíklegt er að listinn sé tæmandi og vel má vera að með tíð og tíma bætist fleiri tegundir og yrki við í görðum landsmanna. Allar myndirnar í þessum pistli eru teknar á Íslandi.
Flottur ýviður af óþekktum uppruna í Grjótaþorpinu. Mynd: Þorsteinn Magni Björnsson.
Auðvelt er að fjölga öllum tegundum ýviðar með græðlingum og er talið best að ræta sprota með hæl sem kallað er. Þá fylgir vottur af fyrra árs vexti með neðri endanum. Um 10-15 cm ársprotar af uppsveigðum hliðargreinum henta best. Barrið neðst á sprotanum er fjarlægt áður en stungið er og ekki þarf nein rótarhvataefni. Sumargræðlingar af ýviðum róta sig hratt og vel í hreinum vikri eða vikurblöndu sem haldið er hóflega rakri fram að umplöntun í maí eða júní ári síðar.
Þegar ýviður er seldur í garðyrkjustöðvum á Íslandi er hann annaðhvort innfluttur eða ræktaður hérlendis. Gallinn við ræktunina hér á landi er hvað það tekur langan tíma að koma plöntum í sölulega stærð. Því getur hann orðið nokkuð dýr. Aftur á móti er það ekki vandamál ef áhugasamt fólk vill sjálft reyna að rækta upp ývið af græðlingum. Þá skiptir minna máli þótt ræktunin taki langan tíma. Ánægjan minnkar ekkert við það.
Ýviður í ræktun í gróðurhúsi Sólskóga í Kjarnaskógi. Myndir: Sig.A.
Ýviður svarar vel klippingu og víða erlendis eru gamlir runnar sem hafa verið formklipptir. Í görðum konungahalla Evrópu er mikið um tilklippta ýviði eins og fram kemur í eldri pistlum okkar. Allur ýr er síðframvindutré í náttúrulegu umhverfi sínu. Því þarf hann gott skjól til að komast á legg. Eldri tré í útlöndum þola ótrúlegustu hluti en hingað til hefur ekki reynt á hvað gamlir ýviðir þola á Íslandi. Hér á landi er gott að hafa þetta í huga. Hægt er að planta þeim í skjólgóða garða eða trjáreiti en ef blæs um trén getur verið nauðsynlegt að skýla þeim fyrstu árin og jafnvel lengur.
Hér má sjá vetrarskýli á T. baccata 'Dovastonii Aurea' í Grasagarðinum í Laugardal. Sjá má í gular greinar yrkisins undir grenigreinunum sem skýla því. Yrkið er ekki mikið ræktað á Íslandi. Myndir: Sig.A.
Ýviður er kjörinn í garða vegna þess hversu hægvaxta tegundirnar eru og lítið fyrir þeim haft, sem dæmi má nefna að T. baccata 'Fastigiata' sem var keyptur árið 1990 og plantað í garð í Garðabæ, er tæplega tveggja metra hár eftir 32 ár í garðinum og þvermál hans er 60 cm. Honum hefur aldrei verið skýlt sérstaklega.
Margir sækjumst eftir að planta sígrænum plöntum víðsvegar í garða þannig að hægt sé að njóta græna litarins sem víðast í garðinum allan ársins hring. Þá geta ýviðartegundirnar verið einstaklega hentugar. Yrkin sem nefnd eru hér á eftir hafa öll staðið sig mjög vel hjá mörgum ræktendum en stundum hafa plöntur gefist upp á fyrsta vetri. Flest yrkin eru mjög hægvaxta en laus við kal þegar þær hafa komið sér fyrir.
Ýviður hentar mjög vel í austur- og norðurkanta á blönduðum, skýldum runnabeðum og í sumum tilfellum sem þekjuplöntur undir stærri trjám.
Í garði Sigurðar Þórðarsonar (annar höfunda þessa pistils) og konu hans, Sigrúnar Andrésdóttur, eru níu yrki af ývið. Þar af eru fimm af evrópuývið. Tegundin sjálf, sem getur komið upp af fræi, er ekki mikið ræktuð. Miklu algengara er að rækta nafngreind yrki. Yfir 100 yrki eru í ræktun af þessari tegund í Evrópu og ekki alltaf auðvelt að greina á milli þeirra.
