Mikilvægt í Höllinni í kvöld en KA lýkur keppni

Tvö af íþróttaliðum bæjarins verða í eldlínunni í kvöld, annar leikurinn skiptir miklu máli upp á framhaldið en hinn fær engu breytt um lokaniðurstöðuna.
Kvennalið Þórs í körfubolta leikur í kvöld lokaleik sinn í efstu deild Íslandsmótsins, Bónusdeildinni, áður en kemur að úrslitakeppni. Þór fær Keflavík í heimsókn, en þessi lið berjast um 3. og 4. sæti deildarinnar. Niðurstaðan úr leiknum ræður því hvaða liði Þór mætir í átta liða úrslitunum sem hefjast undir mánaðamótin.
- Bónusdeild kvenna í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
Þór - Keflavík
Vinni Þór leikinn endar liðið í 3. sæti og mætir þá liðinu í 6. sæti, sem er efsta sætið í B-hluta deildarinnar. Andstæðingurinn yrði þá annaðhvort Tindastóll eða Stjarnan, sem eru jöfn með níu sigra og mætast í lokaumferðinni. Tapi Þór hins vegar fyrir Keflavík enda bæði liðin með 13 sigra og níu töp, en Keflavík myndi hirða 3. sætið vegna úrslita í innbyrðis viðureignum og Þór þá í 4. sæti og mætir liðinu í 5. sæti deildarinnar, neðsta sæti A-hlutans, sem er Valur.
KA gegn Fjölni
Lokaumferð Olísdeildar karla í handknattleik verður spiluð í kvöld og hefjast allir leikirnir kl. 19:30. KA sækir Fjölni heim í Grafarvoginn, en Fjölnismenn eru þegar fallnir úr deildinni. KA er í 9. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina og ljóst að liðið fer ekki í úrslitakeppni deildarinnar.
- Olísdeild karla í handknattleik
Fjölnishöll kl. 19:30
Fjölnir - KA
KA þarf hins vegar ekki að óttast fall þótt öll úrslit fari á versta veg því liðið er með 13 stig eins og Grótta, en ÍR er tveimur stigum á eftir. KA er með betri árangur í innbyrðis viðureignum gegn báðum þessum liðum og ljóst að liðið mun enda í 9. eða 10. sæti deildarinnar og lýkur keppnistímabilinu með leiknum gegn Fjölni í kvöld.