Gamla íþróttamyndin: Þorvaldur til Forest

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 73
Íslandsmótið í knattspyrnu hefst í dag með leik Íslandsmeistara Breiðabliks og nýliða Aftureldingar í Bestu deildinni. KA-menn hefja leik á morgun þegar fá KR-inga í heimsókn og af því tilefni er tilvalið að gamla íþróttamyndin í dag tengist bæði KA og KSÍ.
Þorvaldur Örlygsson var í aðalhlutverki hjá KA þegar félagið varð Íslandsmeistari í knattspyrnu árið 1989 – fyrir 36 árum. Ekki nóg með að hann væri besti maður meistaraliðsins heldur var Þorvaldur kjörinn knattspyrnumaður ársins af leikmönnum liðanna í efstu deild.
KA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Keflvíkingum á útivelli um miðjan september og fáeinum dögum síðar hélt hann til Englands og hóf æfingar með Forest. Hann hafði gert munnlegan samning við félagið síðla ágústmánaðar.
Skrifað undir í KA-heimilinu
Nokkur tími leið þar til Þorvaldur fékk atvinnuleyfi en þegar það var í höfn brugðu þeir sér til Akureyrar, Þorvaldur og Ron Fenton, aðstoðarmaður Brians Clough knattspyrnustjóra Forest, og gengið var frá kaupum enska félagsins á Þorvaldi frá KA. Á myndinni takast þeir í hendur eftir undirritun samnings í KA-heimilinu, Stefán heitinn Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar KA, og Fenton. Þorvaldur stendur á milli þeirra.
„Ég er ánægður með að vera búinn að ganga frá þessu; að öll skriffinskan skuli vera að baki. Nú getur maður farið að snúa sér að því sem til stóð – að spila fótbolta. Það er gaman að vera orðinn atvinnumaður en ég á auðvitað eftir að sanna að ég sé þess verðugur,“ sagði Þorvaldur í samtali við Morgunblaðið.
Hætt við jólafrí ...
Fenton sagði, í samtali við blaðið, aðspurður hvort hann teldi Þorvald eiga möguleika á að komast í liðið fljótlega, að þriggja mánaða aðlögunartími væri ekki óeðlilegur þegar nýir menn kæmu til félags eins og Forest. „Það stóð til að Þorvaldur færi heim um jólin í frí, en Clough hefur nú sagst vilja hafa hann úti, þó svo Þorvaldur hafi ekki æft verulega mikið síðustu tvo mánuði. Við eigum nokkra leiki fyrir höndum yfir hátíðarnar, menn verða hugsanlega orðnir þreyttir og því gæti komið sér vel að hafa hann „ferskan“ á bekknum. Það gæti því vel farið svo að Þorvaldur yrði á varamannabekknum í einhverjum jólaleikjanna og fengi að spreyta sig hálfan leik eða svo,“ sagði Fenton.
Beint inn í aðalliðið!
Brian Clough var ólíkindatól og aðeins 11 dögum eftir að Þorvaldur skrifaði undir samninginn í KA-heimilinu var hann í byrjunarliði Forest í sigurleik á Southampton. „Þetta er ótrúlegt. Hingað kem ég frá Íslandi og fer beint inn í aðalliðið án þess að hafa leikið með varaliðinu áður. Þetta var óvænt, en sýnir hvað Clough er kaldur,“ sagði Þorvaldur við Morgunblaðið eftir leikinn.
Þorvaldur, sem nú er formaður Knattspyrnusambands Íslands, starfaði í 10 ár sem knattspyrnumaður í Englandi. Var fyrst fjögur ár á mála hjá Forest og lék síðan með Stoke City og Oldham Athletic áður en hann sneri heim á ný og gerðist leikmaður og þjálfari KA.