Fara í efni
Íþróttir

Síðasta mark ÍBA – 50 ár frá lokaleiknum

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XLVII

Í gær voru 50 ár liðin frá síðasta leik karlaliðs Íþróttabandalags Akureyrar á Íslandsmótinu í knattspyrnu. ÍBA, sameiginlegt lið Þórs og KA, tók fyrst þátt í Íslandsmótinu árið 1946 og síðan óslitið frá 1954 til 1974. 

Lið ÍBA og Víkings urðu jöfn í neðsta sæti deildarinnar að lokinni hefðbundinni, tvöfaldri umferð árið 1974. Höfðu bæði níu stig að loknum 14 leikjum og mættust í aukaleik til að skera úr um hvort liðið héldi sæti í deildinni. Leikurinn fór fram í Keflavík og Víkingar sigruðu 3:1. Þar með voru örlög ÍBA ráðin og svo fór að um veturinn var samstarfi Akureyrarliðanna slitið og þau hófu að leik hvort undir eigin merki í 3. deild, sem þá var neðsta deild Íslandsmótsins, sumarið 1975.

Meðfylgjandi mynd, gamla íþróttamyndin þessa helgina, er ekki sérlega góð enda úrklippa úr Morgunblaðinu. Myndin er hins vegar af sögulegu augnabliki og rík ástæða til að birta hana þótt frummyndin sé ekki til; þarna skorar nefnilega Sigbjörn heitinn Gunnarsson fyrir ÍBA í leiknum í Keflavík, síðasta markið í sögu ÍBA.

Sigbjörn kom ÍBA í 1:0 þegar aðeins stundarfjórðungur var liðinn en það dugði skammt því Reykvíkingarnir skoruðu í þrígang; Kári Kaaber jafnaði á 28. mín., Óskar Tómasson gerði annað markið á 73. mín. og Jóhannes Bárðarson það þriðja á 76. mín.

Hinu sögulega marki Sigbjörns Gunnarssonar var lýst á dásamlegan hátt í Vísi. Þar segir:

Norðanmenn voru mjög sprækir í upphafi leiksins og bakverðir Víkinganna virtust álíta að allt illt kæmi fram miðjuna, frá þeim Kára [Árnasyni], Sigbirni og Gunnari Blöndal. Útherjar ÍBA fengu því oft lausan tauminn og gátu athafnað sig að vild, sérstaklega Árni Gunnarson. Á 15. mín. fékk hann óáreittur að senda nákvæman knött beint á koll Sigbjörns, sem hneigði sig djúpt fyrir Diðrik markverði og knötturinn sveif fallega í markhornið, 1:0. 

Fyrirsögnin á umfjöllun Vísis eftir sigur Víkings á ÍBA í aukaleiknum í október 1974.