Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar sigruðu í Kjarnafæðismótinu

Þórsarar sigri hrósandi eftir sigur í Kjarnafæðismótinu í kvöld. Markvörðurinn Aron Birkir Stefánsson, fyrirliði liðsins, hampar bikarnum. Mynd: Ármann Hinrik

Þór sigraði KA í kvöld eftir vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Kjarnafæðismóts karla, árlegs æfingamóts sem haldið er af Knattspyrnudómarafélagi Norðurlands. KA-menn höfðu unnið mótið sjö ár í röð þannig að sigur Þórsara var langþráður.

Leikið var á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið. Markalaust var eftir 90 mínútur og var þá strax gripið til vítaspyrnukeppni; eftir að hvort lið hafði tekið fimm vítaspyrnur, sem er hefðbundinn fjöldi, var staðan jöfn, 4:4, og því var haldið áfram þar til úrslit réðust. Svo fór að Aron Birkir Stefánsson markvörður Þórs varði frá Hans Viktori Guðmundssyni, sem var sjöundi KA-maðurinn sem spyrnti, og þar með var sigur Þórsara í höfn.

Þórsarar léku einum færri hálfan leikinn. Miðjumaðurinn Ibrahima Balde var rekinn af velli strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks fyrir heimskulega tæklingu á miðjum vellinum en félagar hans stóðu vaktina vel einum færri.

KA-menn urðu fyrir því óláni að missa Færeyinginn Jóan Símun Edmundsson af velli strax á 6. mín. eftir að hann fékk höfuðhögg og Steinþór Már Auðunsson markvörður fóru sömu leið eftir aðeins stundarfjórðung, einnig vegna höfuðhöggs. Í hans stað kom í markið William Tönning, 25 ára Dani sem steig þar með fyrstu  skrefin í búningi KA því félagið tilkynnti í dag að samið hefði verið við hann.

Nánar á morgun – m.a. myndasyrpa af vítaspyrnukeppninni.

Sigur Þórs í höfn! Aron Birkir Stefánsson ver vítaspyrnu Hans Viktors Guðmundssonar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Leikmenn Þórs, þjálfarateymi og aðstoðarmenn með Kjarnafæðisbikarinn á KA-vellinum í kvöld. Mynd: Ármann Hinrik