Fara í efni
Pistlar

Sögur úr Kjarna

TRÉ VIKUNNAR - LXXIX

Helsta krúnudjásn Skógræktarfélags Eyfirðinga er Kjarnaskógur. Þar er fagurt umhverfi sem stuðlar að bættri lýðheilsu. Fjöldi fólks hefur unnið þar og starfað í gegnum tíðina og margir eiga þaðan góðar minningar. Þar hafa orðið til nokkur hjónabönd og enn fleiri trúlofanir. Mörg leyndarmálin eru geymd í laufskjólinu. Í þessum pistli verða sagðar fáeinar sögur úr skóginum. Af nægu er að taka og vel má vera að við birtum síðar fleiri sögur, einkanlega ef við fáum þær sendar. Við skreytum pistilinn með gömlum myndum úr safni félagsins. Þær segja margar hverjar sínar eigin sögur.

 

Jakob Valdimarsson Thorarensen var einn af lykilstarfsmönnum félagsins á síðustu öld. Hér snyrtir hann aðkomuna að starfsaðstöðunni í Kjarna og notar til þess orf og ljá. Enn eru páskaliljurnar, sem sjást að baki Kobba, á þessum stað og koma upp árlega. Mynd úr safni SE.

Þórður í Kjarna
 
Árið 1981 var gefin út bók með minningarbrotum úr ævi Jóhanns Ögmundssonar. Heitir bókin Gaman lifa og Erlingur Davíðsson skráði. Þessi saga er úr þeirri bók og þótti Erlingi hún það góð að hann endursagði hana í tímaritinu Súlum skömmu síðar. þessi bók var einnig ein aðalheimildin í þessum pistli okkar um skóglausan Kjarna. Þann pistil má einnig finna í nýútkomnu Skógræktarriti Skógræktarélags Íslands.
 

Fyrir um tveimur öldum flutti Þórður Pálsson frá Sörlastöðum í Fnjóskadal að Kjarna við Akureyri. Þetta var löngu áður en skógrækt hófst þar. Þórður flutti ekki einn, enda átti hann fjóra syni og níu dætur með konu sinni. Þótti fjölskyldunni fýsilegra að eiga heima nærri Akureyri en frammi í Fnjóskadal þar sem ekki var mikið úrval mannsefna. Þegar fréttist um byggðir Eyjafjarðar og á Akureyri að níu gjafvaxta dætur væru komnar í Kjarna og allar hinar mestu fríðleikskonur, lögðu margir leið sína þangað til að sjá hinn fríða hóp. Þótti það mikill kvennablómi. Víðar spurðist til meyjanna. Tveir menn komu gangandi austur frá Vopnafirði til kvonfanga í Kjarna. Munu þeir hafa verið hinir mannvænlegustu því þeir fengu báðir jáyrði. Er margt ágætra manna komið af þessum hjónum um allt Austurland. Þar á meðal er að minnsta kosti einn ráðherra. [Mun þar vera átt við Vilhjálm Hjálmarsson frá Brekku í Mjóafirði sem var menntamálaráðherra 1974–1978. Innskot Sig.A.]

Eitt sinn sem oftar voru gestir komnir í Kjarna og sást þá enn til mannaferða. Þórður bóndi, sem þá var staddur úti á túni, á að hafa sagt með nokkru stolti, enda ástæða til: „Kemur einn enn að biðja um snót, eins og enginn eigi snót nema Þórður í Kjarna.“
 

(Byggt á skrifum Erlings Davíðssonar)

 

Kjarnabærinn, sem Þórður bjó í, var jafnaður við jörðu um miðja síðustu öld. Aftur á móti má finna rústir kota og útihúsa í skóginum. Mynd: Bergsveinn Þórsson.

Hrafninn
 
Það var Hrefna Hjálmarsdóttir sem lánaði okkur bókina þar sem þessa frásögn er að finna. Hún gaf okkur efnið í eftirfarandi sögu.
 

