Fara í efni
Pistlar

Húsaleigan og vísitalan

Einhverra hluta vegna þykja það eðlileg vinnubrögð í þessu landi eins og öðrum bananalýðveldum, að hygla þeim sem eiga peninga en alls ekki hinum sem hafa ekkert sérstaklega stórfengleg efni á því að lifa vel. Eitt sem virðist virka einstaklega vel í því samhengi, er að binda húsaleigu við vísitölu. Til dæmis lifi ég í stöðugum spenningi og tilhlökkun yfir því hvað húsaleigan hækkar í þessum mánuði og þeim næstu. Það litla sem ég hef á milli handanna til að lifa af er aftur á móti ekki bundið vísitölu og þarf því ekkert að hækka eins og til dæmis laun ráðamanna eða annarra sem geta leyft sér að veita sjálfum sér launahækkanir eftir hentugleikum. Lesist græðgi. Það sem er kannski sérstaklega áhugavert er það að þetta eins og aðra óráðsíu, samþykkir fólk eins og þetta sé á nokkurn hátt eðlilegt. Þýlyndi þessarar þjóðar hefur verið lýðum ljóst ansi lengi, meðvirkni með þeim sem verst fara með hana er frekar sár upp á að horfa en verður líklega aldrei breytt. Einhverju sinni, þegar ég var ungur, bjartsýnn og reiður, hélt ég að einhvern tímann og jafnvel á minni ævi, myndi ég upplifa uppreisn þjóðarinnar í samstilltu átaki um að gera lífið mannvænlegra og sanngjarnara. Það fór ekki svo. Enn og aftur reiði ég mig á unga fólkið, sem hlýtur með allri þeirri þekkingu sem það hefur í höndunum að breyta heiminum. Enn er þessi hundaþúfuþjóð föst í þjónkun við yfirvaldið, bankakerfið og auðmannaveldið. Ennþá er alveg sjálfsagt að níðast á þeim sem þurfa að leigja sér húsnæði með fullkomlega siðlausum aðgerðum eins og þeim að vísitölubinda húsaleiguna. Nú eða bara hækka leiguna eftir dyntum og þörfum þeirra sem kalla sig með góðri samvisku leigusala. Eða samviskulaust.

Sjálfur hef ég í gegnum tíðina reynt að sjá frekar eða beina athyglinni að því góða og rétta, reynt að bæta eitthvað og hjálpa, iðulega mistekist í einhverju offorsi í leit að því sem er gott en uppskorið ljótt. Það hafa verið mín mistök. Stundum, örsjaldan hefur mér tekist að gera eitthvað gott, bent á aðrar leiðir, verið bara lítill vegvísir sem sést helst ekki. Einstöku sinnum verð ég pirraður, sem er tilfinnig sem ég reyni að forðast, svona eins og reiði og stundum sýður lauslega uppúr hjá mér þegar órættlætið er bara svo svívirðilega slæmt og í sömu mund samþykkt og afsakað með einhverju óskiljanlegum peningahugtökum eins og „Markaðurinn“, „Vísitala“ og svo einhver ómur af orðræðu auðvaldsins. Þá spyr ég mig stundum agndofa að því hvort að þetta sé orðin orðræða samfélagsins, hvort að tungumálið sjálft sé farið að hegða sér í stíl við þessi orð óréttlætis og græðgi. Sem auðvitað leiðir hugann að því hvort að eftir þúsund ár, þegar einhverjir reyna að læra forníslensku af bókum, spyrji sig ekki: „Hvaða dæmalausu fávitar voru þessir Íslendingar á þessu tímaskeiði?“

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00