Fara í efni
Íþróttir

Íslandsmeistarar Þórs í körfubolta 1976

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XVIII

Kvennalið Þórs í körfubolta hefur vakið mikla athygli fyrir góða frammistöðu í vetur. Þórskonur leika nú í efstu deild Íslandsmótsins í fyrsta skipti í 45 ár, þær hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn og næsta miðvikudag leikur Þór í undanúrslitum bikarkeppninnar gegn liði Grindavíkur í Laugardalshöllinni.

Af þessu tilefni er vert að bregða sér nokkra áratugi aftur í tímann. Þórsliðið varð nefnilega bikarmeistari kvenna árið 1975, þegar bikarkeppni var fyrst haldin í kvennaflokki. Þórsarar urðu Íslandsmeistarar kvenna árin 1969 og 1971 og síðan í þriðja og síðasta skipti til þessa árið 1976. Myndin er af meistaraliðinu 1976.

Þór átti lang besta lið landsins veturinn 1975 - 1976, sigraði t.d. Íslandsmeistara ÍR á Akureyri um miðjan janúar, 42:12, sem sýnir best yfirburði liðsins. Liðið var raunar einnig best veturinn á undan en af fjárhagsástæðum þurftu Þórsarar að velja og hafna; tóku þátt í bikarkeppninni fyrri veturinn en völdu Íslandsmótið þann seinni!

KR og ÍR voru helstu keppinautar Þórsara veturinn 1975 - 1976. Sunnanliðin töpuðu þó bæði sex stigum en Þórsstúlkur fóru taplausar í gegnum mótið. Fyrir Þórsliðinu fór María Guðnadóttir, kunn frjálsíþróttakona úr Stykkishólmi, sem á þessum tíma var við nám í Menntaskólanum á Akureyri. Hún var ein albesta körfuknattleikskona landsins, geysilega útsjónarsöm og með frábært auga fyrir spili og fór þá á kostum í hverjum leiknum á fætur öðrum. Þórunn Rafnar var einnig mjög atkvæðamikil í liðinu og aðrir leikmenn sem mikið komu við sögu voru þær Ásta Pálmadóttir, Guðrún Hreinsdóttir og handknattleikskonurnar kunnu Magnea Friðriksdóttir og Harpa Sigurðardóttir. Þjálfari þeirra var Anton Sölvason.

Íslandsmeistararnir 1976 á myndinni eru, í aftari röð frá vinstri: Ásta Pálmadóttir, María Guðnadóttir, Þórunn Rafnar, Þórný Kristjánsdóttir, Helga Helgadóttir og Anton Sölvason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Sólveig Gunnarsdóttir, Harpa Sigurðardóttir, Guðrún Hreinsdóttir og Magnea Friðriksdóttir.