Í Lystigarðinum hefur sáðplanta án yrkisheitis vaxið síðan 1988. Hún kól örlítið allra fyrsta árið, en hefur síðan vaxið áfallalaust og reynst vel. Í garðinum er tegundin talin meðalharðgerð til harðgerð. Í garði Sigurðar og Sigrúnar er ein planta sem ekki hefur neitt yrkisheiti. Hún hefur verið í garðinum í þrjú ár þegar þetta er ritað og virðist ekki vera eins harðgerð og yrkin sem eru í sama garði. Plantan er samt í þokkalegu formi og framtíðin mun leiða í ljós hvernig hún stendur sig.
Annars er það um evrópuý að segja að hann er fremur landrænn og því getur honum orðið bumbult ef veðrið er of umhleypingasamt. Hann hefur grófara barr en japansýrinn og blendingarnir. Neðangreind yrki hafa öll verið reynd á Íslandi.
T. baccata 'Aurea'
Yrkið getur orðið um 4 metrar á hæð í útlöndum og er oftast klippt í pýramídalaga form. Ekkert er vitað um hvað það getur orðið hátt hér á landi.
'Aurea' að vetri til. Mynd: Edda Halldórsdóttir.
T. baccata 'Fastigiata'
Þetta írska yrki þrífst vel á Íslandi ef það fær gott skjól. Stundum hefur það verið kallað súluýviður vegna vaxtarlagsins. Oft er það ræktað í röðum eða þyrpingum.
Taxus baccata 'Fastigiata' í garði Sigurðar Þórðarsonar og Sigrúnar Andrésdóttur við Markárflöt í Garðabæ. Honum var plantað árið 1990 og er nú 1,9 m á hæð. Mynd og upplýsingar: Sigurður Þórðarson.
T. baccata 'Robusta'
Ung planta af 'Robusta' eða 'Robusta Fastigiata' í blönduðu beði. Mynd: Jakob Axel Axelsson.
Þetta yrki virðist þrífast mjög vel og vaxa enn betur en 'Fastigata'. Sömu sögu er að segja bæði á Norður- og Suðurlandi. Yrkið er þráðbeint og grannvaxið. Það tekur ekki mikið pláss og varpar litlum skugga og getur því hentað prýðilega í allskonar garða.
'Robusta' í garði Sigurðar Þórðarssonar og Sigrúnar Andrésdóttur í Garðabæ. Mynd: Sigurður Þórðarson.
T. baccata 'Sommergold'
'Sommergold' í Lystigarðinum á Akureyri í maí 2023. Þá er barrið ekki eins gult og það verður þegar vöxtur hefst. Mynd: Sig.A.
Yrkið er meðal annars þekkt fyrir að vera mjög sólþolið og brennur ekki í mikilli birtu en er engu að síður skuggþolið. Þetta er talið eitt harðgerðasta yrkið af ývið sem hér er í ræktun en það þarf eitthvert skjól til að þrífast vel. Sennilega var það árið 1992 sem nokkrum ýviðum var plantað framan við Blómaval í Sigtúni. Beðið sneri í norðaustur. Þar stóð þetta yrki sig langbest og hefur æ síðan verið mjög vinsælt. Því miður er þetta beð ekki lengur til.
'Sommergold' ber nafn með rentu því guli liturinn sést aðeins á sumrin. Þó má sjá gulan lit á smágreinunum og það vottar fyrir gulum röndum á barrinu. Á sumrin verður það gulllitað. Hér er yrkið notað sem þekjuplanta og snjórinn hefur pressað það aðeins niður. Myndir: Sig.A.
Við Markarflöt 15 í Garðabæ er eintak frá árinu 2005 og er um 60 cm hátt og telst efnilegt. Víða á höfuðborgarsvæðinu stendur það sig einnig mjög vel en þetta er eina yrkið sem hefur kalið dálítið í Yndisgarðinum í Fossvogi. Þar er frjósamur jarðvegur sem er nokkuð blautur og kaldur. Að auki er þar dálítil frosthætta, því garðurinn stendur fremur lágt. Önnur yrki standa sig betur við þessar aðstæður (Samson 2024). Gott er að taka þetta með í reikninginn þegar yrkinu er valinn staður.
