Dagbók forstjóra, vinsældir og áhrif

AF BÓKUM – 16
Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
Í dag skrifar Aija Burdikova_ _ _
- Vinsældir og áhrif / Dale Carnegie
- The diary of a CEO : the 33 laws of business & life / Steven Bartlett
Tvær bækur, önnur gömul og góð, en hin ný og góð um farsæl samskipti, mannlegt eðli og sjálfsþróun í lífi og starfi.
Það sem tengir þessar bækur er að þar er notuð frásagnaraðferð til þess að ná til lesenda og gerir það líka að verkum að auðveldara er að muna dæmi um reglur sem þær fjalla um. Litlar breytingar í lífi okkar, afstöðu og viðhorfum gætu leitt til farsældar í lífi okkar og samskiptum.
Bókin Vinsældir og áhrif (How to Win Friends and Influence People) er sjálfshjálparbók frá árinu 1936, en bókin var gefin út árið 2004 á íslensku. Ég hafði heyrt að bókin væri mjög góð og mér fannst áhugavert að prófa að lesa bók sem væri ekki skáldsaga og nærri 90 ára gömul en vinsæl enn í dag. Bókin gefur mörg dæmi sem manni gætu virst skrýtin sem er vegna þess að bókin var skrifuð fyrir löngu síðan en samt er hægt að tengjast. Hér er nokkrar tilvitnanir úr bókinni:
- „Ekki fordæma aðra, það getur hvaða bjáni sem er gert. Reyndu frekar að skilja. Það gera aðeins umburðarlyndar, vitrar og sérstakar manneskjur.“
- „Í níu skipti af hverjum tíu enda rökræður á þá leið að báðir aðilar eru sannfærðari en nokkru sinni fyrr um að þeir hafi rétt fyrir sér. (...) Eina leið til þess að hafa betur í deilum er að forðast þær.“
- „Jafnvel hinn versti nöldurseggur og grimmast gagnrýnandi mildast oft og sefast nálægt þólinmóðum og samúðarfullum hlustanda – hlustanda sem sem segir ekki orð en lofar hinum reiða lastara að þenja sig út eins og eiturslöngu og spúa úr sér eitrinu.“
Fyrir nokkrum árum síðan fékk ég ábendingu um að hlusta á hlaðvarp Steven Bartlett The diary of a CEO (Dagbók forstjóra). Mér fannst áhugavert að hlusta á gesti hans sem eru frægir vísindamenn og rithöfundar. Bókin er innblásin af samtölum höfundar við gesti sína í hlaðvarpinu og er mjög hnitmiðuð. Hver kafli hefst á nokkrum setningum sem útskýra umfjöllunarefnið og endar á að endurtaka það sem mikilvægast er að taka með sér eftir lestur kaflans. Nokkur dæmi úr bókinni:
- 1% betri á hverjum degi skiptir gríðarlega miklu ef horft er til langs tíma.
- „Þægilegt“ og „auðvelt“ eru skammtímavinir en óvinir til lengri tíma. Ef þú ert að sækjast eftir framförum skaltu velja áskorunina.
- Mistök leiða til endurgjafar, endurgjöf leiðir af sér þekkingu, þekking er máttur.
Mistök veita mátt!
Þó að ég hafi mjög gaman af að lesa skáldsögur finnst mér alltaf gott að lesa annað slagið bækur sem þessar sem veita mér eldmóð til að standa mig betur gagnvart sjálfri mér og öðrum.