Akureyrarmeistarar í knattspyrnu 1978

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 75
Besta deild kvenna í knattspyrnu er nýhafin og þar eru Stelpurnar okkar í Þór/KA að sjálfsögðu í eldlínunni sem fyrr. Þar af leiðandi er vel viðeigandi að akureyrskar knattspyrnukonur prýði gömlu íþróttamyndina að þessu sinni.
Akureyrarmót í knattspyrnu var haldið til fjölda ára í öllum aldursflokkum og verðlaunahátíð fór síðan fram að hausti. Mynd dagsins var tekin í október árið 1978 – fyrir 47 árum – þegar verðlaun voru afhent í gamla Alþýðuhúsinu við Gránufélagsgötu – Allanum; húsi sem rifið var fyrir nokkrum misserum. Á myndinni eru Akureyrarmeistarar Þórs í meistaraflokki. Sá sem þetta skrifar þekkir nokkrar með nafni en lætur fátt uppi strax því gaman væri ef lesendur rýndu í myndina og spreyttu sig. Fólk er hvatt til að senda upplýsingar um nöfn á netfangið skapti@akureyri.net
Til gamans má þó nefna tvær stúlknanna, sem áttu langan og farsælan íþróttaferil fyrir höndum; það eru fyrirliðinn, Valdís Hallgrímsdóttir, sem heldur á bikarnum fyrir miðri mynd og Þórunn Sigurðardóttir sem er lengst til hægri. Þórunn lék lengi bæði handknattleik og knattspyrnu, Valdís lék handknattleik í mörg ár og keppti í kraftlyftingum um tíma en lagði mesta áherslu á frjálsíþróttir. Hún var um tíma í fremstu röð hlaupara hér á landi.