Fara í efni
Pistlar

Leiruviður og leiruviðaskógar

TRÉ VIKUNNAR - LIX

Sum tré búa við ótrúlega gott atlæti. Önnur hafa það ekki eins gott. Þetta þekkjum við svo sem líka í mannlífinu. Svo er það þannig að það sem sumum þykir harla gott hentar ekki öllum. Nú fjöllum við um hóp trjáa og runna sem kallast leiruviðir og vistkerfið sem þeir mynda kallast leiruviðarskógar. Leiruviðir vaxa við strendur hitabeltisins. Það hljómar reyndar ekki illa. Hver vill ekki vera alla tíð á hitabeltisströnd í sól og sælu? Að vísu er það þannig að leiruviðarskógarnir vaxa fyrst og fremst sjávarmegin við strendurnar. Það sem gerir þetta pínu flókið fyrir trén er að það er býsna algengt að við strendur heimshafanna sé saltur sjór. Leiruviðir þurfa að vaxa í og við saltvatn. Það hentar ekki öllum. Hvorki tré né mannfólk er hrifið af því að drekka sjó. Leiruviðaskógar mynda einstakt vistkerfi sem gegnir ákaflega mikilvægu hlutverki en er ekkert sérstaklega aðlaðandi í augum margra. Þetta eru ekki eins rómantískt og opnar sandstrendur þar sem hægt er að láta sólina baka sig og teygja sig eftir næstu kókoshnetu.
 
 

Dansandi leiruviður á Walakiri ströndinni á Sumbaeyju í Indónesíu. Mynd: Marz Gure og birti hana á Unique Trees.

Hvað er leiruviður?

Leiruviður er einskonar safnheiti yfir ýmsar trjá- og runnategundir af mörgum ættum og enn fleiri ættkvíslum sem lifa á þröngu belti við leirugar strendur hitabeltisins. Á mörgum tungumálum er þessi vist kölluð Mangrove. Leiruviður á það allur sameiginlegt að standa meira eða minna í söltu vatni. Þessi tré og runnar hafa þróast við sömu aðstæður og þróunin hefur orðið svipuð hjá þeim öllum, þótt trén séu lítt eða ekki skyld innbyrðis. Sumir segja að þetta séu einar 54 tegundir þegar allt er talið en aðrir koma því upp í rúmlega 80 tegundir. Svo eru til grasafræðingar sem telja að réttast sé að kalla aðeins eina ættkvísl leiruvið. Það er ættkvíslin Rhizophora spp. Aðrir hafna því algerlega (Spadea 2022, Feller án ártals). Við eltumst ekki við svona smáatriði og forðumst að skilgreina leiruvið of náið.
 
 

Leiruviður við ysta haf. Myndin fengin héðan.

Útlit

Úr lofti líta þessir skógar út svipað og aðrir hitabeltisskógar. Í sumum tilfellum eru þarna fjölmargar tegundir trjáa og runna af öllum stærðum og gerðum.
 
 

Leiruviður í Kambódíu séður úr lofti. Myndina birti Lasse Enevoldsen á Facebooksíðunni Ancient Forests.

Aftur á móti er skógarbotninn allt öðruvísi en aðrir skógarbotnar. Hann er á kafi í sjó. Í sumum tilfellum alltaf en í öðrum tilfellum tímabundið og er þá háð sjávarföllum. Tvisvar á sólarhring flæðir að svo ræturnar fara á kaf. Jafn oft leikur loft um ræturnar á útfallinu. Jarðvegurinn er oftast þykkur og súrefnissnauður leir með hægt rotnandi lífrænum efnum. Því er lyktin úr þessari seigfljótandi drullu ekkert til að hrópa húrra fyrir. Upp úr drullunni standa svo trjástofnar, rótarflækjur og stoðrætur af ýmsum stærðum og gerðum. Því eru ferðalög um þétta leiruviðarskóga ekkert grín. Að auki er hætt við að ferðalangarnir skeri sig á höndum og fótum á skeljum og hrúðurkörlum sem vaxa þarna og ef stigið er í drulluna er auðvelt að sökkva og festa sig. Sums staðar myndast þó álar og eins konar göng. Þar má stunda siglingar á litlum eintrjáningum og skoða hin fjölbreyttu vistkerfi. Lyktin hlýtur að venjast.

 

Leiruviðir eru tré og runnar sem eru ekkert endilega mikið skyld innbyrðis en eiga það sameiginlegt að geta vaxið í söltum jarðvegi þar sem sjávarfalla gætir. Myndin fengin héðan.

