Þyrniættkvíslin
TRÉ VIKUNNAR - LXXXVI
Tré eru til af öllum stærðum og gerðum. Sum vaxa hratt, önnur hægar, sum verða stór, önnur lægri. Mismunandi aðstæður kalla á mismunandi gróður. Ef plássið er ekki of mikið er heppilegt að nota tré sem vaxa fremur hægt. Svo getur verið gaman að fá sér tré sem er fallegt lungann úr árinu. Til dæmis tré sem blómstra á vorin, eru fallega græn á sumrin og fá flotta haustliti. Það getur líka vakið gleði að fá sér tré sem laðar að fugla, til dæmis með því að framleiða ber og veita gott skjól fyrir hreiðurgerð. Sumir, sumar og sumt vilja fá tré sem þola klippingu vel og aðrir, aðrar og annað vilja tré sem þrífst vel þótt jarðvegurinn sé ekki mjög frjór og jafnvel dálítið þurr. Svo eru þeir, þær og þau sem vilja helst fá sér tré sem eru einstök og sjást ekki víða eða tré sem verða langlíf og gleðja margar kynslóðir. Heil ættkvísl trjáa pikkar í öll þessi box. Það er ættkvísl þyrna eða Crataegus ættkvíslin. Við höfum áður fjallað um tengsl þyrna við andaheima og birt einn pistil um eina tegund, hrafnþyrni, sem er mjög áberandi í Lystigarðinum og víðar.
Austurlandaþyrnir, Crataegus orientalis ssp. orientalis í Grasagarðinum í Kaupmannahöfn. Sama tegund, en önnur undirtegund, hefur verið reynd í Lystigarðinum. Mynd: Sig.A.
Austurlandaþyrnir í Lystigarðinum á Akureyri í október 2017. Eins og sjá má er vaxtarlagið á Íslandi er töluvert frábrugðið vaxtarlagi tegundarinnar í Danmörku. Mynd: Sig.A.
Í inngangi laumuðum við inn helstu einkennum ættkvíslarinnar, eins og lesendur hafa sennilega áttað sig á. Við það má þó ýmsu bæta. Langflestar tegundirnar eru sumargræn, fremur lágvaxin tré eða runnar en til eru sígræn tré sem vaxa sunnarlega í Norður-Ameríku. Þau fara auðvitað á mis við hina glæsilegu haustliti sem eru svo algengir innan ættkvíslarinnar.
Ein af sígrænu tegundunum heitir Crataegus mexicana og vex í Mexíkó og Guatemala. Aldinin eru nýtt til átu. Engar líkur eru á að þessi tegund geti vaxið á Íslandi. Myndina birti Chela Raluy Zierold í Facebookhópnum Unique Trees.
Oftast er það svo að sömu tegundir þyrna geta myndað hvort heldur sem er tré eða runna. Hægt er að stýra því með klippingu og getur það kostað dálitla vinnu framan af æfi trjánna ef við viljum fá einstofna tré. Fyrir kemur að tré brotna vegna snjóþyngsla eða átroðnings og koma þá iðulega upp margir stofnar frá rót. Erlendis eru til eldgömul tré sem mynda einskonar þykkni því þau hafa aldrei verið klippt til. Þessi vöxtur gefur okkur ágæta hugmynd um að nýta megi trén í limgerði, enda er það víða gert. Sá siður hefur samt ekki tíðkast mikið hér á landi.
Hrafnþyrnir, Crataegus chlorosarca, sem hefur verið klipptur til að mynda einstofna tré í Lystigarðinum. Takið eftir að við stofninn eru að koma upp nýir sprotar. Þá þarf að klippa í burtu ef plantan á að mynda tré en ekki runna. Verður það án efa gert áður en til vandræða horfir. Mynd: Sig.A.
