Maggi Binna og ungir skíðamenn í Innbænum
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXIII
Andrésar andar leikarnir á skíðum fara fram í næstu viku. Því er tilvalið að gamla íþróttamyndin þessa vikuna sé úr skíðabrekku, að vísu ekki úr Hlíðarfjalli heldur er myndin tekin þegar fram fór skíðamót í Innbænum á Akureyri seint á sjötta áratug aldarinnar sem leið, að öllum líkindum í febrúar 1958.
Ritstjóri Akureyri.net fékk þessa mynd, og margar fleiri skemmtilegar, hjá Stefáni Hauki Jakobssyni – Hauki Dúdda heitnum. Hann er lengst til vinstri í aftari röðinni og á myndinni eru einnig m.a. Magnús Brynjólfsson, Maggi Binna, sem keppti á Ólympíuleikunum árið 1948 (þriðji frá vinstri í aftari röð), Sigtryggur Sigtryggsson, alltaf kallaður Dibbi, í ljósum jakka honum við hlið. Sá með S á brjóstinu er sennilega Siglfirðingurinn Hjálmar Stefánsson, Matthías Gestsson er við hlið hans, annar frá hægri í aftari röð og lengst til hægri í fremri röðinni er án efa Stefán Jónasson, síðar þekktur bóksali á Akureyri.
Búðargil, sem Lækjargata liggur um, var vagga skíðaíþróttarinnar á Akureyri. „Gilið útungaði mér og Magga Binna. Það var sannarlega vaggan. Snjórinn blés þar inn og settist í hlíðina,“ sagði Magnús heitinn Guðmundsson fyrir nokkrum árum við þann sem þetta skrifar. Magnús, sem varð margfaldur Íslandsmeistari í alpagreinum og einnig Íslandsmeistari í golfi, var í áratugi búsettur í Bandaríkjunum þar sem hann kenndi á skíðum.
Magnús og Maggi Binna bjuggu steinsnar frá skíðabrekkunni sem var í bröttum norðurhlíðum Búðargils. „Magnús var nágranni minn, 10 metrar voru á milli húsanna; ég í Búðargili 9 og hann í Búðargili 9a,“ sagði Magnús Guðmundsson.
Sé myndin tekin í febrúar 1958 er Magnús Brynjólfsson á 35. ári. Hann hætti keppni fimm árum áður.
- Lesendur eru hvattir til þess að rýna í myndina og reyna að bera kennsl á aðra en þá sem nefndir hafa verið. Myndin mun ekki tekin í Búðargili heldur innarlega við Aðalstræti. Gaman væri að fá sem mestar upplýsingar, til dæmis hvar nákvæmlega myndin er tekin. Vinsamlega sendið upplýsingar á netfangið skapti@akureyri.net
VIÐBÓT - Lesendur tóku fljótt við sér eftir birtingu myndarinnar. Annar frá vinstri í aftari röð er Tommarinn Skjöldur Tómasson. Þá er staðfest að þriðji frá hægri í aftari er Hjálmar Stefánsson.