'Sommergold' Hefur verið í Lystigarðinum síðan 1993 og yrkið fæst meðal annars í Þöll við Hafnarfjörð, Nátthaga í Ölfusi, Garðheimum og sjálfsagt víðar.
'Sommergold' er tilvalin þekjuplanta eins og sjá má. Þessi planta reisir sig eina 60 cm og skyggir það vel á jörðina undir sér að fátt getur vaxið upp úr greinaþykkninu. Mynd: Sigurður Þórðarson.
T. baccata 'David'
T. baccata 'Compacta'
´Compacta´ er mjög þétt yrki. Hér er það í Lystigarðinum á Akureyri í maí. Örlitlar skemmdir á barri eftir veturinn en runninn mun jafna sig fljótt. Mynd: Sig.A.
T. cuspidata kom til Evrópu frá Japan en vex einnig í Kóreu, Mansjúríu og nálægt austurströnd Síberíu. Tegundin er aðlöguð hafrænna loftslagi en Evrópuýrinn og hjálpar það honum hér á landi. Í heimkynnum sínum getur japansýr myndað allt að 20 m hátt tré en í Evrópu er hann oftast ræktaður sem runni. Hérlendis eru tegundina eingöngu að finna sem runna. Greinar eru útstæðar eða uppsveigðar og börkur og árssprotar hafa rauða tóna.
Í Grasagarðinum í Laugardal má finna þennan japansý sem er dálítið ólíkur yrkinu 'Nana'. Sennilega er þetta sáðplanta því ekkert yrkisheiti er gefið upp. Mynd: Sig.A. í janúar 2024.
Hér er það fyrst og fremst eitt afbrigði eða yrki sem er ræktað. Kallast það T. cuspidata var. nana eða T. cuspidata 'Nana' eftir því hvort við skilgreinum plönturnar sem afbrigði eða yrki. Sennilega er þó réttara að tala um yrki enda lítur út fyrir að þetta sé allt saman sami karlkyns klónninn.
Nærmynd af barri á japansý 'Nana' að vetri til. Mynd: Sig.A.
Hvort heldur sem er þá er þessi japansýr lágvaxinn runni og mjög óreglulegur í vextinum. Hann er oftast breiðari en sem nemur hæðinni. Gjarnan um 1 m á hæð og 1 til 3 m á breidd eftir aðstæðum. Ungar plöntur, sem aldar eru upp fremur þétt, teygja sig aðeins í ljósið og eru uppréttari og ekki eins breiðar. Vel má vera að með auknum aldri geti hann ef til vill náð einum 3 metrum á hæð og 6 metrum á breidd. Við sjáum hvort sá spádómur rætist eftir svona 50 ár.
Japansýr 'Nana' í Garðabæ sem orðinn er 110 cm á hæð. Mynd: Sigurður Þórðarson.
Yrkið vex að jafnaði aðeins um 3-5 cm á ári og er mjög skuggþolið. Þegar plantan hefur komið sér fyrir verða greinarnar mjög útbreiddar og stinnar en árssprotarnir stuttir. Barrið er aðeins um 2-2,5 cm langt og oftast kransstætt og djúpgrænt.
Þetta yrki er meðal annars ræktað í Sólskógum á Akureyri en einnig í Þöll í Hafnarfirði, Nátthaga í Ölfusi og sjálfsagt víðar. Vex það vel og er þolið þegar það hefur komið sér fyrir.
Þessi japansýr 'Nana' í Lystigarðinum var gróðursettur árið 2001. Mynd: Sig.A.
Í Lystigarðinum eru nokkrar plöntur af þessari tegund og nánast allar merktar sem þetta yrki. Allar þrífast þær vel og í þeim er aldrei neitt kal.
Ef til vill eru til síberísk kvæmi eða yrki af þessari tegund sem gætu reynst vel hér á landi.
Tvær myndir af japansý 'Nana' í Grasagarðinum í Laugardal. Myndir: Sig.A.
