Fara í efni
Umræðan

Það er margar hliðar á einum leikskóla, ekki satt?

Við sem samfélag höldum úti leikskólastarfi ekki síst til þess að gangverkið virki eins og til er ætlast.

Til þess að fólk komist til vinnu sinnar.

Til þess að allt fjölskyldufólk komist til vinnu sinnar.

Mömmur og pabbar, tekjulágir og tekjuháir. Leikskólinn er grundvallarstoð í hinu íslenska jafnréttissamfélagi. Samfélag þar sem jöfnuður tekna er mikill, þrátt fyrir allt. Ef við ætlum að leita skýringa á þeim árangri sem við höfum náð, þá er skýringuna að finna í þessari þjóðargæfu; hvernig við höfum byggt upp leikskólana okkar.

Leikskólinn er ekki gjaldfrjáls en munurinn er mikill þegar við horfum til landa þar sem hann er dýr og mæður í tekjulægri fjölskyldum eru fyrir vikið heimavinnandi. Ég þekki þennan mun af eigin reynslu, búsettur erlendis og við fjölskyldan og okkur fannst hann satt best að segja ekki heillandi.

Það er verðugt markmið að létta undir með ungu fjölskyldufólki en förum varlega í breytingar sem geta haft áhrif á jöfnuð og jafnrétti.

Þetta er ein hliðin. Leikskólinn þjónar hins vegar ekki bara foreldrum. Hann þjónar auðvitað fyrst og fremst börnunum. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og leikskólinn stendur ásamt heimilunum þar miðsvæðis við þorpstorgið. Stofnun þar sem velferð barna er höfð að leiðarljósi í öllu starfi. Þar sem við reynum að búa börnum okkar öruggt umhverfi svo þau fái notið sín til fulls í leik og starfi.

Það er ekkert nýtt að þessar tvær hliðar rekist lítillega á. Við höfum öll skoðun á því hvernig fyrirmyndaruppeldi lítur út. Fyrir flest okkar hefur leikskólinn eflaust sannað sig sem fyrsta skólastigið, þar sem hið faglega starf skilar elsta hópnum betur undirbúnum inn í grunnskóla, bæði félagslegar og námslega. En mörg okkar staldra líka við átta tíma dvöl yngstu barnanna. Það er langur tími og leitun að faglegum rökum sem mæla með lengri vistun umfram meiri tíma heima fyrir í faðmi fjölskyldunnar.

En hvað sem okkur finnst um uppeldisgildið og um jafnvægið milli heimilis og leikskóla, þá er þjónustuþörfin til staðar. Tölurnar sýna það svart á hvítu. Er þá sennilegt að við getum með góðu móti breytt þessari þörf, og fengið fjölskyldur og vinnumarkað til að móta sig að nýju og aðlaga sig að öðrum áherslum?

Eflaust geta bæjarfulltrúar og sveitarfélag reynt að hafa áhrif á hugarfar og forgangsröðun íbúa, en við verðum held ég að sætta okkur við talsvert áhrifaleysi í þeim efnum. Við getum og eigum að fá ríkið í lið með okkur, til að finna lausnir sem beinast að samfélaginu í heild en það samtal tekur sinn tíma eins og við öll þekkjum.

Veitum þá þjónustu sem kallað er eftir, jafnt fyrir alla og reynum að gera það eins vel og við getum.

Leikskólinn er líka vinnustaður og sennilegast einn mest krefjandi vinnustaður sem fyrirfinnst. Álagið er mikið og mikil áskorun að taka á móti öllum þeim börnum sem þurfa að komast að. Áskorun líka að mæta mismunandi þörfum og skipuleggja faglegt starf af þeim gæðum sem við viljum öll sjá. Álagið fer vaxandi, ekki minnkandi. Ef vel á að vera þurfum við að fjölga starfsfólki, fjölga leikskólaplássum og bæta vinnuumhverfið víðast hvar í hverfum bæjarins. Við vitum þetta öll.

Sveitarfélög verja um það bil helmingi útgjalda sinna í rekstur leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla og margvíslega aðra fræðslustarfsemi. Akureyrarbær er síður en svo eftirbátur annarra sveitarfélaga í þessum efnum. Það eru ýmsar áskoranir framundan og allar lausnir kosta sitt.

Ég hef sagt það áður á vettvangi bæjarmálanna að mér fannst óábyrgt fyrir síðustu kosningar að lofa gjaldfrjálsum leikskóla. Óábyrgt, en ekki þar með sagt að ég efist um heillindin á bakvið slík loforð.

Það er verðugt markmið að bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla en ekki síður verðugt að standa vel að leikskólamálum bæjarins.

Það niðurlag sem ég vil gera atrennu að er þetta: Vöndum okkur bara.

Það eru margar hliðar á leikskóla. Verum viss um að horfa á þær allar. Gerum það saman, leyfum mismunandi sjónarmiðum að heyrast.

Velferð samfélagsins er undir og við viljum öll gera þetta vel.

Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15