Nafnið

Á íslensku eru þessi tré kölluð leiruviður og skógarnir leiruviðarskógar. Það er ljómandi gott nafn, enda vaxa trén í leirdrullu. Úti í hinum stóra heimi kallast bæði trén og skógarnir Mangrove. Wells (2010) segir að nafnið sé líklega fengið úr tungumáli frá Senegal. Þar merkir fyrri hluti orðsins einfaldlega „tré“. Portúgalir tóku svo þetta orð upp og notuðu það yfir trén sem uxu við ströndina, enda voru þeir mest þar. Þeir skeyttu við það ensku heiti yfir vöxt: „grove“ og þar með var orðið komið. Það hefur svo ratað í flest tungumál sem við þekkjum. Ef þið viljið fræðast meira um þessa skóga eða einstök tré á óravíddum alnetsins er gott að nota leitarorðið mangrove.
 
 

Leiruviður í Ástralíu á háfjöru. Myndina á Candie Fisher og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.

Vistkerfið

Leiruviðarskógar eru ekkert venjulegt vistkerfi. Þeir vaxa á ströndum hitabeltisins og heittempraða beltisins og skipta lífríkið allt miklu máli. Má segja að þeir finnist við strendur frá 25° norðlægrar breiddar og suður að 25° suðlægrar breiddar. Lengst frá miðbaug finnast þeir við Atlantshafsströnd Norður-Ameríku við 32°N og í Ástralíu við 38°S. Það sem ræður þessari útbreiðslu er fyrst og fremst hitastig lofts og láðs (Feller án ártals).
 
 

Kort sem sýnir dreifingu leiruviðaskóga. Sjá má hvar tegundafjöldinn er mestur. Myndin er fengin héðan en er eignuð Deltares, 2014.

Algengastir, umfangsmestir og fjölbreyttastir eru þeir við ósa stórfljóta. Þar eru skilyrðin heppilegust. Fullt af leirefnum sem berast með ánum og vatnið ísalt en ekki brimsalt. Þar myndast flókið lífkerfi sem nýtir sér mót sjávar og ferskvatns. Annars vaxa leiruviðarskógar aðeins á mjóu belti við eða undan ströndum i grunnu, söltu eða ísöltu vatni. Því ná þeir ekki yfir eins marga hektara og ætla mætti nema við stóra árósa. Mikilvægi þeirra er þeim mun meira. Ein af þeirri vistþjónustu sem þeir veita er að taka skellinn þegar stórviðri skella á ströndunum. Þannig geta þau verndað fasta landið og dregið úr áhrifum fellibylja og flóðbylgja sem borist geta að ströndum (Spadea 2022).

 

Leiruviður getur varið strendur lands með flóknu rótarkerfi. Myndin er héðan.

Færa má rök fyrir því að þessi veðurfyrirbæri séu fyrst og fremst orka. Þegar þessi miklu orkubúnt lenda á trjánum hægja þau á öllu og draga úr kraftinum. Á það jafnt við hvort heldur orkan er í loftinu (vindur) eða í sjónum (öldur). Því gegna þessir strandskógar mjög mikilvægu hlutverki í verndun þurrlendisins (Spadea 2022, Wells 2010). Því hefur jafnvel verið haldið fram að hinar hræðilegu flóðbylgjur við Indlandshaf í kjölfar jarðskjálftanna á annan í jólum árið 2004 hafi valdið svona miklum skaða vegna þess að leiruviðarskógarnir höfðu verið felldir (Tudge 2005 o.fl.). Frá þessum tíma eru til frásagnir frá Sri Lanka um að íbúar heilu þorpanna hefðu bjargast vegna þess að bylgjan skall fyrst á þéttum, breiðum leiruviðarskógum. Þar sem svo háttaði til varð minna tjón og færri líf glötuðust í þessum hörmulegu atburðum. Það vekur því nokkra furðu að síðan þá hefur verið gengið mjög hratt á leiruviðarskógana á Sri Lanka (Samarakoon & Tanaka 2018).

 

Þessar myndir birti Nick Todd undir yfirskriftinni: "Why do humans think they know better" á Facebooksíðu hóps sem kallast The Phantom Planters. 

