Fara í efni
Menning

Vegahandbókin – Lykillinn að landinu

AF BÓKUM – 13

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Þorsteinn Gunnar Jónsson_ _ _

Mér finnst persónulega gaman að grúska og ýmsar (lesist: margar) handbækur hafa verið notaðar af mér í gegnum tíðina. Vissulega er hægt að fletta svo mörgu upp á netinu en það er sérstök og skemmtilegri tilfinning við að fletta blaðsíðum og finna rétta efnið. Frá því árið 2014 hef ég starfað við leiðsögn á sumrin samhliða bókasafnsstarfinu og það er mjög gefandi starf. Þar kemur Vegahandbókin að góðum notum. Ég hef keypt nokkrar útgáfur en þar sem ég leiðsegi á ensku, þá eru keyptu eintökin mestmegnis á því tungumáli hjá mér. Bókin hefur nokkrum sinnum verið þýdd á ensku og þýsku, en kemur út á nokkurra ára fresti – 2023 útgáfan er sú tuttugasta. Ég hef líka fengið mér appið á símann, en nota það lítið sem ekkert.

Í bókinni er að finna upplýsingar um þúsundir staða og kennileita og hún er mjög skynsamlega byggð upp. Kortin í bókinni sýna heitin/nöfnin og til hliðar eru nánari upplýsingar gefnar í textaformi. Veganúmer eru sýnd og þannig er auðvelt að fylgja kortinu eftir, jafnvel þótt næsta síða í bókinni sé ekki sú sem þú leitar eftir. Alla vega finnst mér þetta mjög þægilegt skipulag og glugga reglulega í bókina, þó svo að ég kunni ýmislegt um staðina sem ég er að keyra framhjá. Og ég lofa – ég er ekki að kíkja í bókina meðan ég er undir stýri! Til hægðarauka er staðarnafnaskrá aftast í bókinni, einnig getur sumt aukaefnið verið mjög fróðlegt (t.d. þjóðsögur, hálendiskaflar og fleira) og kortin sýna líka ýmsa þjónustu sem boðið er upp á á hverjum stað.

Ég man eftir Vegahandbókinni frá því ég var krakki, en hún hefur komið reglulega út frá árinu 1973. Í auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu 18. júlí 1973 stendur að „Vegahandbókin sameinar í einni bók, það sem áður var að finna í mörgum bókum og kortum: ítarlegar leiðarlýsingar, fróðlegar staðarlýsingar og vegakort í þrem litum. Vegahandbókin veitir öllu ferðafólki örugga leiðsögn um land allt.“ Þegar bókin kom út árið 1973 þá fylgdi þáverandi samgönguráðherra, Hannibal Valdimarsson, bókinni úr hlaði og minntist á að ekki væri alltaf hægt að hafa með sér „sjóðfróðan ferðafélaga.“ Þá væri besta lausnin sú að leita til Vegahandbókarinnar. Og því til undirstrikunar man ég eftir að þessa bók var mjög oft að finna í hólfinu í hurð á bílnum eða í hanskahólfinu. Ef keyptur var nýr bíll, þá var alltaf passað upp á að Vegahandbókin gleymdist ekki.

Mér þykir þar af leiðandi vænt um Vegahandbókina. Ef ég er beðinn um að telja upp uppáhaldsbækurnar mínar, þá kemur Vegahandbókin alltaf upp. Ég er nefnilega grúskari sem elskar að fletta upp ákveðnum atriðum (pssst... smá játning: ég hafði lúmskt gaman af því að fletta upp númerum í gömlu símaskránum).