Íþróttasíða Halls Símonarsonar
EYRARPÚKINN - 16
Íþróttasíðan var sá hluti Tímans sem ég gleypti í mig af mestri áfergju og las ég lýsingar Halls Símonarsonar á handboltaeinvígum FH og Fram í Hálogalandi opnum munni.
FH-liðið stjörnum prýtt og Ragnar Jónsson hetja mín og leiðarljós við þrotlausar æfingar á lóðinni þegar ég sparkaði boltanum í battann á hvítkölkuðum veggnum gróðarhússmegin.
Ragnar æfði skotfimina einn og sér. Hnýtti rauðum borða kringum rimil leikfimishússins og skaut og skaut af löngu færi.
Hættir ekki fyrr en hann brýtur rimilinn sagði Viggi glottandi.
Ragnar var enginn risi en kastaði sér niðrávið og skaut uppávið og negld'ann í vinkilinn fjær og var einstakt í íslenskum handknattleik.
Ég hafði þau fræðin beint frá bróður mínum í háskólanum.
Þokaðist ég Eyrina í snjómuggu með Tímann í leðurtösku eftir sigur FH og smjattaði á hverju orði.
Fram byrjaði betur og hafði undirtökin þegar Ragnar gerði fjögur mörk í röð og út um leikinn.
Hæfileikamenn þeir Hjalti Einars, Birgir Björns og Örn Hallsteins enda FH-ingar kjarni landsliðsins á HM fimmtíuogátta og sextíuogeitt og rauður þráður leikja minna í holinu.
Skoraði Ragnar ellefu mörk gegn Fram og kafsigldi Reykvíkinga.
Í körfubolta hélt ég með ÍR í hólmgöngum þeirra gegn KR og var Þorsteinn Hallgrímsson sér á parti.
Agndofa sá ég hann taka KA-menn í kennslustund í Íþróttahúsinu við Laugargötu. Það var vináttuleikur og sendi Þorsteinn boltann gegnum klofið á Skildi Jóns og gerði körfu hvar sem var leikvallar.
Ég var heima um allar íþróttir og gleypti í mig allt prentað mál sem ég komst yfir en sá aldrei hið fræga FH-lið.
Ragnar Jónsson lék fjölda landsleikja fyrir hönd Íslands ásamt Gunnlaugi Hjálmarssyni. Fannst mér Ragnar hafður í skugga Gunnlaugs því Ragnar var flinkari og hugmyndaríkari.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Íþróttasíða Halls Símonarsonar í er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.