Fara í efni
Pistlar

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

TRÉ VIKUNNAR - XCIII

Þróun trjáa og runna getur verið stórfurðuleg. Ein af þeim plöntuættum sem margir kannast við er lyngætt eða Ericaceae. Innan hennar eru sagðar vera 124 ættkvíslir tvíkímblöðunga. Þar af vaxa ellefu hér á okkar ægi girta landi og fjölmargar tegundir. Má nefna krækilyng, sortulyng og bláber sem dæmi um tegundir sem flestir þekkja og tilheyra þessari ætt.
 

Í suðvesturhluta Norður-Ameríku má finna tré sem eru af ætt sem talin er töluvert skyld lyngættinni. Báðar ættirnar tilheyra þeim hópi plantna sem kallast Ericales eftir lyngættinni. Þarna, í brennheitum eyðimörkum, hefur þróunin búið til fáliðaða ætt sem heitir vaxviðarætt eða Fouquieriaceae. Hún inniheldur aðeins eina ættkvísl; Fouquiera. Talið er að innan hennar séu aðeins til 11 tegundir sem líkjast töluvert kaktusum sem þarna vaxa. Þetta eru hvorki kaktusar né lyng en samt einskonar lyngkaktusar. Umhverfisaðstæður hafa að sumu leyti leitt til svipaðrar þróunar hjá þessum frænkum og frændum lyngsins og þekkist meðal kaktusa og skapað stórfurðuleg tré og runna.

 
 

Samkvæmt Britannicu er Fouguieria splendens ein af ellefu tegundum þessarar ættkvíslar. Það er eiginlega auðveldara að trúa því að þessi tegund sé skyld lyngi á Íslandi en þessi fáránlegu gulrótartré sem við skoðum hér að neðan. Myndin er frá Brittannicu.

Ein af þessum tegundum lítur út eins og risastór gulrót á hvolfi. Kallast hún Fouquieria columnaris á fræðimálinu en eldra nafn er Idria columnaris. Þetta furðutré á sér ekkert íslenskt heiti en þrátt fyrir það útnefnum við það sem tré vikunnar.

 

Tré vikunnar vex í hrjóstrugu landi þar sem fátt vex nema kaktusar. Myndin er héðan.

Nafnið

Ættkvíslarheitið Fouquieria er dregið af nafni fransks eðlisfræðings að nafni Pierre Fouquier (1776 – 1850). Á Wikipediusíðu um þennan ágæta mann kemur fram að ættkvíslin Fouquiera er nefnd eftir honum, en það er ekkert minnst á hvað varð til þess að hann verðskuldaði þessa upphefð. Þeir Clapp og Crowson (2024) nefna þetta líka en viðurkenna að þeir hafi ekki hugmynd um af hverju þetta stafar. Seinni hluti fræðiheitisins, viðurnafnið columnaris hefur oft komið fyrir í pistlum okkar. Það er gjarnan notað um tré sem eru blýantslaga. Það á alveg sérlega vel við um þetta tré, nema ef það fær helst til lítið af vatni. Þá breytist vöxturinn eins og við nefnum hér síðar.

 
 
Það kemur ekkert sérstaklega á óvart að þessi tegund skuli hafa viðurnafnið columnaris. Myndina fengum við héðan.
 

Þar sem tréð vex í Bandaríkjunum og í Mexíkó er rétt að geta þess að á ensku heitir tréð Boojum tree en á spænsku Cirio. Ef þið viljið fræðast frekar um tréð má skrá þessi heiti í leitarvélar Alnetsins.

 

Þessa mynd fengum við frá Boyce Thompson Arboretum. Þar má finna upplýsingar um tréð.

Heimkynni

Við höfum stundum nefnt að sumar tegundir trjáa eru einlendar. Það merkir að þær finnast bara á afmörkuðu svæði og þá helst bara í einu landi. Þetta tré á sér mjög takmarkað útbreiðslusvæði og vex aðeins í eyðimörkum í vesturhluta Norður-Ameríku. Vandinn er að eyðimörkin er bæði í Mexíkó og í Kaliforníu á Kaliforníuskaganum. Tréð er því í tveimur löndum og þar með er ekki hægt að halda því fram, með góðu móti, að tegundin sé einlend. En það munar æði litlu. Tréð vex aðeins í eyðimerkurvistinni á þessum slóðum og í sömu vist á eyjum í Kaliforníuflóa og handan hans. Ef við höfum það í huga að landamæri eru mannanna verk, en ekki eitthvert náttúrulögmál, má vel halda því fram að tegundin sé einlend.

Tegundina er að finna meðal granítkletta og í gömlum eldfjallajarðvegi í hlíðum og gljúfrum. Tréð er að finna frá 10 m hæð yfir sjávarmáli og allt upp í 660 metra hæð. Reyndar er það algengara í nokkurri hæð. Tréð vex gjarnan með kaktusum og Yucca valida og öðrum tegundum sinnar ættkvíslar, sem allar mynda runna (The Encyclopedia of Trees 2024).

 

Útbreiðsla þessa furðutrés og frænda þess, F. burragei, samkvæmt þessari síðu. Það er næstum einlent á Kaliforníuskaga en finnst einnig á eyju í flóanum og á litlu svæði handan flóans í Mexíkó.

Nánar um ættkvíslina

Tegundir ættkvíslarinnar eiga sér ákveðin einkenni. Má nefna að allar ellefu tegundirnar af þessari ættkvísl eru þaktar hárbeittum þyrnum sem verja þær fyrir ásókn grasbíta.

Oftast vaxa tegundir ættkvíslarinnar upp sem fjölmargir stofnar frá einni og sömu rótinni. Þannig myndast þyrnóttir runnar. Tré vikunnar hefur annan háttinn á. Það myndar bara einn stofn. Þar sem þessi tegund þarf einungis að fóðra einn stofn er ekki að undra að tegundin geti orðið hærri en runnarnir. Það er óhætt að kalla tegundina tré. Þetta er sennilega ástæða þess að um tíma var talið að þessi tegund tilheyrði annarri ættkvísl; Idria. Það ættkvíslarheiti hefur nú verið fellt niður og gert að samheiti Fouquieria. Oftast eru Fouquieria tegundirnar með lauf sem raðast í spíral á mjög stuttar greinar og á stofninn. Laufin falla af yfir mesta þurrkatímann (Luteyn 2024).

 
 

Furðulegt útlit trjáa. Myndin fengin af þessari vefsíðu þar sem tréð var útnefnt sem tré mánaðarins. Í þessum pistli er sagt frá því hvernig trén geta fengið svona einkennilegan vöxt. Framan við tréð er runnakenndur kaktus.

 

Lauf að byrja að vaxa og mynda spíral utan um stofninn. Myndina fengum við héðan þar sem sjá má margar myndir af þessari tegund.

 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistil til að vekja athygli á skrifunum og vefsíðu félagsins.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00