Fara í efni
Pistlar

Mannfólk

Eins og allir hef ég ýmsu fólki kynnst á ævinni og af öllum toga. Fólk sem ég kynntist í gegnum harðvítugar deilur um eitthvað sem ég skildi ekki, einum mínum besta vini í gegnum fyrst alveg örugglega hryllilega fyndnar deilur um það hvernig ætti að sanda kapal og bróður minn, sem settlaði þær deilur með örfáum orðum. Sagan öll er lengri og svolítið kostulega vandræðaleg. Eitt fallegasta dæmi um slíkt hnútukast var þegar ég hafði samband við núverandi kæran vin og spurði hann hvers vegna honum hefði verið svona illa við mig hér í denn. Svarið var einlægt og eitthvað það besta sem ég hef fengið við svolítið ræfilstuskulegri spurningu: „Ætli það hafi ekki verið vegna þess að ég var ekkert sérstaklega sáttur við sjálfan mig.“ Síðan þá þykir mér mikið vænt um þennan mann.

Annað og í vissu samhengi er fólkið sem umbreytist í stórmerkileg skrýmsli við drykkju, stundum jafnvel við annað eða þriðja glas. Fólkið sem er vel af Guði gert, er í alla staði yndislegt, gott og fullt af kærleika sem það kannski veit ekkert hvað það á að gera við. Eðal góðmenni. Og sem allt í einu fær sér í glas þó það viti alveg hvað gerist og það er næstum því eins og það sé komið á bömmer fyrir fram yfir einhverju sem það veit að gerist en þorstinn er meiri en svo að honum verði stjórnað. Þetta fólk æðir inn í blackoutið sem bíður eins og fyrir fram svikið loforð um gleymsku. Í þessu samhengi verður mér stundum hugsað til vinar míns og hans heiðarlega svars. Sú reiði sem allt í einu brýst fram gegn einna helst þeim sem þetta fólk elskar mest held ég að sé mestmegnis skömm á eigin framkomu, eigin vilja- og getuleysi gagnvart drykkjuskap. Og í áfengisþokunni blandast allt saman svo úr verður einhver kakófónía allra tilfinninga. Kannski er það eitt af því sem vekur mér óhug gagnvart því að afgreiða alkóhólisma sem ólæknandi heilasjúkdóm, sem virðist í öllu umtali vera eini heilasjúkdómurinn sem svo er lýst, að hann sé ólæknandi. Kannski er ég á einhverjum villigötum (hef ratað þær margar) en eitthvað segir mér að þegar manneskja getur orðið sátt við sjálfa sig, þá þurfi hún ekki að drekka sig á rassgatið, en geti umgengist áfengi með tiltölulega stóískri ró, hvort sem sagt er einfalt nei við því að drekka eða sénsinn er tekinn á einhverskonar hruni, en þá allavega ekki með fyrrum algölnum aukaverkunum.

Sjálfum fannst mér ég alveg rosalega skemmtilegur þegar ég var fullur. En ég hef farið að efast um þá skoðum eftir því sem lengra líður frá fylleríinu. Og svona til þess að ljúka þessu á einu jákvæðu gagnvert brennivíni vil ég segja frá langömmu minni sem samkvæmt einhverjum skilgreiningum var blússandi alkóhólisti í tvo daga upp úr níræðu. Hún sat á spjalli heima hjá ömmu og afa á Grenjaðarstað þegar um kvöldið, hún amma mín kom inn í stofu og bauð upp á sjérrístaup. Langamma þekkti aðallega áfengisneyslu hjá hestamönnum og einhverjum balldurtum en þáði staup. Fyrir vikið varð hún skrafheyfin og fór frekar seint að sofa. Það var svo um kvöldið daginn eftir að amma bauð aftur upp á sjerrístaup að langamma sagði þessi fögru orð: „Aðalbjörg mín, kemurðu nú með blessað vínið?“ Eftir það drakk hún aldrei meir, þannig að hennar alkóhólismi varði í tvo daga. Geri aðrir betur.

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00