Fara í efni
Pistlar

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

TRÉ VIKUNNAR - XCII

Hátt uppi í fjöllum Mexíkó má finna þintegund sem á fræðimálinu er kennd við trúarbrögð. Hún heitir Abies religiosa og á íslenskri Wikipediusíðu hefur hún verið nefnd helgiþinur. Það er ágætt nafn. Þetta tré gegnir mjög merkilegu hlutverki í náttúrunni og hjá heimamönnum tengist það tveimur mikilvægum hátíðum. Önnur þeirra kallast jól, því þetta er vinsælt jólatré. Hin er dagur hinna dauðu. Væntanlega er það vegna þessara tveggja hátíða sem tréð ber viðurnefnið religiosa. Í náttúrufræðinni er það þó allt annað sem gerir það stórmerkilegt.

 

Helgiþinur myndar hávaxna og þétta skóga. Myndin er fengin héðan en hana tók Jeff Bisbee.

Mexíkó

Óhætt er að fullyrða að líffjölbreytileiki í Mexíkó sé óvenjumikill. Hann byggist á legu landsins og landsháttum. Syðst liggur landið að Guatemala. Þar er landið með annan fótinn í regnskógunum með allri þeirri líffjölbreytni sem þeir bjóða uppá. Þegar komið er að norðurlandamærunum, sem liggja að Bandaríkjunum, er landið svo þurrt að kalla má það eyðimörk eins og við þekkjum svo vel úr kúrekamyndum. Að auki liggur landið bæði að Kyrrahafi og Atlantshafi en fjöllin í landinu rísa upp í meira en 5000 metra hæð. Hæst er Pico de Orizaba, sem einnig er nefnt Citlaltépetl. Það rís upp í 5.636 metra hæð. Samanlagt skipar allt þetta mikla fjölbreytni.

Í þessum pistli skoðum við tré sem vex uppi í háfjöllunum.

 

Tvær myndir af helgiþin sem C.J. Earle tók. Báðar eru þær héðan þar sem finna má upplýsingar um tegundina.

Vaxtarstaðir

Hátt uppi í fjöllum Mexíkó, og reyndar einnig í háfjöllum Guatemala, má gjarnan finna furuskóga. Furur af tveimur tegundum eru nánast einráðar á stórum svæðum en sums staðar má finna aðrar tegundir inn á milli. Þegar kemur ofar í furuskóginn sjást þintré. Fyrst bara eitt og eitt innan um fururnar en þeim fjölgar þegar hærra er komið. Að lokum verða þær svo til einráðar og vaxa í nær samfelldum þinskógum í háfjöllunum í 2100 til 4100 metra hæð yfir sjávarmáli. Á sumum stöðum má þó finna önnur barrtré innan um þininn eins og degli, Pseudotsuga menziesii subsp. glauca og furutegundirnar Pinus montezumae og P. hartwegii. Helgiþin er helst að finna í frjósömum eldfjallajarðvegi sem gnótt er af á þessum slóðum.

Svona hátt uppi í fjöllunum eru þokur tíðar á sumrin sem eru svöl og rök. Veturnir eru til muna þurrari og þá má búast við snjókomu.

Þetta mynstur, fyrst furuskógar, svo blandskógar furu og þins og loks hreinir þinskógar, má sjá á mjög mörgum fjöllum um mið- og suðurhluta Mexíkó og norðurhluta Guatemala. Þetta leiðir til þess að oft er langt á milli vaxtarstaða helgiþina því á milli þeirra eru furuskógar og dalir. Samgangur trjánna yfir fjalladalina er hverfandi. Hvert fjall hefur sitt kvæmi, afbrigði eða jafnvel undirtegund. Aftur á móti hefur pólitískt umhverfi á þessum slóðum verið þannig að fáir vísindamenn hafa skoðað hversu mikill munur kann að vera á milli mismunandi hópa. Hér er þó grein þar sem sagt er frá þessum fjölbreytileika. Ef til vill má að einhverju leyti líka rekja það til þessa óstöðugleika að tegundin á sér tvo tugi samheita samkvæmt WFO. Heimamenn í hlíðum fjallanna geta vel haft mismunandi heiti á þininum eftir því hvar þeir búa, enda geta þinir á einu fjalli verið nokkuð ólíkir þeim sem vaxa á næsta fjalli.

 

Algengast er að helgiþinir myndi einstofna, keilulaga tré. Eins og sjá má er það ekki alveg algilt. Sum tré láta hin fínni blæbrigði glæsivaxtar liggja á milli hluta. Myndin er fengin héðan en hana tók Bob Van Pelt.