Fyrir mörgum árum vann sonur Hrefnu í skóginum. Á þeim dögum hélt til í skóginum óvenju greindur hrafn. Hélt hann sig oft nærri sumarstarfsfólki er það borðaði nesti sitt í von um að hljóta bita. Það gekk sjaldan eftir svo hann þurfti að grípa til aðgerða. Í góðu veðri sátu starfsmenn úti við er þeir borðuðu nesti sitt. Stundum sátu þeir við borð en stundum í grasinu. Þegar þessi saga gerðist sat einn starfsmaður við borð með samloku í höndunum. Hrafninn var á vappi í kring um borðið góða án þess að fá eitthvað í gogginn. Þá hoppaði hann að borðinu, svo lítið bar á og togaði í reimar á strigaskó starfsmannsins með þeim árangri að þær losnuðu. Þetta þótti starfsmanninum merkilegt og laut niður til að hnýta skóþveng sinn, eins og sagt er í Íslendingasögunum. Það tók ekki langan tíma, en þegar drengurinn leit upp aftur var samlokan, sem hinn óheppni starfsmaður skyldi eftir á borðinu, horfin. Hrafninn flaug í burtu með feng sinn, sæll og glaður.

 

Grillað við Raivolalerkið í skóginum árið 1989. Mynd úr safni SE.

Hliðið við Brunná
 

Hallgrímur Indriðason fæddist á Akureyri árið 1947 og ólst þar upp. Hann hóf störf hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga þegar hann var 14 ára. Eftir skógræktarnám í landnýtingu og svæðaskipulagi tók hann við framkvæmdastjórn hjá Skógræktarfélaginu árið 1976 og gegndi því starfi til 2004. Á hann stóran þátt í útliti Kjarnaskógar og auðvitað tengist hann mörgum sögum úr skóginum. Þegar Hallgrímur kom heim frá námi var Kjarnaskógur lokaður á kvöldin. Það var gert með því að setja upp hlið við Brunná. Var þetta gert til að vernda skóginn, meðal annars vegna eldhættu. Á þessum árum var býsna algengt að kærustupör héldu inn í Kjarnaskóg til að innsigla trúlofun sína og kanna gögn og gæði tilvonandi hjónabands í skjóli trjánna. Stundum stóðu þessar kannanir nokkuð lengi og því kom það iðulega fyrir að fólk læstist inni í skóginum. Ef fólk var á gangi þegar hliðinu var læst komst það auðveldlega út, en ef það hafði keyrt inn í skóginn gat þetta orðið vandræðalegt. Hallgrímur hafði aðeins verið starfandi sem framkvæmdastjóri félagsins í örfáa daga þegar hann var vakinn upp um miðja nótt af lögreglunni á Akureyri. Auðvitað var honum nokkuð brugðið en erindið var að fá hann til að opna hliðið við Brunná til að hleypa fólki út. Eftir þetta gerðist það mjög oft að Hallgrímur var vakinn upp á næturnar af lögreglumönnum svo hann gæti hleypt nýtrúlofuðum næturgestum út úr skóginum. Það var ekki fyrr en hætt var að læsa hliðinu sem þessar næturferðir framkvæmdastjórans lögðust af.

Nú vitum við, sem betur fer, ekkert um hverjir hnykkja kunna á trúlofun sinni í skóginum um þessar mundir.

Skotveiðimaður í skóginum
 
Í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar er að sjálfsögðu kafli um Kjarnaskóg. Þar er að finna eftirfarandi frásögn sem sögð er munnmælasaga.
 

Skotveiðar eru stranglega bannaðar í Kjarnaskógi enda er slíkt varhugavert innan um skemmtiskokkara, börn að leik og fólk í lautarferð. En veiðieðlið getur reynst sterkara lögum og reglu. Eitt sinn hafði Hallgrímur Indriðason, sem þá var framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins, spurnir af rúpnaveiðimanni í skóginum. Hann brá skjótt við og eftir stranga göngu náði hann veiðimanninum. Hallgrími hafði runnið í skap á göngunni og hellti sér yfir veiðimanninn, sem nú var orðinn fórnarlamb. Í lok reiðilestursins greip Hallgrímur til líkinga til að gera veiðimanni ljósa hættuna sem af athæfi hans gæti leitt. Hann spurði því veiðimanninn hvort hann „vilji ekki bara fara að veiða í Lystigarðinum eða kirkjugarðinum?

Ætli sé eitthvað að hafa þar?“ var svarið sem Hallgrímur fékk og voru þetta jafnframt lokaorð hins yfirbugaða veiðimanns.

