Fara í efni
Menning

Sannkallaður óður til móðurástarinnar

AF BÓKUM – 12

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir _ _ _

Herbergi
Emma Donoghue

Karlmaður rænir ungri konu og heldur henni fanginni í neðanjarðarbyrgi í fjölda ára.

Við höfum flest heyrt svona sögur, því miður skjóta þær reglulega upp kollinum í raunveruleikanum. Herbergi er skáldsaga og byggir því ekki á ákveðnu máli en höfundurinn, Emma Donoghue hefur sagt að Fritzl-málið hafi verið kveikjan að sögunni.

Það merkilega við þessa bók er að aðalpersónan er hvorki unga konan né ofbeldismaðurinn sem rænir henni, heldur barnið sem kemur undir og fæðist inn í þennan hörmulega raunveruleika. Öll sagan er sögð frá sjónarhorni barnsins sem þekkir ekki annað og skilur ekki hversu óeðlilegar og skelfilegar aðstæðurnar eru.

Jack hefur aldrei farið út úr herberginu sem hann fæddist í, aldrei séð almennilegt sólarljós eða andað að sér fersku lofti. Eina manneskjan sem hann þekkir er mamma hans. Þegar karlinn kemur niður til þeirra á Jack að bíða inni í fataskáp og hafa alveg hljóð. Nú er hann hins vegar orðinn 5 ára, nógu gamall til þess að mamma hans treystir honum til þess að taka þátt í flóttatilraun.

Eins hörmulegt og sögusviðið og aðstæður Jack og mömmu hans eru, þá er sagan sannkallaður óður til móðurástarinnar. Samband þeirra mæðgina er ofboðslega fallegt og einlægt. Meðan það sést greinilega að mamma hans gerir allt sem hún getur til þess að tryggja vellíðan Jacks er einnig ljóst hann er eina ástæða þess að hún er enn á lífi.

Sagan er í senn bæði falleg og sorgleg. Ég mæli eindregið með því að hafa vasaklúta við höndina því ég grét af sorg, grét af gleði og grét af reiði. Þetta er bók sem kallar fram allan tilfinningaskalann.

Sagan hefur einnig verið kvikmynduð með Bree Larson í aðalhlutverki. Myndin heitir Room en þó skal alls ekki rugla henni saman við költ-myndina The Room sem er af allt öðrum toga.