Lýsing

Helgiþinur minnir á aðra ættingja sinna í útliti, því skylt er skeggið hökunni. Trén eru oftast keilulaga og sígræn með mjúkar barrnálar sem vaxa á rauðbrúnum greinum en árssprotarnir eru grænir. Barrið er ljósara ef mikil sól skín á það. Á greinunum eru oftast mjög fínleg hár en stundum vantar þau alveg. Eins og á öðrum þintegundum standa könglarnir bísperrtir upp af greinunum í stað þess að hanga niður eins og algengast er innan þallarættarinnar. Þeir geta orðið allt að 16 cm langir og eru furðulíkir könglum deglis.

Tréð verður mjög hátt við góð skilyrði og verður að jafnaði 25 til 40 metrar á hæð. Á bestu stöðum getur það orðið enn hærra eða allt að 60 m samkvæmt The Gymnosperm Database. Ofar í fjöllunum verða þau lægri og mynda ekki eins þétta skóga. Stofninn getur orðið um 2 m í þvermál. Börkurinn á ungum trjám er sléttur og mjúkur en með aldrinum á hann það til að sprynga i flögur.

 

Börkur helgiþina. Fyrri myndin sýnir börk á tré sem er 140 cm í þvermál en seinna tréð er ungt að árum og aðeins 12 cm í þvermál. Myndirnar fengnar héðan en þær tók C.J. Earle.

 

Efra og neðra borð barrsins á helgiþin. Fyrsta myndin er tekin af grein sem óx sólarmegin á trénu en hinar tvær eru af skuggahliðinni. Lokamyndin sýnir neðra borð greinanna. Rétt er að geta þess að stundum er nokkur litamunur á trjánum, þannig að óvíst er að fyrstu tvær myndirnar séu af sama trénu. Barrið vex jafnt í allar áttir á sprotunum en barrnálarnar á neðra borði sveigjast upp, eins og sjá má. Barrið er dökkgrænt að ofan (ljósara sólarmegin) en neðra borðið er með tvær bláhvítar rákir með loftaugum eins og algengt er á barrtrjám í þallarætt.

Myndirnar fengnar af sömu síðu og myndirnar hér að ofan og þessar myndir eru líka teknar af C.J. Earle.

Fræðiheitið

Þetta er annað tréð sem við fjöllum um í pistlum okkar sem hefur viðurnefnið religiosa. Hitt tré er hoffíkja eða Ficus religiosa. Það tré tengist ýmsum trúarbrögðum og er frægast fyrir að Siddharta Gátama sat undir tré af þeirri tegund er hann fékk sína uppljómun og varð Búdda.

Abies religiosa tengist tveimur hátíðum kristinna manna í Mexíkó. Fyrst má nefna að helgiþinur tengist jólum á þann hátt að hann er vinsælt jólatré eins og svo margar aðrar þintegundir í heiminum. Það dugar þó ekki, eitt og sér, til að fá þetta heiti.

Tréð tengist á sérstakan hátt einni vinsælastu trúarhátíðinni í Mexíkó. Kallast hún dagur hinna dauðu eða Día de los Muertos. Við komum að þeirri tengingu hér á eftir. Vegna þessara tenginga hlaut tréð þetta viðurnafn og íslenska heitið er dregið af því. Þess má til gamans geta að þessi dagur hefur að undanförnu unnið sér nokkra hefð á Íslandi. Kallast hann hrekkjavaka og ber upp á allraheilagramessu. Dagurinn er jafnvel enn betur þekktur undir enska heitinu halloween, en það er auðvitað óþarfi.

 

Eins og á öðrum þintrjám eru könglarnir uppréttir. Hér að ofan segir að þeir geti orðið allt að 16 cm langir. Þessir könglar eru nokkuð ungir. Þegar þeir eldast verða þeir fjólubláir og síðan brúnir með fjólubláa tóna. Á þessu stigi minna þeir töluvert á köngla deglis. Myndina tók Jeff Bisbee og birti hana hér.

Uppgötvun leyndarmáls

Heimamenn hafa þekkt þessa tegund í árþúsundir og þekkt stóra leyndarmálið sem hún geymir. Það er þó ólíklegt að þeir hafi þekkt hversu stórkostlega merkilegt það er.

