Akureyri verði fest í sessi sem svæðisborg

Borgarstefna Íslands, eða réttara sagt skortur á borgarstefnu, var rædd á Alþingi í síðustu viku þegar Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti fyrir þingsályktunartillögu um borgarstefnu fyrir Ísland. Samkvæmt frétt á vef Stjórnarráðsins felst þingsályktunartillaga Eyjólfs aðallega í tvennu; annars vegar að styrkja höfuðborgarhlutverk Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins í heild, og hins vegar að festa Akureyri í sessi sem svæðisborg og skilgreina og efla hlutverk hennar og borgarsvæði.
Í þingsályktunartillögu Eyjólfs segir meðal annars:
- 1.c - Svæðisborgin Akureyri. Akureyri verði skilgreind svæðisborg og hlutverk hennar sem slíkrar mótað í samstarfi ríkis og Akureyrar. Svæðisborgin verði efld sem drifkraftur í þjónustu og menningarlífi íbúa og nærliggjandi byggða og sérstaða svæðisins nýtt í því skyni.
- 1.d - Borgarsvæði Akureyrar. Samhliða mótun hlutverks Akureyrar sem svæðisborgar verði borgarsvæði hennar þróað og unnið að eflingu þess og stækkun í samstarfi ríkis og hlutaðeigandi sveitarfélaga. Afraksturinn verði stærra og öflugra atvinnusvæði, sem er jafnframt eitt búsetu- og þjónustusvæði. Við ákvarðanir um uppbyggingu innviða verði horft til þess að styðja þá þróun.
Fjölkjarna borgarþróun í stað einkjarna
Stefnumótandi byggðaáætlun fyrir landið var samþykkt einróma á Alþingi árið 2022. Áætlunin er fyrir árin 2022-2036. Þar er fjallað sérstaklega um það, að skilgreina Akureyri sem svæðisborg, þannig að vissulega er málið ekki nýtt af nálinni. Í áætluninni er Akureyrarsvæðið skilgreint eins og í Grænbók um byggðamál; en það telur sveitarfélögin Akureyrarbæ, Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit og Svalbarðsstrandarhrepp.
Í þingsályktunartillögunni segir að í dag séu rúmlega 22.000 manns Akureyrarsvæðinu og því sé það langfjölmennast á landinu utan höfuðborgarsvæðis. Því sé nærtækast að efla það, sé vilji fyrir því að beina þróuninni í átt að svokallaðri fjölkjarna borgarþróunar, í stað einkjarna borgarþróunar sem hefur einkennt Ísland hingað til.
Umræðan um Akureyri sem borg kemur reglulega upp
Að skilgreina Akureyri sem borg, eða svæðisborg, hefur komið reglulega upp í umræðum. Í pistli á Akureyri.net frá 2021, frá Hildu Jönu Gísladóttur og Loga Einarssyni um „Hina borgina“, kom fram að hugmyndin um Akureyri sem borg hefði fyrst komið fram árið 1963, þegar Valdimar Kristinsson, hag- og landfræðingur hafði skrifað að lítil þorp og bæir úti á landi myndu seint hamla fólksflótta til höfuðborgarinnar, en að stuðla að uppbyggingu annarrar borgar myndi ef til vill geta það. Nefndi hann Akureyri sérstaklega í því samhengi.
Í sama pistli segir; „Akureyri ber nefnilega mörg einkenni borgar og hefur auk þess góð vaxtarskilyrði. Háskóli, sjúkrahús, menningarhús, alþjóðaflugvöllur, fjölbreytt verslun og þjónusta auk iðandi lista og íþróttalífs, skapar íbúum ákjósanleg lífsskilyrði, auk þess sem hún gegnir mikilvægu svæðisbundnu hlutverki fyrir allt Norðausturland.“
Ingibjörg Isakssen, alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn, skrifaði pistil um málið á Akureyri.net fyrir ári síðan. Þar má meðal annars lesa; „Samhliða vinnu við mótun Akureyrar sem svæðisborgar þarf áhrifasvæðið að þróast í takt sem mun skila sér í öflugra og stærra atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæðis. Í dag er mikið um að íbúar í sveitarfélögum utan Akureyrar sæki atvinnu eða aðra þjónustu til Akureyrar og hefur sá fjöldi vaxið mikið á síðustu árum.“
Það verður áhugavert að fylgjast áfram með þróun byggðamála og skilgreiningu Akureyrar sem svæðisborgar á þessu kjörtímabili, en ljóst er að ekki verður slegið slöku við í þeim efnum, miðað við að málið er nú þegar komið í þingsályktunartillögu á borði hjá ráðherra Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.