Þegar úthafsaldan kemur inn í leiruviðarskógana getur hún borið hitt og þetta með sér sem fellur á botninn þegar orkan í öldunum minnkar. Mest eru þetta smáar leiragnir sem margar hverjar hafa borist til sjávar með stórám og öldurnar rótað upp. Smám saman bætist því leir við leiruviðarskógana og ströndin stækkar og trén fá traustari rótfestu (Wells 2010). Þar sem enginn leiruviður er berja haföldurnar strendurnar og brjóta þær smám saman niður. Þar verður landeyðing og strendurnar minnka í stað þess að stækka.

Hæfnin til að beisla leðju kemur að mestum notum við árósana sjálfa. Þar kemur mikið af leirögnum með ánum og efnabreytingar verða þegar ferskvatnið rennur til sjávar þannig að smæstu efnisagnirnar renna þar saman og auka enn á jarðvegsmyndunina (Attenborough 1995). Eitt er það sem að jafnaði skortir í leiruviðarskógum sem finna má í nær öllum öðrum skógum. Það eru hinar skuggsælli plöntur í skógarbotninum. Þar eru fyrst og fremst rætur, saltvatn og drulla (Tudge 2005). Því kemst að jafnaði meiri birta í botninn á þeim en öðrum skógum. Það hentar ýmsum þörungum og öðrum ljóstillífandi lífverum vel og hefur áhrif á allt lífríkið.

 

Trjárætur í leiruviðarskógum eru af ýmsum stærðum og gerðum. Mynd: Hương Lan í Víetnam.

Lífríkið

Ótrúlegur fjöldi dýra byggir afkomu sína á leiruviðarskógum. Ilka Feller hjá Smithsonian Environmental Research Center segir að þeir séu meðal líffjölbreyttustu vistkerfa heimsins. Fjölbreytnin grundvallast á þessum trjám. Í fyrsta lagi mynda trén sjálf fæðu fyrir fjölda dýra og sveppa. Mörg þeirra lifa að auki í sambýli við bæði sveppi og þörunga sem eykur enn á fjölbreytnina. Í þessum skógum má finna fjöldann allan af allskonar dýrum. Í krónum trjánna má finna fugla af ýmsum tegundum og reyndar líka apa og ýmiss önnur dýr svo sem bjöllur, eðlur, leðurblökur og froska. Þarna eru líka mjög margir krabbar. Sumir leiruviðarskógar hafa reyndar alveg ótrúlegan fjölda af kröbbum og krabbadýrum sem jafnvel klifra í trjám. Sumir grafa sig í leðjuna og koma upp á fjöru, önnur rölta um flókið rótarkerfið og svo mætti lengi telja. Þarna eru líka allskonar aðrir hryggleysingjar sem skapa mikla fjölbreytni.
 

Þrjár myndir af þessari síðu þar sem fjallað er um fjölbreyttar tegundir fiska í leiruviðarskógum við Galapagoseyjar. Fyrstu myndina á Pelayo Salinas, miðmyndina á Octavio Aburto/CDF og þá þriðju Octavio Aburto/CDF. CDF stendur fyrir Charles Darwin Foundation.

Fjölmargar fisktegundir hrygna í leiruviðarskógum. Greinaþykknið getur gefið ungviðinu mikilvægt skjól í uppvextinum. Því eru leiruviðarskógar bæði skjól og matarbúr. Lífríkið sem þrífst þar er líka mikilvægur hlekkur í lífríki hafsins utan skóganna og á landi og árósósum sem liggja að skógunum. Oft eru fjölbreytt kóralrif undan ströndum leiruviðarskóga. Það skiptir máli, því meira skjól er fyrir ungviðið í skógunum en við rifin. Því eru þessar vistgerðir háðar hvor annarri.

Ekki má heldur gleyma lungnafiskum sem þarna finnast. Þeir geta skriðið á þurrt ef tálknin haldast rök og jafnvel klifrað upp í tré.

 

Hinir stórmerkilegu lungnafiskar eða leirulallar og nokkrar loftrætur. Myndin fengin héðan.

Stærri dýr eru einnig í skógarbotninum. Sums staðar eru krókódílar nokkuð algengir og til eru leiruviðarskógar sem heimsóttir eru reglulega af tígrisdýrum (Spadea 2022, Tudge 2005).

Mannfólkið nýtir einnig þessa skóga og hefur gert um aldir, rétt eins og aðra skóga í heiminum. Trén mynda við eins og önnur tré, sem má nota. Einnig eru ýmiss dýr í skóginum sem veidd eru af heimamönnum. Að auki framleiða býflugur í leiruviðarskógum óvenju ljúffengt hunang sem heimamenn næla sér í. Það er reyndar svo mikið fyrir því haft að það keppir ekki á markaði við annað hunang.