Eins og margir þekkja er Mexíkóborg byggð á hásléttu í samnefndu landi. Allt í kringum hana eru há fjöll með furu- og þinskógum eins og lýst er hér að ofan. Því hefur leyndarmálið ekki bara verið þekkt í litlum fjallaþorpum, heldur af fjölmörgum heimamönnum í stórborginni. Aftur á móti er það fremur nýlega sem vestrænir líffræðingar fengu nasaþefinn af því. Þó var þintegundinni fyrst lýst árið 1817 af þýskum grasafræðingi að nafni Carl Sigismund Kunth (1788 – 1850). Að vísu hélt Karl Sigmundur að þetta væri fura en ekki þinur en nú vitum við betur. Kunth minntist ekki á stóra hlutverk þessara trjáa sem heimamenn vissu vel um.

Þetta leyndarmál tengist fiðrildum. Þau eru ægifögur og sennilega frægustu fiðrildi í heimi. Kallast þau kóngafiðrildi eða Danaus plexippus.

 

Í fjöllunum í Mexíkó er enginn hörgull á jólatrjám. Sjá má að nokkur litamunur er á trjánum. Að hluta til er það birtan sem veldur þessu en s um trén bera bláa tóna. Það er algengt hjá barrtrjám í háfjöllum. Í vinnslu hjá okkur er pistill um það fyrirbæri. Hversu mikil leyndarmál geta svona skógar geymt? Myndin er fengin frá Wikipediu en hana tók Rafael Saldaña sem er frá Mexíkóborg

Ráðgátan um kóngafiðrildin

1. Vor og sumar

Á hverju vori fara plöntur af ættkvíslinni Asclepias að blómstra í Norður-Ameríku. Heimamenn kalla þessa ættkvísl milkweed en samkvæmt orðabanka Íslenskrar málstöðvar, sem varðveittur er hjá Árnastofnun, kallast ættkvíslin svali. Bankinn gefur upp nöfn eins og dvergsvali, Asclepias pumila og hnúðsvali, A. tuberosa. Sagt er að til séu um 200 tegundir af þessari ættkvísl.
 
 

Kóngafiðrildi í roðasvala, Asclepias incarnata. Myndina fundum við á Wikipediu en hana tók R.A. Nonenmacher.

Eftir því sem sunnar dregur í Bandaríkjunum, þeim mun fyrr vorar. Þess vegna birtast þessar tegundir og blómstra fyrst í suðurríkjunum. Svo færist vorið smám saman norðar og nýjar og nýjar plöntur af ættkvíslinni taka þá við blómguninni.

Eitt af því sem helst einkennir alla ættkvíslina er að litið er á hana sem illgresi. Annað er að hún framleiðir taugaeitur þannig að flest dýr í heiminum forðast að éta plöntur sem tilheyra ættkvíslinni. Þó ekki alveg öll. Þegar fyrstu svalarnir fara að blómstra birtist fjöldinn allur af skrautlegum fiðrildum. Þau koma úr suðri og færa sig norður eftir því sem blómgun svalanna færist til. Þessi fiðrildi næra sig á hunangi úr blómunum og verpa eggjum sínum í plönturnar. Úr þeim skríða lirfur sem kippa sér ekkert upp við að éta af þessum eitruðu plöntum. Þvert á móti. Þær eru ónæmar fyrir eitrinu. Reyndar éta lirfur þessara fiðrilda ekki neitt nema þessar jurtir. Án þeirra geta þær ekki lifað. Ekki bara það. Eitrið hleðst upp í þeim þannig að lirfurnar verða líka eitraðar. Lirfurnar mynda um sig púpur sem eru alveg jafn eitraðar. Þegar fiðrildin skríða úr púpum sínum eru þau ekkert minna eitruð. Fiðrildin eru stór og áberandi appelsínugul og svört á litinn. Kallast þau Monarch butterflies á ensku en hafa fræðiheitið Danaus plexippus. Á íslensku kallast þau kóngafiðrildi.

 

Kyn kóngafiðrilda má greina í sundur af litamynstrinu. Fyrri myndin sýnir karl en sú seinni kerlingu. Myndirnar eru af Wikipediu. Fyrri myndina á Derek Ramsey en þá seinni á Kenneth Dwain Harrelson.

Þessi áberandi litur á fiðrildunum er ætlað að vara fugla og aðra afræningja við því að éta þau, enda eru þau eitruð. Þetta vita fuglarnir mæta vel og forðast þau eins og heitan eldinn. Það er eins og þeir sjái rautt er þau líta fiðrildin augum. Svipaðir varnarlitir eru vel þekktir víða um dýraríkið og virðast virka vel. Það eru meira að segja til minni fiðrildi á sömu slóðum sem hafa nær sömu liti og kóngafiðrildin. Þau eru ekki eitruð en þetta dugar til að blekkja fuglana. Þeir láta þau alveg í friði, enda vita þeir ekki betur en þarna sé baneitraður biti.

