Fara í efni
Menning

Tengdamamman – erfið saga en líka dásamleg

AF BÓKUM – 17

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri. 

Í dag skrifar Dagný Davíðsdóttir_ _ _

Í þetta skiptið langar mig að mæla með bókinni Tengdamamman eftir sænska rithöfundinn Moa Herngren.

Bókin er skáldsaga um ýmsar hliðar mannlegra samskipta og hvernig mismunandi væntingar til samskipta geta haft slæm áhrif á þau. Ása, einstæð móðir sem vinnur sem einhvers konar samskiptráðgjafi, hefur alltaf átt í góðu sambandi við son sinn. Það breytist fljótlega eftir að hann eignast nýja kærustu. Fljótlega er erfitt að leggja bókina frá sér, maður finnur svo til með persónum bókarinnar og verður bara að vita meira. Ása fer að komast að því að sonur hennar upplifði æsku sína ekki eins og hún hélt, eða hvað? Ýmislegt óuppgert og ósagt kemur upp á yfirborðið.

Sagan er dásamleg en í leiðinni erfið, áhrifamikil bók um það hvernig ímyndin sem við höfum af okkur sjálfum og hvernig einhver annar skynjar okkur getur verið allt önnur. Bókin er góð og kápan er falleg. Tilvalið fyrir bókaklúbba að lesa saman og spjalla svo um hvernig þið upplifðuð söguna hver á sinn hátt.

Ps. Ég á dásamlega tengdamömmu, þessi meðmæli hafa ekkert með mína að gera!