Fara í efni
Umræðan

Landsnet og raflínur í þéttbýli

Landsnet vill leggja loftlínu um framtíðar byggingarland Akureyrar – skilgreint þéttbýli – þvert á stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Deilur um lagningu Hólasandslínu 3 sunnan tengivirkis Landsnets á Rangárvöllum stóðu í mörg ár og gekk hvorki né rak fyrr en stjórnvöld tóku af skarið og mörkuðu opinbera stefnu um lagningu raflína. Í kjölfarið gekk Landsneti vel að afla allra leyfa fyrir 220kV jarðstrengnum sunnan Rangárvalla og tók Landsnet af allan vafa um að jarðstrengur varð fyrir valinu vegna þessarar opinberu stefnumörkunar.

Landsnet þvertekur hins vegar að leggja jarðstreng innan þéttbýlismarka Akureyrar norðan Rangárvalla og vill nú hvorki kannast við opinbera stefnumörkun stjórnvalda eða fyrri yfirlýsingar um lagningu raflína innan þéttbýlismarka Akureyrar.

STEFNA STJÓRNVALDA

Í greinargerð ráðherra með þingsályktun um Stefnu stjórnvalda um lagningu raflína sem samþykkt var á Alþingi 2015 segir: Ein af megináherslum þeirrar stefnu sem hér er lögð fram er að setja raflínur í jörðu þar sem það er fjárhagslega hagkvæmast og í þéttbýli…“ 

Einnig er hnykkt á því að kostnaðurmunur milli loftlínu og jarðstrengs skipti ekki máli þegar línur eru lagðar í þéttbýli: Reglan um hámarkskostnaðarmun gildir þó ekki þegar um er að ræða skilgreint þéttbýli…“ 

Á þessu jarðstrengja ákvæði er hnykkt aftur á þingi árið 2018 og segir þar í fylgiskjali ráherra: „Lengd loftlína mun því minnka og verða þær því minna sýnilegar í íslenskri náttúru, auk þess sem þær verða að mestu fjarri friðlýstum svæðum og munu ekki liggja inn í þéttbýlisstaði.

KOSTNAÐARVIÐMIÐ GILDA EKKI Í ÞÉTTBÝLI

Þessi þéttbýlisákvæði þekkir Landsnet í þaula og því segir í matskýrslu fyrirtækisins um Hólasandslínu 3: „Skoðaðir jarðstrengskostir í Eyjafirði liggja innan þéttbýlismarka, þar sem kostnaðarviðmið eiga ekki við“ og „Í Eyjafirði getur loflína ekki risið samhliða núverandi línum vegna áhrifa á flugumferð og þéttbýli...“

Það lá því beint við að Hólasandslína 3 var lögð í jörð um skilgreint þéttbýli og útivistarsvæði Akureyrar og höfðu bæði Landsnet, vinnuflokkur Finns Aðalbjörnssonar og sveitarstjórnarmenn fullan sóma af strenglögninni.

Nýtt 220kV tengivirki á Rangárvöllum er eingöngu gert fyrir jarðstrengstengingar og Blöndulína 3 mun því tengjast þar um jarðstreng.

ÁFORM LANDSNETS STENST EKKI SKOÐUN

Það undarlega í málinu er að Landsnet áformar einungis að leggja þennan jarðstreng nokkra tugi metra norður fyrir tengivirkið og reisa þar endamastur Blöndulínu 3 og leggja línuna á möstrum norður eftir skilgreindu þéttbýli Akureyrar. Fyrirtækið ber fyrir sig kostnaðarmun loftlínu og jarðstrengs og ekki sé borð fyrir báru til jarðstrengslagna vegna fyrirhugaðs 66kV strengs til Dalvíkur sem takmarki strenglagnir í Blöndulínu 3.

Þetta stenst ekki skoðun. Viðmiðið um kostnaðarhlutföll gildir ekki um línulagnir í þéttbýli, eins og fram kem hér að ofan. Í tilfelli Hólasandslínu viðurkennir Landsnet þetta bæði í orði og verki.

Endamastur Hólasandslínu 3 þar sem hún er tekin í jörð neðan Bíldsárskarðs. Samskonar mannvirki verður reist í Blöndulínu 3. Landsnet vill hafa það heima í hlaði á Rangárvöllum en betur færi að mannvirkið yrði ofan Lögmannshlíðarvegar, að mati greinarhöfundar.

