Fara í efni
Umræðan

Umbætur í bráðaþjónustu

Viðbragðsteymi um bráðaþjónustu á landsvísu skilaði nýlega af sér skýrslu og tillögum sem hafa verið kynntar í ríkisstjórn og fyrir velferðarnefnd Alþingis.

Heilbrigðisráðherra skipaði viðbragðsteymið sumarið 2022 og í því sitja fulltrúar aðila sem koma að bráðaþjónustu í landinu. Í stuttu máli telur viðbragðsteymið margvísleg sóknarfæri vera til staðar til að efla, bæta og ekki síst að samræma bráðaþjónustuna á landsvísu. Tillögurnar snúast einnig um að auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma, styðja við menntun og þjálfun, og fleira. Vinnan hefur nú þegar skilað ákveðnum umbótum en í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur.

Tillögur viðbragðsteymis

Umfangsmesta tillagan gengur út á að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði lögð á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, þar á meðal við þá sem sinna sjúkraflutningum og við heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum. Einnig eru settar fram einfaldari tillögur eins að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu allra hjartastuðtækja í landinu þannig að Neyðarlínan 112 geti alltaf vísað á næsta tæki.

Þó skýrslan sé nýlega komin út var strax farið í ákveðnar umbætur samhliða vinnu teymisins. Heilbrigðisráðherra hefur nú þegar ráðstafað tæpum 330 milljónum króna til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land og farið hefur verið í ýmsar skipulagsbreytingar.

Umbótaverkefni sem komin eru í framkvæmd eru t.d. vinna við að fækka komum á bráðamóttöku. Tölur frá Landspítala sýna að það hefur tekist að beina hluta sjúklinga í önnur hentugri úrræði t.d. með opnun göngudeildar lyflækninga og betri leiðbeiningum í síma. Það sem nefnt er betri vegvísun. Þá standa yfir frekari umbætur á vegvísun í heilbrigðisþjónustu, þar sem stefnt að auknu samræmi í upplýsingagjöf og aukinni samvinnu til að dreifa álagi á heilbrigðiskerfið.

Styrking bráðaviðbragðs á Norðurlandi

Liður í vinnunni var að setja viðmið um búnaðarþörf á starfsstöðvum heilbrigðisstofnana um land allt og gera úttekt á stöðunni. Úttektin leiddi bæði í ljós þörf á að uppfæra búnað og bæta við búnaði á heilsugæslustöðvunum á Norðurlandi. Í kjölfarið voru tæpar 80 milljónir settar í að styrkja bráðaviðbragðið. Fjármagnið kemur í gegnum fjárlög og er m.a. ætlað til kaupa á ómtækjum, hjartastuðtækjum og hjartalínuritum samkvæmt nánari ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Á Sjúkrahúsið á Akureyri koma 9 milljónir til kaupa á öndunarvél (BIPAP)og raufasmásjá og til sjúkradeildarinnar á Húsavík koma 11 milljónir króna til kaupa á öndunarvél (BIPAP) og hjartasírita. Samræmi í búnaði bætir öryggi sjúklinga og vinnuaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks auk þess að stuðla að markvissara samstarfi á milli starfsstöðva.

Rétt þjónusta á réttum stað

Þessi nálgun á verkefnið, þar sem horft er heildstætt á áskoranir um allt land og brugðist við þeim með umbótum á smáum og stórum heilbrigðisstofnunum, endurspeglar vel áherslur Framsóknar. Þær áherslur birtasta einmitt í stjórnarsáttmálanum þar sem fram kemur að heilbrigðisstofnanir verði styrktar til að veita rétta þjónustu á réttum stað og að jafna skuli aðgengi að heilbrigðisþjónustu um land allt.

Vinnu viðbragðsteymisins verður fylgt eftir enda er hún afskaplega mikilvægt innlegg í viðbragð og þróun heilbrigðiskerfisins, til lengri og skemmri tíma. Ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar COVID með aukinni tíðni óvenjulegra og bráðra sýkinga.

Líneik Anna Sævarsdóttir er þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og formaður Velferðarnefndar Alþingis

Félagshyggja hvað er nú það?

Haraldur Ingi Haraldsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:19

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50

Eflum löggæslu

Grímur Grímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 17:30

Gagnsæi, ábyrgð og sameiginleg markmið

Anna Júlíusdóttir skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 10:45

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00