Fara í efni
Umræðan

Síðasta ákallið að sinni

Sunnudagur 25. september kl. 14: Þór/KA – Stjarnan. Mætum og höfum hátt!

Hér er ég enn og aftur með ákall til Akureyringa. Vil bara minna á að Þór/KA leikur síðasta heimaleikinn sinn í Bestu deildinni þetta árið á sunnudaginn kl. 14. Frítt er á leikinn eins og tvo þá síðustu. Engar afsakanir, fyllum stúkuna, styðjum stelpurnar.

Stígandi í leik liðsins

Stelpurnar í Þór/KA hafa sýnt það betur og betur eftir því sem liðið hefur á tímabilið, og sérstaklega núna undanfarið að þær búa yfir miklum hæfileikum og baráttuvilja. Með samstöðu, leikgleði og fórnfýsi hafa þær náð að snúa við gengi liðsins og hafa unnið tvo af síðustu þremur leikjum og gert eitt jafntefli.

Liðið er klárlega á réttri leið og hefur sýnt það í undanförnum leikjum. Þar á stuðningsfólkið mikilvægan hlut að máli því fleiri hafa mætt á tvo síðustu heimaleiki en leiki fyrr í sumar og stuðningurinn verið öflugri úr stúkunni. Stuðningsfólk okkar hefur ávallt verið öflugt í gegnum tíðina og stemningin á leikjunum gegn Þrótti og ÍBV minnti óneitanlega á það þegar við vorum í toppbaráttu fyrir nokkrum árum. Það eru ekki ný sannindi að það er auðveldara að mæta og styðja þegar vel gengur, en gleymum ekki að stuðningurinn er enn mikilvægari þegar á móti blæs.

Sjálfboðaliðarnir skipta öllu máli

Sú umræða verður háværari með hverju árinu að sífellt verði erfiðara að fá sjálfboðaliða til starfa innan íþróttahreyfingarinnar. Í tilefni af umræðu um umgjörð leikja langar mig til að vekja athygli á því öfluga og góða fólki sem starfar í kringum liðið. Þar á ég við fólkið í stjórninni og aðra sjálfboðaliða sem sjá um að allt í aðdraganda og umgjörð leiksins sé eins og best verður á kosið. Í þeim hópi eru meðal annars áhugasamir og öflugir foreldrar leikmanna sem taka að sér ýmis störf á leikjum, svo sem í miðasölu, öryggisgæslu í stúku og niðri á leiksvæði ásamt fleiru.

Eins og dæmin sýna er ekki sjálfgefið að manna slíka umgjörð, en við hjá Þór/KA höfum ávallt verið heppin að þessu leyti – öflugt fólk sem er tilbúið að gefa sér tíma til að veita stelpunum okkar þá umgjörð sem þær eiga skilið. Takk, öll!

Mikilvægt að klára af krafti

Nú er komið að síðasta heimaleiknum þetta sumarið, gegn Stjörnunni sunnudaginn 25. september kl. 14. Það verður frítt á þennan leik eins og tvo þá síðustu og nú fyllum við stúkuna!

Þó svo við höfum komið okkur frá mesta hættusvæðinu í botnbaráttunni með sigrinum í Keflavík megum við alls ekki slaka á og halda að við séum örugg. Jafnvel þótt við værum örugg er mikilvægt að liðið fái áfram öflugan stuðning úr stúkunni og nái að halda áfram á þeirri braut sem það hefur verið. Mikilvægt að klára tímabilið af krafti og taka þá tilfinningu með sér í fríið – og rifja hana svo upp aftur þegar við hefjum leik að nýju á undirbúningstímabilinu 2023.

Veðurspáin segir bara: Skellum okkur í kuldagallana, drögum fram regnhlífina og tökum almennilega á því á sunnudaginn!

Haraldur Ingólfsson er liðsstjóri hjá Þór/KA og áhugamaður um knattspyrnu kvenna

Hugvekja á Ýli

Hildur María Hansdóttir skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 15:30

Framtíðin er núna

Ingvar Þóroddsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 13:00

Valdið til fólksins – lykillinn að sterkara þjóðfélagi

Theodór Ingi Ólafsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 12:00

Félagshyggja hvað er nú það?

Haraldur Ingi Haraldsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:19

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50