Fara í efni
Umræðan

Rosalega erum við rík og æðisleg

Það eru ekki bara mannréttindi að vera Íslendingur heldur forréttindi. Ég gæti ekki verið lánsamari með þjóð. Við eigum allt, getum allt og megum allt. Við erum nánast best í öllu og í raun aðeins einskær óheppni eða öfund annarra sem hefur komið í veg fyrir að við vinnum Júróvisjón nánast hvert ár, verðum heimsmeistarar í handbolta karla, Evrópumeistarar í knattspyrnu kvenna og hljótum reglulega Nóbelsverðlaun á hinum ýmsu sviðum enda er okkur ekkert ómögulegt. (Tja, nema kannski að skapa réttlátt og mannsæmandi þjóðfélag).

Við skulum ekki vera að hengja okkur í tittlingaskít. Hver er sinnar gæfu smiður. Hinir klókustu komast af. Það er líka óþarfi að vera með minnimáttarkennd eða sýna lítillæti. Við erum sannarlega stórþjóð á alþjóðavísu og sýndum það og sönnuðum í góðærinu og útrásinni hér í denn þegar aðrir þjóðir göptu orðlausar yfir fjármálasnilld okkar og dirfsku. Og höfum við ekki átt fegurstu konur og sterkustu karlmenn heims í löngum bunum?

Stórhugur okkar hefur m.a. gert það að verkum að ár hvert klórum við okkur í höfðinu yfir því hvernig við eigum að hýsa Júróvisjón eftir glæstan og löngu tímabæran sigur. Nýlega kom svo skýrt fram að þjóðin og leikmenn íslenska handboltalandsliðsins voru aðeins undir það búin að leika til úrslita á HM og fyrirtækin voru með á nótunum og auglýstu gott gengi strákanna okkar og bensínafslátt alveg fram að úrslitaleiknum – sem reyndar var háður án þátttöku okkar liðs. Búið var að skipuleggja mikla sigurhátíð til að fagna heimsmeistaratitlinum og því ferlegt að fá þann skell að geta bara sigrað þjóðir sem tala portúgölsku – og eina Asíuþjóð að auki.

Það er sennilega erfitt að fá því framgengt að fleiri handboltaþjóðir taki upp portúgölsku sem móðurmál þannig að sennilega verðum við bara að reyna að byggja upp betra lið. Nóg eigum við af góðum einstaklingum og jafnvel talað um offramboð og lúxusvandamál í sumum stöðum. En ég ætlaði svo sem ekkert að tala um handbolta. Íþróttir og listir eru ágætis stöff en yfirleitt þarf fyrst að huga að grunnþörfunum, sem eru fæði, klæði, húsnæði og eitthvað slíkt ef ég man eitthvað af því sem ég lærði í skóla í gamla daga.

Fámenn, samheldin, gáfuð, menntuð, hæfileikarík þjóð í landi sem er þrútið af auðlindum náttúru og sjávar. Landi sem tvær milljónir ferðamanna heimsækja árlega. Já, fiskiðnaðurinn og ferðaþjónustan eru stórkostlega mikilvægar atvinnugreinar en við eigum svo ótalmargt annað sem færir okkur lífsbjörg, öryggi og vellíðan. Þjóð sem býr í slíku allsnægtarlandi ætti svo sannarlega að geta byggt upp grunnþarfir þegnanna og bætt svo við öllu því sem eftirsóknarvert er í lífinu og gerir okkur að manneskjum.

