Fámennið dýrkeypt og Þór tapaði fyrir Haukum
Þór tapaði með níu stiga mun fyrir Haukum í 6. umferð efstu deildar kvenna í körfuknattleik, Bónusdeildinni, eftir að hafa verið með undirtökin lengst af og leitt með 13 stigum fyrir lokafjórðunginn. Haukar náðu að nýta sér breiddina í lokin á meðan orkan kláraðist hjá Þórsliðinu sem skoraði ekki körfu síðustu þrjár mínúturnar.
Liðin skiptust á forystunni framan af, en góður kafli í lok fyrsta leikhluta skilaði Þórsliðinu sjö stiga forystu. Þórsstelpurnar juku svo forskotið í upphafi annars leikhluta og héldu 9-11 stiga forystu út fyrri hálfleikinn og höfðu níu stiga forskot í leikhléi.
Haukar náðu að saxa á forskotið þegar leið á þriðja leikhluta og munurinn kominn niður í þrjú stig, en stáltaugar Þórsliðsins héldu, Natalia með tvo þrista á stuttum tíma og forystan orðin 13 stig þegar þriðja leikhluta lauk. Það var mesti munurinn á liðunum fram til þessa í leiknum.
Þessi munur hvarf þó þegar líða tók á lokafjórðunginn og Haukar jöfnuðu í 79-79 þegar um fjórar og hálf mínúta voru eftir og náðu forystunni. Þórsstelpurnar komust aftur yfir og það stefndi í æsispennandi lokamínútur, en þá var orkan í fámennu liði Þórs búin og Haukar skoruðu tíu síðustu stigin á meðan Þórsliðið náði ekki að skora körfu á síðustu þremur mínútunum. Staðan breyttist því úr 84-85 í 94-85 áður en yfir lauk.
Virkilega svekkjandi niðurstaða eftir að Þórsliðið spilaði vel og hafði raunar undirtökin í 30-35 mínútur. En það er ekki nóg, leikurinn er 40 mínútur.
- Gangur leiksins: Haukar - Þór (16-23) (21-23) 37-46 (23-27) (34-12) 94-85
- Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir og Maddie Sutton (f).
- Tölfræði leiksins
- Staðan í deildinni
Eva Wium Elíasdóttir og Amandine Toi voru stigahæstar í Þórsliðinu með 22 stig og Maddie Sutton tók 20 fráköst. Diamond Alexis Battles skoraði mest fyrir Hauka, 33 stig, og fyrrum leikmaður Þórs, Lore Devos, skoraði 24 stig.
Þór hefur unnið tvo leiki af fyrstu sex og er í 8. sæti deildarinnar. Haukar eru áfram á toppnum, eina liðið sem hefur aðeins tapað einum leik.
Stig/fráköst/stoðsendingar:
- Eva Wium Elíasdóttir 22 - 5 - 6
- Amandine Toi 22 - 5 - 2
- Maddie Sutton 13 - 20 - 4 - 30 framlagsstig
- Natalia Lalic 13 - 2 - 1
- Ester Fokke 12 - 7 - 6
- Emma Karólína Snæbjarnardóttir 3 - 2 - 2