Laufin eru stakstæð á greinum. Þau eru mjög oft flipótt og tennt en einnig eru til sepótt og jafnvel heil lauf. Oft er stærð og gerð laufanna nokkuð misjöfn á hverri tegund fyrir sig og jafnvel á sama trénu. Flækir það mjög greiningu á tegundum. Kröftugar greinar bera oftast stærri lauf en minni greinar. Oftast eru blöðin tennt og má stundum nota gerð tanna til að greina tegundir í sundur. Flestar tegundir hafa þyrna en á sumum tegundum eru þeir lítið áberandi. Svo getur verið einstaklingsmunur á fjölda þyrna og stundum er eins og minna sé um þyrna í mjög frjóu landi. Það er þó langt því frá algilt. Stærð og gerð þyrna getur hjálpað við að greina í sundur tegundir en varlega þarf að treysta slíkri greiningu.
Áberandi þyrnar á síberíuþyrni, Crataegus sanguinea í garði í Síðuhverfi. Mynd: Sig.A.
Villtar tegundir hafa blóm sem hafa fimm krónublöð en í ræktun eru til ofkrýnd yrki. Sama fyrirbæri má sjá víða í rósaættinni, Rosaceae, en þyrnar tilheyra henni. Blóm þyrna eru þó mun minni en hjá einkennistegundum ættarinnar; rósum eða Rosa spp. Þau minna frekar á blóm á reynitrjám, Sorbus spp. sem eru einnig af rósaættinni. Hér á landi blómgast þyrnar að jafnaði heldur minna en reynitré.
Oftast er börkurinn mjúkur og gráleitur hjá ungum trjám en hann getur flagnað langsum með aldrinum. Stundum má sjá fallegar skófir og aðrar ásætur á berki trjánna þegar þau eldast. Annars verður stofninn oft mjög ellilegur hjá tiltölulega ungum trjám. Allar tegundirnar þrífst best á björtum stöðum eða í hálfskugga. Ef ekki er nægilega bjart dregur úr blómgun og haustlitir verða minna áberandi. Í miklum skugga þrífast flestar tegundir þyrna beinlínis illa.
Hrafnþyrnir, Crataegus chlorosarca, í fullum haustlitum í Lystigarðinum þann 6. september 2023. Mynd: Sig.A.
Hér á landi er algengast að sjá þyrna sem tré eða stóra runna í fremur litlum görðum eða annars staðar þar sem pláss er af skornum skammti. Sjaldgæfara er að sjá þá í limgerðum þótt það þekkist. Erlendis eru tegundirnar aftur á móti mjög algengar í limgerðum og skjólbeltum. Þéttur vöxtur og þyrnarnir, sem ættkvíslin er nefnd eftir, gerir það að verkum að almennt sækjast fáir eftir því að fara í gegnum limgerði úr tegundum ættkvíslarinnar. Hér á landi má sem best skreyta skógarjaðra og -rjóður í meira mæli með ýmsum tegundum af þyrnum. Þá þarf að gæta þess að planta þeim ekki of nærri stígum eða öðrum þeim stöðum þar sem þeir geta valdið slysum. Þeir þrífast vel í nánast hvaða jarðvegi sem er en fá fallegri haustliti ef þeir vaxa í fremur sendnum og þurrum jarðvegi. Ætla má að margar tegundir þyrna geti hentað prýðilega sem götutré á Íslandi og almennt má segja að það megi nota þessar tegundir mun meira en nú er gert.
Logandi haustlitir á hrafnþyrni þegar annar gróður er enn grænn. Mynd: Sig.A.
Á ensku kallast þessi ættkvísl hawthorn og því hafa tré af þessari ættkvísl stundum ranglega verið nefnd „hafþyrnir“. Það nafn er notað á allt aðra tegund á Íslandi sem ber fræðiheitið Hippophae rhamnoides og tilheyrir allt annarri plöntuætt. Að auki er þessi þýðing alröng vegna þess að enska orðið haw er sama orðið og hekk. Hawthorn merkir því hekkþyrnir eða þyrnigerði og hefur ekkert með hafið að gera. Íslenska heitið vísar vitanlega í þyrnana sem eru á trjánum. Fræðiheitið Crataegus var útskýrt í pistli okkar um hrafnþyrni og er óþarfi að endurtaka það hér en þeir sem vilja geta auðvitað flett því upp.
Hér sitja hröfnungar í þyrni við Aberlady Bay, nálægt Edinborg í Skotlandi. Þyrnirinn stendur í hafþyrnirunnastóði með fullt af berjum. Ekki þarf að rugla þessum tegundum saman. Mynd: Sig.A.