 

Konur í Malaita á Solomoneyjum gera að skelfiski sem þær veiða í leiruviðarskóginum. Myndina á Wade Fairley og við fengum hana héðan.

Hvernig fara trén að því að lifa í saltvatni?

Þótt trén séu af ýmsum tegundum hafa mörg þeirra þróað svipaðar lausnir á þessu skemmtilega vandamáli. Margar tegundir bregðast við með því að mynda sérstakar loftrætur sem vaxa upp úr vatninu og taka súrefni beint úr andrúmsloftinu. Gerð og útlit þessara róta getur verið mismunandi eftir tegundum. Sumum þykja þessar rætur minna á hné og kalla þær hnjárætur.
 
 

Loftrætur (hnjárætur) leiruviða hjálpa þeim að ná í súrefni. Myndin, sem tekin er á háfjöru, fengin héðan.

Leiruviðurinn kemst samt ekki hjá því að nota ræturnar til þess sem flestar rætur gera. Þær taka upp vatn. En trén vilja ekki salt vatn. Þau þurfa því að losna við saltið. Sum hafa einskonar varnir gegn osmósu. Osmósu höfum við áður fjallað um. Ef hún væri einráð færi vatnið úr rótum leiruviðarins og út í hinn salta sjó. Ef það væri tilfellið, þá dræpust trén úr þorsta. Það gerist ekki. Ræturnar framleiða aukalag af frumum sem hindrar að vatnið flæði í ranga átt. Aðrar tegundir hafa fundið upp á þeirri lausn að dæla saltvatninu upp í tréð og láta laufunum eftir að losna við saltið. Hjá sumum tegundum eru á laufunum sérstakir kirtlar sem losa saltið úr laufunum. Þá geta myndast saltkristallar á laufunum. Það skolast svo af í næstu rigningu.

 

Sumar tegundir leiruviðar, eins og þessi, Avicennia germinans, losna við salt úr sjónum í gegnum laufin. Saltið getur kristallast á yfirborði þeirra. Myndin er fengin héðan en hana tók Ulf Mehlig.

Leiruviðir eru sígrænir. Þeir þurfa samt að endurnýja laufin. Því var lengi trúað að trén gætu sett aukaskammt af salti í elstu laufin og losnað við það þegar þau falla af. Það er snjöll lausn. En vandamálið er að þegar til stóð að sýna fram á þessa snilld með því að mæla saltmagnið í misgömlum laufblöðum og bera það saman kom í ljós að það er ekkert meira salt í eldri laufum en þeim yngri. Hugmyndin er góð en fellur ekki vel að raunveruleikanum. Því hefur þessari kenningu verið hafnað af flestum. Þó má enn sjá þessa tilgátu í mörgum eldri heimildum, meðal annars hjá sjálfum David Attenborough árið 1995. Spadea (2022) segir að ef til vill séu til einhver leiruviður sem getur þetta en það hefur ekki tekist að sýna fram á það.

Sjór og tré

Sjór er vatn sem inniheldur um 3-4% salt. Það hljómar ef til vill ekki mjög mikið, en allir þeir sem lent hafa í því að drekka sjó vita að þótt prósentutalan sé ekki há þá hefur hún svo sannarlega áhrif. Þetta er vandi sem leiruviðarskógarnir þurfa að kljást við. Sum trén standa alltaf í sjónum en önnur standa hærra til landsins og aðeins í sjó þegar flæðir að. Sumar tegundir þrífast best þar sem ár renna til sjávar og trén standa stundum í fersku vatni og stundum í sjó. Svo eru til svæði við strendur hitabeltisins þar sem sjór flæðir að og lokast inni hluta úr degi. Þá gufar vatnið upp, en ekki saltið. Þá getur styrkur saltsins í vatninu farið allt upp í 9% en samt vaxa þar tré (Spadea 2022). Sums staðar eru rætur trjánna nær alltaf í kafi í sjó en þegar hann flæðir í burtu standa eftir berar ræturnar í óbærilegu sólarljósi. Samt lifa þau. Vatnsósa rætur margra tegunda fá súrefni í gegnum sérstök op á stoðrótunum sem eru ekki alltaf í kafi eða með enn stærri stólpum sem standa í röðum upp úr rótunum. Tudge (2005) segir að sumar tegundir virðist geta nýtt sér aðfallið til að pumpa súrefni upp eftir trénu. Það er eins og þau tré andi. Tvisvar að og tvisvar frá á hverjum sólarhring í takt við sjávarföllin.
 
Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30