 

Hallgrímur Indriðason á þeim tíma þegar hann stýrði Kjarnaskógi og tók að sér starf veiði- og hliðvarðar. Mynd: Úr safni SE, höfundur ókunnur.

Smásaga
 

Þegar unnið var að uppbyggingu á Steinagerði, þar sem nú er meðal annars grillaðstaða, vatnsbrunnur og leiktæki, var slegið upp nestisskýli eða starfsmannaaðstöðu úr ókeypis afgangstimbri. Á sama tíma var unnið að byggingu óskabarns þjóðarinnar: Hótel Sögu í höfuðborg landsins og fréttir áberandi í dagblöðum af gullkrönum á hótelsvítum, almennum lúxus og samfélagslegu mikilvægi framkvæmdanna þar syðra. Hver tengir ekki við það?

Umrætt nestis- eða áhaldaskýli hlaut umsvifalaust nafnið Smásaga. Það skýli er nú löngu horfið en nafnið þótti svo gott að þegar nýreist sögunar- og viðarvinnsluhús félagsins í Kjarna, sem er ódýr seglskemma án alls íburðar, var reist þótti einboðið að endurnýja þetta nafn. Svo á auðvitað eftir að saga í skemmunni verðmæta viði um ókomin ár. Það styður við rekstur félagsins og gefur öðrum skógareigendum á starfssvæðinu möguleika á að gera verðmæti úr sinni timburauðlind. Þannig nýtist Smásaga fólki á svæðinu mun betur en hið fyrrverandi hótel.

(Byggt á frásögn Ingólfs Jóhannssonar)

 

Mynd úr safni SE sem sýnir gömlu sögina þegar hún var ný. Mynd: Höfundur ókunnur.

Jónulundur
 

Eins og kunnugt er þekkist það um allt land að skógarlundir eru kenndir við fólk sem átti hvað mestan þátt í að koma þeim á legg. Frægastur þessara lunda er sennilega Guttormslundur í Hallormsstaðaskógi. Í Kjarna höfum við svokallaðan Jónulund. Stundum hafa stjórnar- og starfsmenn af öllum kynjum verið spurðir hver þessi Jóna sé, sem lundurinn er kenndur við. En nafnið á aðra sögu.

Málið er að um tíma sóttu hassreykingarmenn stíft í þennan lund og reyktu þar sínar jónur í skjóli fyrir árvökulum augum löggæslumanna bæjarins. Við getum sagt frá því núna, þegar siður þessi virðist vera lagður af, að þaðan er nafnið komið.

 

Mynd úr safni SE af öflugum starfsmönnum. Frá vinstri sjást þeir Kári Gunnarsson, Bergsveinn Þórsson og Haukur Trampe. Myndin er sögunni hér að ofan ótengd með öllu en er tekin í skemmunni við höfuðstöðvar félagsins.  

Þýski fáninn
 

Á 9. áratug síðustu aldar var Steingrímur J. Sigfússon ráðherra landbúnaðarmála á Íslandi. Þá kom til landsins starfsbróðir hans frá Vestur-Þýskalandi, en á þeim tíma voru Þýskalöndin tvö. Eitt af því sem þótti alveg bráðsnjallt að sýna þýska landbúnaðarráðherranum var það starf sem unnið hafði verið í Kjarnaskógi. Áður en þeir starfsbræður birtust í skóginum áttuðu skógarmenn sig á því að sennilega væri þjóðráð að flagga þýska fánanum, til heiðurs ráðherranum. Hallgrímur Indriðason, sem þá var framkvæmdarstjóri, gekk í málið og leysti þetta verkefni fljótt og vel. Rétt áður en að heimsókninni kom var fáninn dreginn að húni.