Öldum saman hefur verið vel þekkt um alla Evrópu að nota þyrna í limgerði og skjólbelti eins og klifað hefur verið á. Að auki nota Englendingar tegundina gjarnan í belti á landamerkjum bændabýla. Þétt greinabygging og langir þyrnar gera það að verkum að stærri dýr ráfa ekki í gegnum svona belti. Af þessu ber tegundin nafn sitt á ensku eins og að ofan er nefnt. Það er almennt talið gott að enn viðgengst þessi siður frekar en að nota girðingar. Þessi skjólbelti hafa mjög jákvæð áhrif á lífríkið. Smáfuglar verpa gjarnan í þeim og sækja í berin á haustin. Smávaxin spendýr leita þar einnig skjóls og skordýr sækja í blómin. Allt er þetta til bóta. Að auki er viðhaldið minna en á girðingum.
Hvítþyrnir, Crataegus laevigata í skjólbelti í Malmö í Svíþjóð. Mynd: Hjörtur Oddsson.
Hér á landi hafa þyrnar lítið verið notaðir á þennan hátt. Þeir eru miklu frekar ræktaðir sem stök tré í görðum. Einnig er upplagt að planta stökum trjám í stærri skjólbelti til að auðga lífríkið og til að njóta haustlitanna.
Limgerði í Kauptúni í Garðabæ úr döglingsþyrni, Crataegus douglasii. Við hliðin á því er jörfavíðir sem sjálfsagt hefur skýlt þyrninum vel á fyrstu árum hans. Mynd: Steinar Björgvinsson.
Flestar þyrnitegundir geta orðið mun eldri en algengast er innan rósaættarinnar. Við það bætist að þær geta endurnýjað sig með stofnskotum, eins og við þekkjum hjá íslenska birkinu. Þegar einstaka tré eru látin í friði í langan tíma geta smám saman myndast þykkni sem geta orðið mörg hundruð ára gömul. Frá þessu sögðum við í áramótapistli okkar árið 2023/2024. Í görðum eru slík stofnskot skorin frá og þar með getur tréð ekki endurnýjað sig á sama hátt. Þekkt er að í þorpinu Hethel í Norfolk, Englandi, er tré sem talið er víst að hafi verið plantað á þrettándu öld og er því orðið meira en 700 ára gamalt. Þetta tré er talið elsti þyrnir Englands eða að minnsta kosti með þeim elstu (Wills 2018). Langt er í að þyrnar á Íslandi nálgist hámarksaldur sinn. Það verður að teljast mjög ólíklegt að þeir falli vegna elli á þessari öld.
Þessi gamli hvítþyrnir, Crataegus laevigata, er í Bæjaralandi og kallast Þúsund-ára-þyrnirinn. Enginn veit fyrir víst hvað hann er gamall. Myndin er fengin frá Facebooksíðunni Baumgeschichten og hana tók Jürgen Schuller.
Mikill ruglingur er innan þessarar ættkvíslar þegar kemur að greiningu tegunda. Reynist jafnvel færustu sérfræðingum erfitt að greina þær í sundur. Þyrnar blandast auðveldlega í náttúrunni og það sama á við þar sem fleiri tegundir eru ræktaðar saman. Því er ekki víst að réttar tegundir komi upp af fræi sem sums staðar er hægt að kaupa. Því má vænta þess að ekki séu öll kurl komin til grafar með þrif einstakra tegunda á Íslandi.
Til að flækja málið enn frekar eru tegundirnar svo vandgreindar hver frá annarri að heimildum ber ekki saman um fjölda þeirra í heiminum. Áður fyrr voru þær jafnvel taldar fleiri en þúsund en nú hefur þeim fækkað niður í nokkur hundruð eða jafnvel niður í um 100 til 200 tegundir. Að hluta til stafar þetta af því að sumar þyrnitegundir geta myndað fræ án undangenginnar frjóvgunar. Kallast það apomictic fjölgun eða geldæxlun og höfum við meðal annars fjallað um fyrirbærið hér. Þegar fjölgun með geldæxlun á sér stað má, með góðum rökum, tala um fjöldann allan af mismunandi skyldum örtegundum, því þær skiptast ekki á erfðaefni við aðra einstaklinga. Þá er full ástæða til að ætla að tegundirnar séu fleiri en þúsund. Nú hefur komið í ljós að svo virðist sem að sumar apomictic tegundir geta einnig myndað fræ á hefðbundinn hátt með víxlfrjóvgun. Þá snarfækkar tegundunum. Þannig er staðan núna.
