Fara í efni
Umræðan

Hvað þarf Sjálfstæðisflokkurinn?

Framundan er landsfundur Sjálfstæðisflokksins þar sem við sjálfstæðismenn stöndum á ákveðnum tímamótum eftir það sem á undan er gengið. Ekki sízt með tilliti til forystumála flokksins. Við þurfum að geta sýnt kjósendum fram á það með trúverðugum hætti að um nýtt upphaf sé að ræða. Bæði þeim sem haldið hafa tryggð við flokkinn og ekki síður hinum sem ekki hafa talið sig getað haldið áfram að kjósa hann. Það verður ekki gert með því að bjóða upp á meira af því sama.
 
Mjög langur vegur er vitanlega frá því að allt sem gert hafi verið í nafni Sjálfstæðisflokknum á undanförnum árum hafi verið gagnrýnisvert. Hins vegar hefur fólk ríka tilhneigingu til þess að horfa fremur á það sem illa hefur tekizt til með en vel og því miður hefur þar verið af nógu að taka. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurheimta trúverðugleika sinn en til þess þurfa kjósendur trúverðuga ástæðu til að horfa til framtíðar í stað þess að einblína í baksýnisspegilinn.
 
Við getum þannig kosið formann sem verið hefur í framvarðssveit Sjálfstæðisflokksins um langt árabil og ber fyrir vikið sína ábyrgð á því hvernig haldið hefur verið á málum. Formann sem mun líklega þurfa að endurheimta eigin trúverðugleika áður en hann getur einbeitt sér að trúverðugleika flokksins. Eða við getum kosið formann sem getur skellt sér strax af öllu afli í það mikilvæga verkefni að endurreisa Sjálfstæðisflokkinn og veita ríkisstjórninni kröftugt aðhald.
 
Vel til þess fallin að sameina flokkinn
 
Ég tel að bezti kosturinn í þeim efnum sé Guðrún Hafsteinsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi dómsmálaráðherra. Ólíkt öðrum þeim sem helzt hafa verið nefndir til sögunnar sem mögulegir formenn Sjálfstæðisflokksins hefur Guðrún ekki verið árum saman í stjórnmálum. Á þeim tíma sem hún hefur verið það hefur hún hins vegar stimplað sig rækilega inn sem framkvæmdamanneskja með bein í nefinu enda með mikla stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu.
 
Sjálfstæðisflokkurinn þarf meðal annars og ekki sízt að efla tengslin við atvinnulífið. Við þurfum formann sem bæði hefur skilning á hagsmunum almennings og þörfum atvinnulífsins, ekki sízt lítilla og meðalstórra fyrirtækja þaðan sem Guðrún kemur, og mikla reynslu af störfum innan þess. Aðrir sem helzt hafa verið nefndir í umræðunni sem mögulegir formenn eiga það hins vegar sameiginlegt að hafa nánast ekki reynslu af öðrum störfum en þátttöku í stjórnmálum.
 
Þar sem Guðrún á ekki að baki mjög langan feril í stjórnmálum, en engu að síður árangursríkan, er hún ekki brennimerkt einni fylkingu innan Sjálfstæðisflokksins umfram aðrar og fyrir vikið afar vel til þess fallin að sameina flokksmenn þvert á fylkingar. Guðrún er enn fremur af landsbyggðinni en hefur um leið verið í góðum tengslum við höfuðborgarsvæðið í gegnum tíðina. Hún er í raun hinn dæmigerði sjálfstæðismaður, frjálslyndur íhaldsmaður sem ann landi sínu og þjóð.
 
Sókn eða áframhaldandi varnarsigrar
 
Við stöndum frammi fyrir þeim veruleika að Sjálfstæðisflokkurinn verði mögulega í stjórnarandstöðu næstu fjögur árin. Í það minnsta næstu misserin. Ný ríkisstjórn stendur mun veikari fótum en forystumenn hennar vilja halda fram og sú staða mun að öllum líkindum aðeins þróast til verri vegar fyrir hana. Kosningar gætu fyrir vikið hæglega skollið á með skömmum fyrirvara innan ekki svo langs tíma. Flokkurinn þarf sem fyrst að vera undir það búinn og geta sótt fram.
 
Við þurfum þannig að sameina sjálfstæðismenn, endurheimta trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins og geta samstundis hafizt handa við að nýta til hins ítrasta þau sóknarfæri sem veik og sífellt veikari staða ríkisstjórnarflokkanna mun skapa. Við höfum einfaldlega hvorki tíma til þess né efni á því að bíða á meðan nýr formaður fer í það verkefni að reyna að sannfæra kjósendur um að hann standi fyrir nýtt upphaf þrátt fyrir að hafa verið í forystusveit flokksins árum saman.
 
Við sjálfstæðismenn höfum einfaldlega val um það á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að hefja strax sókn í kjölfar hans eða gera okkur líklega í bezta falli vonir um áframhaldandi varnarsigra eins og í síðustu þingkosningum. Valið á nýjum formanni hlýtur að snúast fyrst og fremst um það sem flokkurinn þarf til þess að verða aftur það forystuafl í íslenzkum stjórnmálum sem hann lengst af var í þágu lands og þjóðar. Ég er sannfærður um að sá valkostur sé Guðrún Hafsteinsdóttir.
 
Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Höfuðborgin Reykjavík og aðgengi landsbyggðarbúa

Franz Árnason skrifar
25. janúar 2025 | kl. 06:00

Sjá, þannig skal vandað til þess, sem á lengi að standa

Hlín Bolladóttir skrifar
24. janúar 2025 | kl. 17:30

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30