UM STRENGLENGDIR

Í ítarlegri skýrslu um mögulegar strenglengdir í Blöndulínu 3 er reiknað út frá þeim forsendum að í Hólasandslínu 3 væri 11,9 km langur tvöfaldur 220kV jarðstrengur. Jarðstrengurinn í Hólasandslínu 3 sem lagður var í fyrra er einungis 9,6 km langur eins og Landsneti er fullkunnugt. Munurinn er u.þ.b. sú lengd af streng í Blöndulínu 3 sem þarf til þess að komast út fyrir skilgreint þéttbýli norðan Rangárvalla. Í þessum gögnum kemur fram að mögulegt sé að leggja allt að 3 km langan tvöfaldan jarðstreng í BL3 ásamt því að leggja 66kV streng frá Akureyri til Dalvíkur.

Hvergi annars staðar á leið nýju 220kV tengingarinnar milli Fljótsdals og Grundartanga liggur línuleiðin um þéttbýli. Skv stefnu stjórnvalda ber að leggja raflínur í þéttbýli í jörð. Færa verður ýtarleg rök fyrir því að leggja til loftlínu um skilgreint þéttbýli. Það hefur Landnsnet ekki gert. Þar að auki sýnir Landsnet ekki með tillhlýðilegum hætti ásýnd loftlínu innan Akureyrar í matskýrslu Blöndulínu3, – vita líklega upp á sig skömmina að þarna kemur loftlína ekki til greina.

Flutningsgeta nýju 220kV raflínanna er margfalt meiri en almenn raforkunotun á landsbyggðinni enda hafa línurnar það megin hlutverk að tengja saman stóriðju á Reyðarfirði og Grundartanga ásamt þeim stórvikjunum sem liggja þar á milli. Við núverandi aðstæður er ekki þörf á allri þessari flutningsgetu og af þeim sökum er aðeins annað par jarðstrengsins í Hólasandslínu 3 suður frá Rangárvöllum tengt inn á loftlínuhluta línunnar. Það sama mætti gera í Blöndulínu 3, þ.e. leggja tvöfalda strengi en létta reksturinn með því að tengja einungis annað strengparið þar til þörf er á allri flutningsgetunni. Slík flutningsþörf myndast ekki fyrr en búið er að stækka Blönduvirkjun og Þeistareykjavirkjun ásamt því að tengja 220kV línurnar suður á Grundartanga. Þar með eykst geta kerfisins til að ráða við 220kV jarðstrengi frá því sem nú er.

GILD ÁSTÆÐA FYRIR STEFNUMÓTUN STJÓRNVALDA

Það er gild ástæða fyrir þeirri stefnumótun stjórnvalda að ekki sé horft til kostnaðarmunar strengja og loftlína í þéttbýli.
Þegar Rafveita Akureyrar reisti tengivirki við Þingvallastræti fyrir tæpum 70 árum var það langt fyrir ofan þáverandi byggð. Þangað tengdist seinni Laxárlínan og varð til þess að Lundahverfið var klofið í sundur og í raun byggt í tvennu lagi. Löngu seinna lagði Rafveita Akureyrar 66kV jarðstreng frá Rangárvöllum og niður Þingvallastræti. Strengurinn leysti loftlínuna af hólmi og Laxárlínan var færð upp fyrir byggðina í tengivirkið á Rangárvöllum. Í kjölfarið fylgdi svo skipulagsrimman um Dalsbrautina sem hönnuð var inn í gamla línustæðið.

Nýlega þurfti Reykjavíkurborg að kosta niðurrif 132 kV Korpulínu og lagningu hennar í jörð til þess að ná fullri nýtingu byggingarlands við Úlfarsfell og Leirtjörn.

Það er því ekki langsótt að ætla að loftlínulögn heim að girðingu á Rangárvöllum eigi bæði eftir að kosta Akureyringa skipulagsklúður og vænan bakreikning við niðurrif loftlína.

Það er umhugsunarefni af hverju Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemdir við þessi loftlínuáform Landsnets í þéttbýli. Stofnunin á að þekkja stefnumörkun stjórnvalda og vita að Akureyri er landlítið sveitarfélag í vexti.

Akureyri hefur algera sérstöðu gagnvart þessum 220 kV línulögnum þar sem hvergi annarsstaðar stendur til að leggja megin flutningslínur rafmagns um þéttbýli.

Til þess að uppbygging raforkukerfisins gangi greiðlega þarf Landsnet að fylgja reglum og laga mannvirki að þörfum samfélagsins.

Karl Ingólfsson starfar við ferðaþjónustu

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00