Hrafnþyrnir, Crataegus chlorosarca, í Meltungu, Kópavogi þann 10. september 2023. Mynd: Kristján Friðbertsson.
Nær allar tegundirnar eiga það sameiginlegt að mynda runna eða fremur lágvaxin tré sem geta orðið um 5-15 metrar á hæð á bestu stöðum. Hér á landi er um tugur tegunda í almennri ræktun og vel má vera að við fjöllum seinna nánar um einstakar tegundir, svo sem síberíuþyrni, C. sanguinea, sem sennilega er algengasti þyrnirinn á Akureyri og sjálfsagt víðar. Þess má geta að meðal þeirra atriða sem grasafræðingar skoða til að greina á milli tegunda er hvar æðstrengir laufanna enda á jöðrum þeirra, litur, lögun og stærð blóma og aldina (þar með talið fjölda fræfla og fjölda fræja í hverju aldini), lengd, gerð og fjöldi þyrna og er þá aðeins fátt eitt nefnt (Rushforth 1999). Allt eru þetta atriði sem við sjáum ekkert endilega nema ef við vitum hvers við eigum að leita.
Sami síberíuþyrnirinn að vetri og hausti til í Lystigarðinum á Akureyri. Myndir: Sig.A.
Flestar tegundir eiga það sameiginlegt að mynda þyrna en nokkuð er misjafnt milli tegunda hversu margir þeir eru, hvort þeir vaxa á greinum eða beint úr stofni og stærð þeirra er einnig breytileg. Þeir stærstu verða um 8 cm á lengd en algengast eru að þeir séu um 1-3 cm langir. Í lýsingunum hér á eftir nefnum við útlit laufa en það ber að taka þeim lýsingum með fyrirvara vegna þess hversu breytileg laufin eru á hverju tré.
Tegundirnar mynda ber sem fuglar sækja í. Mismunandi tegundir hafa mismunandi liti á berjunum og er þeim stundum skipt í hópa eftir berjalit. Hér á landi eru það einkum tré sem bera svört eða rauð ber sem ræktuð eru en einnig eru til tegundir sem bera gul og jafnvel blá ber. Aldinin eru æt en sum eru ekki mjög bragðgóð. Þó eru til tegundir í útlöndum sem ræktaðar eru vegna ætra berja.
Allir þyrnar bera dæmigerð blóm fyrir ætt sína. Þau mynda oftast sveipi og flestar tegundir bera hvít eða gulhvít blóm. Einnig eru til tegundir með bleik og jafnvel rauð blóm. Stundum kemur fyrir að einstaklingar hvítblómstrandi tegunda myndi bleik blóm. Til eru yrki sem bera ofkrýnd blóm.
Rótarskot frá dúnþyrni, C. maximowiczii, að hausti. Mynd: Sig.A.
Flestar, ef ekki allar, tegundirnar eiga það til að koma með svokölluð stofnskot. Þá spretta upp sprotar frá rótarhálsi. Ef það er látið óátalið mynda þau smám saman þykkni eða stóra runna. Ef ætlunin er að fá tré er rétt að klippa þessa sprota í burtu. Þessir hæfileiki getur verið heppilegur ef eitthvað hendir tréð. Þá getur stofninn drepist en rótin lifað svo upp sprettur ný planta af gömlu rótinni. Meðfylgjandi myndir sýna hrafnþyrni sem brotnaði undan snjó í Kjarnaskógi og var talinn af. Nú eru nýir sprotar að vaxa upp aftur af rótinni.
Þau sem vilja fræðast nánar um helstu tegundir smelli hér til að sjá allan pistilinn.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
- Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.