Þór mætir Stjörnunni í Garðabæ í kvöld
Það má búast við hörkuleik í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ í kvöld þegar kvennalið Þórs í körfuknattleik mætir liði Stjörnunnar í 8. umferð efstu deildar, Bónusdeildarinnar. Liðin hafa bæði unnið þrjá leiki af fyrstu sjö.
Þórsstelpurnar eiga enn eftir að vinna sinn fyrsta útisigur í deildinni á þessu tímabili. Liðið hefur unnið þrjá heimaleiki, en tapað fjórum útileikjum. Stjarnan hefur hins vegar aðeins unnið einn heimaleik af fjórum, en aftur á móti unnið tvo af þremur útileikjum sínum hingað til. Þór og Stjarnan háðu harða baráttu í 1. deildinni fyrir tveimur árum og fóru saman upp í efstu deild. Stjarnan hafði þá betur í oddaleik í úrslitaeinvígi 1. deildarinnar eftir bráðfjörugar viðureignir.
Til gamans má geta þess að tvær efstu í fjölda frákasta það sem af er tímabilinu eru einmitt í þesssum tveimur liðum. Þórsarinn Maddie Sutton er á toppnum, hefur tekið 117 fráköst, eða að meðaltali 16,71 í leik. Denia Davis-Stewart í Stjörnunni hefur tekið 110 fráköst, eða 15,71 að meðaltali í leik. Það má því væntanlega búast við skemmtilegri baráttu undir körfunni í leiknum í kvöld.
- Bónusdeild kvenna í körfuknattleik
Umhyggjuhöllin í Garðabæ kl. 19:15
Stjarnan - Þór