Minni plantan er merkt sem T. cuspidata 'Nana' í Lystigarðinum en sú stærri aðeins sem T. cuspidata. Báðar standa þær sig vel. Sú minni var gróðursett árið 2001 en sú stærri árið 1982. Mynd: Sig.A.
Blendingar af ofangreindum tegundum T. baccata og T. cuspidata er fjölbreyttur hópur. Kallast hann T. x media á máli grasafræðinnar en garðaýr á íslensku, enda finnst hann fyrst og fremst í görðum. Fjöldi yrkja er í ræktun í heiminum og hér á landi eru nokkur yrki sem reynst hafa vel. Til eru garðyrkjufræðingar sem ganga svo langt að segja að þessir blendingar standi báðum foreldrunum framar.
Garðaýr í Meltungu í Kópavogi. Mynd: Jakob Axel Axelsson.
T. x media 'Hicksii'
Taxus x media 'Hicksii' í garði Sigurðar Þórðarsonar og Sigrúnar Andrésdóttur að Markarflöt 15 í Garðabæ. Plantan er orðin 140 cm há. Mynd: Sigurður Þórðarson.
Vetrarmynd af 'Hicksii' í Laugardalnum. Mynd: Sig.A.
Í að minnsta kosti tveimur görðum í Reykjavík er vitað um limgerði af þessu yrki samkvæmt upplýsingum frá meðlimum Trjáræktarklúbbsins. Annars eru ekki mörg limgerði úr ývið á Íslandi. Ef til vill mun þeim fjölga á komandi árum.
Í Lystigarðinum er ein planta frá 1999, sem var gróðursett í beð 2004, sem kelur stundum. Ef til vill þrífst yrkið betur sunnan heiða en norðan. Við Markarflöt í Garðabæ, er ein planta frá árinu 2005 sem nú er 140 cm á hæð.
Eitt af örfáum limgerðum á Íslandi úr ývið er úr yrkinu 'Hicksii'. Mynd: Karl Guðjónsson.
T. x media 'Hatfieldii'
'Hatfieldii' við Gróðrarstöðina Þöll í Hafnarfirði að vetri til. Þetta eru móðurplönturnar sem þar eru notaðar til að fjölga yrkinu. Myndin fengin héðan.
'Hatfieldii' er þéttur og dökkgrænn með upprétt vaxtarlag og verður með tímanum breiðkeilulaga og ætti að ná tveggja til þriggja metra hæð með tímanum. Hann þarf skjól en er annars harðgerður og þolir vel klippingu. Erlendis er yrkið gjarnan nýtt í limgerði en sennilega er það of hægvaxta á Íslandi til þess.
Sigurður Þórðarson er með eintak í sínum garði sem hann fékk í Garðheimum árið 2003. Þar hefur 'Hatfieldii' þrifist vel í rúmlega 20 ár og er 1,5 metrar á hæð. Í Yndisgarðinum í Fossvogi stendur yrkið sig mjög vel.
'Hatfieldii' í Garðabæ sem orðið er 1,5 metrar á hæð á tveimur áratugum. Mynd: Sigurður Þórðarson.
Listakonan Guðrún heitin Einarsdóttir á Sellátrum í Tálknafirði var mjög áhugasöm um þennan ývið og sonur hennar, Hreggviður Davíðsson, útvegaði henni eintak frá Svíþjóð sem hún gróðursetti í trjágarði sínum þar vestra árið 1992. Vestur í Tálknafirði vex þetta yrki mun hægar en í Kópavogi.
'Hatfieldii' á Sellátrum. Greinilegt að endasprotarnir eru dálítið frostbitnir. Annars stendur hann sig vel þótt hann vaxi hægt. Mynd: Hreggvíður Davíðsson en Guðrún, móðir hans, átti þennan garð.
T. x media 'Hillii'
Vetrarmynd af T. x media 'Hillii'. Mynd: Sig.A.
