Fara í efni
Umræðan

Jæja ...

Nú er farinn í hönd sá tími þegar lausagöngukettir byrja að tína upp unga smáfuglanna, nýkomna úr hreiðri, eða drepa foreldrin, sem í mörgum tilvikum eru nýlega komin um langan veg yfir hafið frá vetrarstöðvunum til að auka kyn sitt.

Fram til þessa, meðan lítið var um bráð, hafa kettirnir látið nægja að skíta í blómabeð, kartöflugarða og í sandkassa fólks (þar sem þá er að finna), en nú sem sagt er vertíð framundan hjá þeim, með blessun og leyfi flestra bæjaryfirvalda og sveitarstjórna í landinu. Húsavík, eða öllu heldur þéttbýli Norðurþings, er þar undantekning og svo Akureyri frá næstu áramótum. Þeir bæir eiga heiður skilið fyrir að grípa til aðgerða gegn þessum vágesti.

Ég bý á Akranesi og hef verið að velta fyrir mér 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Eru þetta orðin tóm, eða skyldi ég hafa rétt á því, að vilja ekki fá kött nágrannans inn um dyr eða glugga íbúðarhússins míns og þaðan allt inn á rúmgafl eða í stofu, eða lóðina kringum húsið mitt, þar sem hann gerir þarfir sínar að vild, án þess að nokkur hreinsi upp eftir hann?

Þetta er mun alvarlegri hlutur en fólk gerir sér grein fyrir.

Burtséð frá því að kettir skuli vera einu gæludýrin sem fá að ganga laus á Íslandi, fara hvert sem þau langar og hvenær sólarhrings sem er, sem út af fyrir sig er alveg stórfurðulegt, og hlýtur að vera brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, er athyglisvert að lesa það sem segir í 56. grein XV. kafla Reglugerðar um hollustuhætti (941/2002) á vef Umhverfisráðuneytisins. Það er svofellt: „Gæludýr skulu þannig haldin að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði.“ Og í 58. gr. segir: „Óheimilt er að halda ketti í fjöleignarhúsum ef kattahaldið sannanlega veldur eða viðheldur sjúkdómum hjá íbúum.“

Bíðum nú aðeins við. Af hverju er þetta bara óheimilt í fjöleignarhúsum? Hver er munurinn á heimili mínu og þeim? Hvað ef fólk er með ofnæmi fyrir köttum? Hvers á það fólk að gjalda? Og hvað ef það væri með bráðaofnæmi? Hver bæri ábyrgðina ef illa færi? Ég, af því að dyr og gluggar stóðu opin hjá mér og fjölskyldu minni í blíðviðrinu? Nágranninn, af því að hann hleypti dýrinu út? Bæjarstjórn, af því hún gaf leyfi fyrir lausagöngunni? Íslenska ríkið, af því að þetta er látið viðgangast, þegjandi og hljóðalaust?

Önnur spurning enn mikilvægari er þessi: Að hverju er þetta yfir höfuð bannað? Jú, það reyndar kemur fram í umræddu skrifi, þetta er út af hinum megna óþrifnaði sem köttum getur fylgt og smithættu, þar sem sníkjudýrið bogfrymill (Toxoplasma gondii) er fremstur – og stórhættulegur fólki. Hann er enda að valda miklum usla í dýrum um allan heim og þjóðir að vakna upp við þá martröð.

Í 19. grein IV. kafla sömu reglugerðar er þetta: „Ekki má hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3.“

Og hvað ætli standi nú í því? Jú: „Húsrými og lóðir sem ekki má hleypa hundum, köttum og öðrum gæludýrum inn á. Um matvælafyrirtæki fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Heilbrigðis- og meðferðarstofnanir, skólar, lækna- og tannlæknastofur, sjúkrahús og aðgerðarstofur, vistarverur handtekinna manna, heilsuræktarstöðvar, íþróttastöðvar og íþróttahús, gæsluvellir, snyrtistofur, nuddstofur og sjúkraþjálfun, sólbaðsstofur, húðflúrstofur, samkomuhús s.s. kirkjur, leikhús, hljómleikasalir, söfn og kvikmyndahús, gististaðir, veitingastaðir og sumarbúðir fyrir börn.“

Þetta er alveg stórmerkileg lesning. Kettir mega sem sagt hvergi vera þar sem fólk er við leik og störf, en það er allt í lagi að þeir séu valsandi í húsagörðum og inni á einkaheimilum þess, og það meira að segja óboðnir. Þar mega þeir gera hvað sem er, hvenær sem er, í boði yfirvalda.

Finnst einhverjum þetta virkilega í lagi?

Kettir ættu auðvitað, eins og önnur gæludýr, að vera inni allan ársins hring, eða þá í girðingum úti við. Nenni eigendur þeirra ekki að sinna þeim, ættu þeir ekki að hafa leyfi til að eiga þá.

Þetta er ekki flókið.

Nú þegar kosningar nálgast væri forvitnilegt að vita hvað framboðin segja um þetta. Enn hef ég þó ekki séð blaða- eða fréttamenn nefna slíkt við frambjóðendur, hvað sem veldur. Enn er þó nokkur tími til stefnu og vonandi taka þeir nú við sér. Því stór hluti landsmanna er að pæla í þessu og mun lesa það sem skrifað verður. Og taka afstöðu í framhaldinu.

Lifið heil.

Magnús Ólafs Hansson er húsgagnasmiður, starfar sem hönnuður og ráðgjafi og er búsettur á Akranesi.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00