Jóhann Kristinn með Þór/KA næstu tvö ár
Jóhann Kristinn Gunnarsson hefur endurnýjað samning sinn við stjórn Þórs/KA til næstu tveggja ára. Jóhann Hreiðarsson verður aðstoðarþjálfari.
„Stjórn Þórs/KA fagnar því að hafa Jóhann Kristin áfram við stjórnvölinn í meistaraflokki enda hefur hann margsinnis sýnt og sannað getu sína, færni og þekkingu sem þjálfari og ávallt náð mjög góðum árangri í starfi sínu fyrir félagið. Einnig er fagnaðarefni að halda Jóhanni Hreiðarssyni áfram í teyminu eftir góða innkomu hans í starfi fyrir félagið á nýliðnu tímabili,“ segir í tilkynningu á vef Þórs/KA í dag.
„Nokkuð er síðan nafnarnir skrifuðu undir nýja samninga og hafa þeir því einfaldlega haldið áfram starfi sínu frá því að keppnistímabilinu lauk í byrjun október enda eru núna tæpar þrjár vikur síðan meistaraflokkur kom aftur saman til æfinga.“
Á vef Þórs/KA segir ennfremur:
- Jóhann Kristinn Gunnarsson er vel þekktur innan sem utan félagsins enda hefur hann stýrt meistaraflokki Þórs/KA samtals í sjö tímabil, fyrst tímabilin 2012-2016 og svo aftur tvö síðastliðin tímabil. Öll árin sem hann hefur þjálfað liðið hefur hann náð frábærum árangri, vann til dæmis Íslandsmeistaratitil með liðinu 2012, vann titilinn meistarar meistaranna og stýrði liðinu í bikarúrslitaleik og Evrópuleikjum 2013, og hefur ávallt haldið liðinu í baráttunni á toppi eða við topp deildarinnar.
- Jóhann Hreiðarsson kom inn í þjálfarateymi Þórs/KA síðastliðið vor og kom að starfinu í öllum flokkum félagsins, meistaraflokki, 2. flokki U20 og 3. flokki, og á því meðal annars þátt í Íslands- og bikarmeistaratitlum yngri flokka félagsins á árinu. Hann hefur nú verið ráðinn aðstoðarþjálfari nafna síns í meistaraflokki.
- Jóhann hefur áður starfað sem þjálfari og aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Dalvík/Reyni og þjálfun yngri flokka hjá Val og Breiðabliki. Hann á jafnframt að baki leiki með Val, Dalvík, Víkingi og fleiri félögum á árunum 1997-2015.