Krafa bæjarins að hluti línunnar verði í jörðu
Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, segir það vera kröfu bæjarins – og hafi alltaf verið – að hluti Blöndulínu 3 innan bæjarmarkanna verði lagður í jörðu án þess að kostnaður við það falli á bæinn. Halla Björk hefur leitt viðræður bæjarins við Landsnet um málið. Landsnet vill að háspennustrengurinn verði allur loftlína.
Frestur rennur út á morgun til að gera athugasemdir við tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrarbæjar sem gera á vegna Blöndulíu 3. Halla Björk hvetur bæjarbúa sem hafa áhyggjur af málinu að koma þeim á framfæri.
Í grein sem birtist á Akureyri.net í gær kallaði Karl Ingólfsson, Akureyringur búsettur í Hafnarfirði, fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi klúður. Hann segir langvarandi deilur Hafnarfjarðarbæjar við Landsnet um loftlínu í þéttbýli víti til varnaðar. Smellið hér til að sjá frétt um grein Karls.
Raunhæft að bærinn þurfi ekki að greiða
„Viðræður við Landsnet snúast meðal annars um það hvort og hvernig bærinn kemur að því að greiða fyrir lagningu í jörðu. Krafa Akureyrarbæjar er og hefur alltaf verið að fá hluta línunnar í jörðu án þess að kostnaður falli á bæinn,“ sagði Halla Björk Reynisdóttir við Akureyri.net í dag og bætti við: „Við hvetjum alla til þess að koma sínum áhyggjum á framfæri í athugasemdum við lýsinguna og þær verða síðan hafðar til hliðsjónar í framhaldinu.“
Hafnarfjarðarbær og Landsnet hafa átt í deilum sem fyrr segir. Á vef Landsnets sagði fyrir nokkrum árum, um deilur sem lúta að lagningu lína:
- Fyrirtækið hefur verið reiðubúið að færa umræddar línur ef bæjarfélagið greiðir kostnaðinn við flutning þeirra, eins og lög gera ráð fyrir.
Þar segir einnig:
- ... enda er Landsneti ekki heimilt að fjármagna slík verkefni og velta kostnaði við þau yfir á notendur í gegnum gjaldskrá fyrirtækisins.
Í ljósi þessa var Halla Björk spurð hvort raunhæft sé að gera ráð fyrir því, og reyna að semja um, að bærinn þurfi ekki að greiða fyrir það ef loftlína verður síðar lögð í jörðu. Hún kveðst telja það raunhæft.
„Já, ég tel raunhæft að bærinn komi ekki að kostnaðinum. Viðræðurnar snúast um tímasetningar og getu kerfisins.“
- Fjólubláu fletirnir tákna fyrirhugaða íbúabyggð
- Bláa breiða línan sýnir tillögu Landsnets um loftlínu, helgunarsvæði er 65 - 85 metrar á breidd
- Græna heila línan sýnir legu loftlínu en sú brotna græna jarðstrengskost
- Rauða brotalínan sýnir þéttbýlismörk
- Rauða línan sem dregin er á myndina sýnir 1 km vegalengd frá loftlínunni og svarta línan sem dregin er á myndina sýnir 500 metra vegalengd frá loftlínunni. Svo stutt vegalengd frá íbúðabyggð er talin geta orðið til þess að fasteignamat lækki í Gilja- og Móahverfum