Ég hef verið svo heppinn að fá að kynnast ýmsum störfum í þau tæpu 40 ár sem ég hef verið faðir og fyrirvinna að einhverju leyti. Verkamaður í byggingarvinnu, ræstitæknir á leikskóla og í orlofsíbúðum, blaðamaður, þýðandi og kennari svo eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta störf sem hafa verið metin undir meðallaunum og því hef ég nánast alltaf verið með aukavinnu með aðalstarfinu. Eftir langan kennsluferil er ég þó farinn að daðra við meðallaun án aukavinnu en ég skil og mun vonandi ávallt skilja baslið sem fylgir því að vera láglaunamanneskja, námslánaþegi, þræll á leigumarkaði eða strengjabrúða lánastofnana í eigin íbúð sem maður á ekki rassgat í og borgar bara vexti út í hið óendanlega. (Mér finnst því ekki erfitt að skilja kröfur Eflingar þótt deila megi um aðferðir og tímasetningu – en þetta er útúrdúr.)

Gömlu dagarnir eru liðnir. Vanþekking, óðaverðbólga, stjórnarkreppur, atvinnuleysi, alkalískemmdir, ofveiði, rafmagnsleysi og Gleðibankinn. Búið spil. Okkur hefur tekist að stokka upp á nýtt. Nú byggjum við traustar og vatnsheldar íbúðir við allra hæfi í ýmsum verðflokkum enda hokin af reynslu, þekkingu og snilld. Öll fáum við húsnæði sem hentar okkur enda annað óhugsandi hjá svona fámennri og ríkri þjóð í gjöfulu landi. Fæðuöryggið er algjört því fiskur, grænmeti og landbúnaðarafurðir eru á hverju strái á sanngjörnu verði. Þetta er nánast sjálfbært samfélag. Fatnaður og aðrar nauðsynjar, jú, þetta fáum við notað og nýtt og engin vandræði að koma sér upp nauðsynlegum heimilistækjum. (Þegar ég hóf búskap vorum við ekki með þvottavél, sjónvarp eða síma og vorum upp á aðra komin – auk þess að fá skrifað hjá kaupmanninum á horninu, selja flöskur, borða ódýran fisk, slátur og lifur og hálsbita af rollum sem hátíðarsteik plús það að leigja hripleka kjallaraíbúð).

Já, það hlýtur að vera dásamlegt að stofna heimili á Íslandi 2023 og lifa lífinu án þess að hafa áhyggjur af grunnþörfunum eins og staðan var fyrir 40 árum. Flest hefur jú breyst til batnaðar og aukin menntun, reynsla og ríkidæmi hefur fært okkur meiri velsæld en mann gat órað fyrir. Byggingariðnaðurinn hefur blómstrað með einföldum og innfluttum lausnum, leigumarkaðurinn er traustur í skjóli ábyrgra leigufélaga, láglaunastefnan er löngu horfin út í buskann og við styðjum aldraða og öryrkja af rausn og sanngirni. Börn alast upp við ást og öryggi og ef fólk veikist eru mögnuð úrræði sem grípa það. Við njótum þess að vera svona fá og búa í gjöfulu landi og þess vegna veitist okkur auðvelt að hlúa að grunnþörfum þegnanna og sömuleiðis að bjóða nýbúa og flóttamenn velkomna með mannsæmandi hætti.

Þetta gerum við í krafti auðlinda okkar og ríkidæmis, samheldni og óeigingirni, þekkingar og víðsýni. Ég er stoltur yfir því að tilheyra svona þjóð. Ég elska það að vera Íslendingur. Við stöndum virkilega vel saman og gleymum ekki okkar minnsta bróður eða systur. Öll erum við velkomin. Öll erum við af sama kyni – mannkyni. Gens una sumus. Skák lífsins er ekki svo flókin lengur, við kunnum alla byrjunarleikina og getum því óhrædd valsað um borðið og þurfum ekki að kvíða endataflinu. Þetta fer allt vel. Þetta reddast.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og nokkurs konar skáld ellegar rithöfundur í frístundum.

Félagshyggja hvað er nú það?

Haraldur Ingi Haraldsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:19

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50

Eflum löggæslu

Grímur Grímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 17:30

Gagnsæi, ábyrgð og sameiginleg markmið

Anna Júlíusdóttir skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 10:45

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00