Fara í efni
Íþróttir

Þór í 8 liða úrslit bikarsins í fyrsta skipti síðan 2018 – MYNDIR

Þórsliðið fagnar hér fyrsta marki leiksins. Frá vinstri: Kristján Atli, Ingimar Arnar, Vilhelm Ottó, Aron Ingi og Elmar Þór. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason

Þórsliðið vann frábæran 3:1 sigur á Leikni í 16 liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu á heimavelli í kvöld eins og Akureyri.net greindi frá HÉR og verður því í pottinum þegar dregið verður í 8 liða úrslitin. Aron Ingi Magnússon, Ion Perello og Ingimar Arnar Kristjánsson gerðu mörk Þórs.

_ _ _

Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs gerði sjö breytingar á byrjunarliðinu frá tapinu gegn Aftureldingu síðastliðinn föstudag. Kristján Atli Marteinsson, Bjarni Guðjón Brynjólfsson, Aron Ingi Magnússon og Valdimar Daði Sævarsson voru þeir einu sem héldu sætum sínum.

_ _ _

Jafnræði var með liðunum framan af leik. Mikið var um baráttu á vellinum en hvorugu liðinu gekk vel að skapa sér opin færi. En þegar mínúta var liðin af uppbótartíma fyrri hálfleiks kom fyrsta markið.

Hart var barist í leiknum. Ekki alltaf löglega eins og sést hér að ofan.

_ _ _

1:0

Brynjar Hlöðvers átti þá slæma sendingu til baka, ætlaða markmanni Leiknis. Ingimar Arnar Kristjánsson komst inn í sendinguna, keyrði í átt að marki en tók of þunga snertingu til hægri og sóknin virtist vera að renna í sandinn. Ingimar hélt þó ró sinni og náði sendingu inn á markteiginn þar sem Aron Ingi Magnússon kom á ferðinni og skallaði boltann í netið.

_ _ _

Staðan var því 1:0 í hálfleik. Þórsliðið byrjaði seinni hálfleikinn betur og fékk nokkur færi til að bæta við mörkum.

2:0

Ion Perello sem hafði komið inn á sem varamaður stuttu áður tvöfaldaði forystu Þórs á 67. mínútu. Marc Sörensen gerði þá vel í að snúa af sér varnarmann og koma boltanum upp hægri kantinn þar sem Valdimar Daði tók hlaupið. Hann kom boltanum inn í teig á Ion sem skoraði með fínu skoti yfir Viktor í markinu.

_ _ _

2:1

Eftir annað mark Þórs sóttu Leiknismenn í sig veðrið og uppskáru mark á 74. mínútu. Omar Sowe fékk boltann á milli varnar og miðju, keyrði upp völlinn og fór fram hjá Birgi Ómari í vörninni. Sowe sendi boltann inn í teig þar sem Róbert Hauksson var mættur og renndi boltanum í netið.

Eftir mark Leiknismanna spilaði Þórsliðið ekki nógu vel og pressan frá gestunum hélt áfram. Leiknisliðið fékk frábært færi til að jafna á 80. mínútu leikins. Eftir mikið klafs í teignum átti Arnór Ingi skot en Birgir Ómar Hlynsson náði að bjarga frábærlega af marklínunni.

_ _ _

3:1

Heimamenn gerðu út um leikinn á 82. mínútu. Ingimar Arnar kórónaði þá leik sinn með marki. Fannar Daði Gíslason, sem spilaði sinn fyrsta leik í rúmt ár eftir meiðsli kom boltanum upp hægri kantinn á Ragnar Óla sem kom boltanum fyrir markið. Þar náði Ingimar góðu viðstöðulausu skoti sem Viktor í marki Leiknismanna réði ekki við.

Eftir þriðja markið var enginn spurning hvar sigurinn myndi enda og lokatölur 3:1. Spilamennska Þórsliðsins var góð heilt yfir en Leiknismenn voru sterkari aðilinn efir því sem leið á seinni hálfleik. En það eina sem skiptir máli þegar uppi er staðið að nafn Þórsara verður í pottinum þegar dregið verður í næstu umferð.