Ein planta með þessu nafni er til í Lystigarðinum og hefur verið þar frá því árið 2000. Það fékk vetrarskýlingu fyrstu sjö árin, þrífst vel og kelur ekkert. Við Markarflöt í Garðabæ er planta sem fengin var frá Nátthaga og gróðursett árið 2007. Hún er nú 2 m á hæð og þar með hæsti ýviðurinn í þeim garði, ásamt T. baccata 'Fastigiata'. Sjálfsagt er að reyna þetta yrki meira en nú er gert. Yrkið er einnig að finna í Yndisgarðinum í Fossvogi og stendur sig þar mjög vel.
Glæsilegt eintak af þessum garðaý. Mynd: Sigurður Þórðarson.
T. x media 'Browni'
'Browni' í Grasagarðurinum í Laugardal í janúar 2024. Mynd: Sig.A.
T. x media 'Farmen'
'Farmen' í garði Sigurðar Þórðarsonar og Sigrúnar Andrésdóttur að Markarflöt 15 í Garðabæ hefur náð 80 cm hæð. Mynd: Sigurður Þórðarson.
Til að minna okkur á að til er fjöldinn allur af yrkjum sem lítil reynsla er af á Íslandi þá endum við þennan pistil með því að setja hér inn mynd úr Grasagarðinum í Laugardal af yrki sem ekki hefur verið nefnt en virðist geta þrifist hér með prýði. Myndin var tekin í janúar 2024 þegar yrkið var að koma undan snjó. Það verður seint fullreynt með hvaða yrki duga á Íslandi. Þetta er evrópuýr, Taxus baccata og yrkið heitir 'Repandens' og er alveg flatt. Því hentar það vel sem þekjuplanta.
Mynd af hinum jarðlæga 'Repandens' að vetri til. Sjá má að örlitlar skemmdir hafa orðið á barri en ekki meiri en gengur og gerist hjá mörgum sígrænum tegundum. Fjölmörg yrki eru til af ývið í heiminum sem bíða þess að fá að setja svip á íslenska garða. Myndir: Sig.A.
Ásgeir Svanbergsson (1989): Tré og runnar á Íslandi. Gefin út að frumkvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur. Íslensk náttúra I. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.
Ingólfur Davíðsson & Ingimar Óskarsson (1950): Garðagróður. Ísafoldarprentsmiðja.
Kristmann Guðmundsson (1961) Garðaprýði: kver handa áhugamönnum um ræktun skrúðgarða. Helgafell.
James E. Eckenwalder (2009) Conifers of the World. The Complete Reference. Timber Press, Portland & London.
Gróðrarstöðin Þöll (án ártals): Sígrænir runnar og sígræn tré. Sjá: Sígrænir runnar og sígræn smátré – Síða 5 – Gróðrarstöð (grodrarstod.is) Sótt 24. feb. 2024.
Lystigarðurinn á Akureyri (án ártals) Garðaflóran. Sjá: Garðaflóra | Lystigarður Akureyrar (akureyri.is) Sótt 22. feb. 2024.
Óli Valur Hansson o.f.l. (1976): Skrúðgarðabókin. Garðyrkjufélag Íslands.
Óskar Ingimarsson (1989): Dýra- og plöntuorðabók. Örn og Örlygur.
Samson Bjarnar Harðarson (2024): Munnlegar upplýsingar um ývið í Yndisgarðinum í Fossvogi.
Sigurður Þórðarson (2023): Taxus. Í: Garðyrkjuritið 2023. Ársrit Garðyrkjufélags Íslands 103. Árgangur. Bls. 40-42.
Svanur Gísli Þorkelsson (2024) Færsla á Facebook 2. júní 2024. sjá: (3) Því er statt og stöðugt haldið fram að í... - Svanur Gísli Þorkelsson | Facebook
Trjáræktarklúbburinn (2024): Upplýsingar sem félagsmenn gáfu okkur á Facebooksíðu hópsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
- Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir pistil dagsins í heild.
- Eins og Sigurður tekur fram í upphafi pistils dagsins er aðalheimild þessa pistils grein sem Sigurður Þórðarson skrifaði í Garðyrkjuritið árið 2023. Hann á því ekki minna í þessum pistli en Sig.A og telst nú meðhöfundur þessa pistils.
Smellið hér til að sjá alla pistlana á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga.