Fara í efni
Íþróttir

Vor í lofti íþrótta og verðlaun í boði

Vorið er tími ögurstunda, úrslitakeppna og bikarlyftinga í boltaíþróttum vetrarins og þó marsmánuður sé ekki enn liðinn er vor í lofti, janft í veðri sem í viðureignum íþróttaliða Akureyar. Fram undan í vikunni eru undanúrslit í Lengjubikar kvenna í knattspyrnu, mögulega úrslitaleikur fyrir Akureyrarliðið, úrslitaleikur í Kjarnafæðimóti karla í knattspyrnu, lokaumferð í efstu deild kvenna í körfubolta og karla í handbolta og svo mögulega deildarmeistaratitill og sæti í efstu deild handa karlaliði Þórs í handknattleik. 

MÁNUDAGUR – fótbolti

Seinni undanúrslitaleikur A-deildar Lengjubikars kvenna í knattspyrnu verður spilaður í Boganum í dag þegar Þór/KA tekur á móti Stjörnunni. Þór/KA vann riðil 1. Liðið endaði með 12 stig eins og Valur, en var með betri markamun. Stjarnan endaði hins vegar í 3. sæti í riðli 2 og fékk sæti FH í undanúrslitunum þar sem FH fór í æfingaferð út fyrir landsteinana einmitt þegar komið var að undanúrslitaleikjunum. Sigurliðið í leik Þórs/KA og Stjörnunnar mætir Breiðabliki í úrslitaleik, en Breiðablik vann Val á föstudagskvöldið, 2-1.

  • A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu, undanúrslit
    Boginn kl. 18
    Þór/KA - Stjarnan

- - -

ÞRIÐJUDAGUR – fótbolti

A-deild karla í Kjarnafæðimótinu í knattspyrnu lýkur með nokkuð hefðbundnum úrslitaleik milli Þórs og KA. Leikurinn fer fram á KA-vellinum (Greifavellinum) og hefst kl. 18. Knattspyrnudómarafélag Norðurlands heldur Kjarnafæðimótið á hverju ári sem lið í undirbúningi knattspyrnuliða og knattspyrnudómara fyrir komandi tímabil. Hefð er fyrir því að selt er inn á úrslitaleikinn og að ágóðinn af leiknum renni til góðgerðarmála. Að þessu sinni kostar 1.000 krónur inn, en frítt fyrir 12 ára og yngri. Að þessu sinni rennur allur ágóði af leiknum til uppbyggingar á stofum fyrir líknandi meðferðir á lyfjadeild Sjúkrahússins á Akureyri.

  • A-deild Kjarnafæðimóts karla í knattspyrnu, úrslitaleikur
    KA-völlur kl. 18
    KA - Þór

- - -

MIÐVIKUDAGUR - körfubolti og handbolti

Kvennalið Þórs í körfubolta leikur lokaleik sinn í Bónusdeildinni, áður en kemur að úrslitakeppni, á miðvikudagskvöldið. Þór fær Keflavík í heimsókn, en þessi lið berjast um 3. og 4. sæti deildarinnar. Niðurstaðan úr leiknum ræður því hvaða liði Þór mætir í átta liða úrslitunum sem hefjast undir mánaðamótin.

  • Bónusdeild kvenna í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Keflavík

Vinni Þór leikinn endar liðið í 3. sæti og mætir þá liðinu í 6. sæti, sem er efsta sætið í B-hluta deildarinnar. Andstæðingurinn yrði þá annaðhvort Tindastóll eða Stjarnan, sem eru jöfn með níu sigra og mætast í lokaumferðinni. Tapi Þór hins vegar fyrir Keflavík enda bæði liðin með 13 sigra og níu töp, en Keflavík myndi hirða 3. sætið vegna úrslita í innbyrðis viðureignum og Þór þá í 4. sæti og mætir liðinu í 5. sæti deildarinnar, neðsta sæti A-hlutans, sem er Valur.

- - -
Lokaumferð Olísdeildar karla í handknattleik verður spiluð á miðvikudagskvöldið og hefjast allir leikirnir kl. 19:30. KA sækir Fjölni heim í Grafarvoginn, en Fjölnismenn eru þegar fallnir úr deildinni. KA er í 9. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina og ljóst að liðið fer ekki í úrslitakeppni deildarinnar. 

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Fjölnishöll kl. 19:30
    Fjölnir - KA

KA þarf hins vegar ekki að óttast fall þótt öll úrslit fari á versta veg því liðið er með 13 stig eins og Grótta, en ÍR er tveimur stigum á eftir. KA er með betri árangur í innbyrðis viðureignum gegn báðum þessum liðum og ljóst að liðið mun enda í 9. eða 10. sæti deildarinnar og lýkur keppnistímabilinu með leiknum gegn Fjölni á miðvikudagskvöldið. 

- - -

FÖSTUDAGUR - körfubolti og fótbolti?

Umspil um laust sæti í efstu deild karla í körfubolta hefst á föstudag. Efsta liðið í deildinni, ÍA, fer beint upp í Bónusdeildina, en liðin í 2.-9. sæti berjast um hitt sætið. Þórsarar enduðu í 6. sæti deildarinnar og mæta liðinu í 5. sætinu, Fjölni. Lengi vel var útlit fyrir að Þórsarar enduðu í 5. sætinu, höfðu setið þar í nokkurn tíma, en Fjölnismenn náðu því af þeim í lokaleikjunum. Fjölnir hefur því heimavallarréttinn í þessu einvígi, byrjar á heimavelli og fær oddaleikinn á heimavöll, ef til hans kemur. 

  • Umspil 1. deildar karla í körfuknattleik
    Dalhús í Grafarvogi kl. 19:15
    Fjölnir - Þór

- - -

Úrslitaleikur A-deildar Lengjubikars kvenna í knattspyrnu er á dagskrá föstudagskvöldið 28. mars. Sigurliðið úr leik Þórs/KA og Stjörnunnar á mánudagskvöld mætir Breiðabliki í úrslitaleiknum.

LAUGARDAGUR - handbolti

Karlaliði Þórs í handknattleik nægir eitt stig úr leik sínum gegn HK 2 í lokaumferð Grill 66 deildarinnar. Jafntefli eða sigur þýðir að Þór vinnur deildina og fer beint upp í Olísdeild á næsta tímabili. Fari svo að Þór tapi fyrir HK 2 endar liðið í 2. sæti deildarinnar og mætir liðinu í 3. sætinu í undanúrslitum umspils um sæti í efstu deild. Líkurnar verða þó að teljast Þórsurum í hag því gera má ráð fyrir fjölmenni í Íþróttahöllinni og öflugum stuðningi við liðið. Fyrri leik Þórs og HK 2 lauk með átta marka sigri Þórs.

  • Grill 66 deild karla í handknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 16:15
    Þór - HK 2

Þór hefur spilað í næstefstu deild, Grill 66 deildinni, undanfarin fjögur tímabil, en liðið féll úr Olísdeildinni vorið 2021. Litlu munaði að Þórsurum tækist að fara upp um deild síðastliðið vor, en þeir töpuðu þá lokaeinvíginu á móti Fjölni, sem staldrar stutt við í efstu deild að þessu sinni því liðið er nú þegar fallið úr Olísdeildinni.