Víkur nú sögunni til Aðalsteins Svans Sigfússonar, sem þá var verkstjóri í Kjarnaskógi. Hafði hann til umráða forláta bifreið Skógræktarfélagsins og voru þeir báðir, Aðalsteinn og bíllinn, staddir á klettunum ofan við trimmbrautina þar sem hún liggur hvað hæst. Sá þaðan yfir starfsaðstöðuna og dáðist Aðalsteinn þaðan að fánanum en þótti hann eitthvað einkennilegur. Hann var þó viss um að þetta væri réttur fáni, en hvorki fáni Þýska Alþýðulýðveldisins né fáni Belgíu sem er í sömu litum. Var það nokkur léttir. Flögraði þá að Aðalsteini hvort það gæti verið að fáninn væri á hvolfi. Mundi hann þá að í bifreið félagsins var forláta farsími, nokkuð umfangsmeiri en þeir síðar urðu. Greip nú Aðalsteinn síma þennan og hringdi lóðbeint í þýska sendiráðið til að fá úr því skorið í einum hvelli hvað snúa ætti upp og hvað niður á þýska fánanum. Ritari sendiráðsins tók ljúfmannlega í erindið en þurfti að fletta þessu upp. Eftir nokkra stund kom hún aftur í símann og hafði leyst þessa gátu. Hún sagði Aðalsteini hvaða litur ætti að vera efst, og hver neðst. Var þá farið að styttast mjög í komu ráðherranna en samkvæmt þessum upplýsingum reyndust áhyggjur Aðalsteins réttar. Fáninn snéri öfugt. Hringdi nú Aðalsteinn í ofboði til að finna einhvern sem gæti látið móttökunefndina vita. Með hjálp góðra manna tókst að bjarga andlitum félagsins og umhverfisráðuneytisins með því að snúa fánanum við í tæka tíð.

 

Unglingavinnuflokkur, ásamt flokkstjórum í Kjarnaskógi árið 1988. Þetta er ekki sami flokkur og var að störfum þegar þýski ráðherrann kom í heimsókn en myndin er frá svipuðum tíma. Mynd úr eigu SE.

Meðal þeirra sem urðu vitni að þessu veseni með fánann var unglingavinnuflokkur sem var að störfum í skóginum undir stjórn flokksstjóranna Sigurðar Magnasonar og Hauks Haukssonar. Til að tryggja að félagið lenti aldrei aftur í slíkum hremmingum settu þeir saman vísu til að muna hvernig fáni Þýskalands á að snúa. Vísan er enn í fullu gildi en að okkar mati ekki prenthæf.

(Byggt á frásögn Aðalsteins Svans Sigfússonar)

 

Hinn fagri fáni Þýskalands eins og hann á að snúa. Svartur, rauður og gylltur eins og guli liturinn er oftast nefndur er hann ratar í fána.

Þakkir 
 

Þakkir fá allir þeir sem unnið hafa að því að gera Kjarnaskóg að því sem hann er. Sérstakar þakkir fá þeir sem létu okkur í té sögur í þennan pistil. Ólafur Thoroddsen, fyrrum formaður félagsins, fær þakkir fyrir að skanna ljósmyndir á stafrænt form og Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fær þakkir fyrir yfirlestur.

Heimildir
 
Aðalsteinn Svanur Sigfússon, fyrrum verkstjóri í Kjarnaskógi. Munnleg heimild í janúar 2024.

Erlingur Davíðsson (1981): Gaman að lifa. Minningarbrot úr ævi leikstjórans, leikarans og söngvarans Jóhanns Ögmundssonar. Bókaútgáfan Skjaldborg, Akureyri.

Hallgrímur Indriðason og Aðalsteinn Svanur Sigfússon (2000): Kjarnaskógur. Í: Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju. Ritstj. Bjarni E. Guðleifsson bls. 129-143. Skógræktarfélag Eyfirðinga. Akureyri. Hallgrímur Indriðason, fyrrum framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga. Munnleg heimild í febrúar 2024.

Hrefna Hjálmarsdóttir (2024): Munnleg heimild þann 2. júlí 2024.

Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfiðinga. Munnleg heimild í janúar 2024.

 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir jafnan hluta hvers pistils en í dag er hann birtur í heild.

Smellið hér til að sjá alla pistlana á vef Skógræktarfélagsins.

Hús dagsins: Litli-Hamar

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 15:15

Sjálfbærni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
07. september 2024 | kl. 09:00

Hvað er svona merkilegt við það?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 06:00

Samfélagsábyrgð fyrirtækja

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 22:00

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður

Orri Páll Ormarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 08:30

Fyrr og nú við vatnsleiðslu

Sigurður Arnarson skrifar
04. september 2024 | kl. 08:50