Vorið færist smám saman norðar og illgresisblómgunin einnig. Fiðrildin fylgja í kjölfarið og verpa eggjum sínum alltaf norðar og norðar í Ameríku eftir því sem líður á sumarið. Má með góðum vilja segja að hjá þeim sumum sé nánast eilíft vor. Þannig er það að minnsta kosti hjá sumum einstaklingunum sem skríða úr eggi í suðurríkjunum og verpa sjálf í miðríkjunum og í Kanada og drepast svo, sæl og glöð.

Myndir sem sýna farflug kóngafiðrilda í Bandaríkjunum. Sum fara þó yfir landamærin til Kanada þótt það sjáist ekki á kortinu. Myndirnar eru fengnar úr þessari grein þar sem lesa má um flugið.
 

Ráðgátan um kóngafiðrildin

2. Haust og vetur

Því miður er það ekki svo að öll fiðrildin lifi við endalaust vor. Að lokum fer að kólna. Fyrst kólnar í norðrinu og þá fara fiðrildin að fljúga suður. Allt sumarið hafa þau flest tímgast eins og þau mögulega geta. Kerlurnar hafa verpt eins mörgum eggjum og þær framast geta en þegar fiðrildin fara að fljúga suður, þá steinhætta þau öllu kynlífi. Eftir því sem haustið færist sunnar bætast fleiri og fleiri kóngafiðrildi í hópinn. Þau eru öll á sömu leið. Þetta er ekki ósvipað og farflug fugla, sem við þekkjum svo vel á Íslandi. þetta er eina þekkta dæmið um skordýr sem stunda farflug. En hvernig tengist þetta farflug helgiþininum?
 
 

Síðsumars mynda kóngafiðrildi gríðarlega stóra hópa í árlegu farflugi sínu. Myndin fengin úr þessari grein.

Svarmur kóngafiðrildanna stækkar og stækkar á leiðinni suður, enda koma þau af svæði sem telur 4,5 milljón ferkílómetra. Lítill hluti hópsins stoppar í suðurhluta Kaliforníu og nokkur stoppa í Suður-Flórída að því að talið er en langstærsti hópurinn fer frá Bandaríkjunum og yfir til Mexíkó. Milljónum saman fljúga fiðrildin yfir fjöll og eyðimerkur uns þau koma í tiltekið fjallendi í landinu. Þau fara á 12 mismunandi staði norðaustan við Mexíkóborg og setjast öll á trén sem þar vaxa. Þótt staðirnir séu taldir vera 12 eru þeir nálægt hver öðrum og eru allir á svæði sem er innan við 1 km2 að flatarmáli. Þarna safnast saman nær öll kóngafiðrildi heimsins og setjast öll í sömu trén. Að sjálfsögðu er tréð helgiþinur enda er þessi pistill um þá tegund.

Þetta er stóra leyndarmál trjánna.

Öll fiðrildin koma í risastórum hópum og þau koma alltaf á nánast sama tíma í fjöllin. Þau koma á einni stærstu hátíð sem haldin er í landinu. Þegar heimamenn segja frá er sagt að þau birtast öll á degi hinna dauðu eða Dia de los Muertos sem haldinn er hátíðlegur seinni hlutann í október. Þá minnast lifendur hinna dauðu. Ekki með sorg og sút, heldur með söng, dansi og gleði. Hvað er betra í ríki náttúrunnar, til að minna á þennan gleðidag, en heilu svarmarnir af kóngafiðrildum? Varla er hægt að hugsa sér fallegri búning fyrir sálir hinna framliðnu en hin glæsilegu kóngafiðrildi.
 
 

Fiðrildin setjast jafnt á stofna sem greinar helgiþinsins. Myndin fengin héðan en hana tók David Stark.

 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistil til að vekja athygli á skrifunum og vefsíðu félagsins.

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30

Ódi

Jóhann Árelíuz skrifar
19. janúar 2025 | kl. 06:00

Sambýlið á Ásbraut 3 í Kópavogi

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
17. janúar 2025 | kl. 06:00

Minjasafnsgarðurinn á Akureyri

Sigurður Arnarson skrifar
15. janúar 2025 | kl. 16:00