Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Strandgata 35

Strandgata 35 eða Havsteenshús er eitt af reisulegri húsum hinnar tilkomumiklu götumyndar við Strandgötu. Húsið byggði Jakob V. Havsteen árið 1888 en ekki liggja fyrir heimildir um teiknara. Höfundi þykir hins vegar freistandi að giska á, að Snorri Jónsson timburmeistari á Oddeyri, hafi haft hönd í bagga við hönnun og byggingu hússins, jafnvel að hann hafi verið byggingameistari.

Strandgata 35 er einlyft timburhús á háum steyptum kjallara og með háu, portbyggðu risi. Fyrir miðju húsi er stór kvistur með mænisþaki og gengur hann í gegnum húsið. Nyrst á austurstafni eru tröppur upp að inngöngudyrum og á vesturstafni eru tvær inngöngudyr, inndregnar og útskorið skraut yfir inngönguskoti. Inngönguskúr „bíslag“ er á bakhlið undir kvisti. Vestanmegin, meðfram Grundargötu gengur mikil bakálma úr húsinu. Er hún tvílyft með lágu risi. Er þar um að ræða viðbyggingu. Austasti hluti hússins, sem er einlyftur með valmaþaki er einnig viðbygging. Er hún tvö „gluggabil“ og eru gluggar þar með þverpóstum. Á veggjum er einhvers konar báruð álklæðning og hefðbundið bárujárn á þaki. Krosspóstar eru í flestum gluggum en þverpóstar í fáeinum þeirra. Grunnflötur hússins (ónákvæm mæling af map.is) er u.þ.b. 24x11m, þar af viðbygging að austan um 4m breið og bakálma um 8x6m.

Árið 1887 fékk Jakob V. Havsteen lóð hjá Gránufélaginu. Í samningunum kemur fram að „[…]allur reki sunnan við lóðina er undanskilinn frá kaupunum, s.s. hvalur, viður, kolkrabbar og landshlutur af síld“ (Jón Sveinsson 1933: 82). Hvort fjörur Oddeyrar hafi verið krökkar af kolkrabbar síðla á 19. öld skal ósagt látið hér, en alltént eru þeir tilgreindir þarna sérstaklega. Vorið 1888, nánar tiltekið þann 8. maí, mældi bygginganefnd fyrir húsi Havsteens. Það skyldi 32 álnir (u.þ.b. 20m) að lengd, 16 álnir (u.þ.b. 10m) að breidd og stæði austan við hús Ólafs Jónssonar (Hótel Oddeyri, sem brann 1908). Fjarlægð frá húsi Ólafs yrði 22 álnir (u.þ.b. 14m). Næsta áratuginn fór fram mikil uppbygging á lóðinni, árið 1891 reisti Havsteen pakkhús norðan við húsið, nánar tiltekið 10 álnir frá húsinu, 12 álnir að lengd, 10 álnir að breidd, frá norðri til suðurs. Þá byggði hann einnig fjós, hlöðu og geymslu og brauðgerðarhús og stóðu húsin nokkurn veginn í hring um lóðina. Fæst þessara húsa standa þó enn, íshúsið, sem var Strandgata 35b var rifið fyrir um tveimur áratugum. Enn standa þó geymsluskúrar, sem áfastir voru því húsi. Þá má einnig geta þess, að Havsteen reisti annað hús norðan við lóðina, Grundargötu 4, árið 1902 og stendur það hús enn. Þá reisti hann bryggju í fjörunni framan við húsið.

Árið 1903 fékk Havsteen leyfi til að reisa „veranda“ austan við, 6,5 álnir austur af stafni og í „flugti“ við suðurhlið. Var verönd þessi öll hin vandaðasta og glæsilegasta, yfirbyggð að hluta með stórum og miklum skrautrúðum og sannkallaður sólskáli. Þakbrúnir og þakskegg voru skreytt útskurði. Vorið 1913 fékk Jakob Havsteen leyfi til að byggja saman Grundargötu 2 og Strandgötu 35 en fyrrgreinda húsið mun hafa verið pakkhúsið frá 1891. Þar með fékk húsið það lag sem það síðan hefur; pakkhúsið var orðin áföst bakálma við húsið. Nyrsti hluti þess hefur þó nokkuð örugglega verið rifinn síðar, því eftir stækkun 1898 var pakkhúsið orðið samtals 23,5 álnir, eða um 15 metrar og núverandi bakálma er hvergi nærri það löng. Í Fasteignamati 1918 er húsinu lýst svo: Íbúðar- og verslunarhús úr timbri, klætt steinplötum á veggjum, einlyft með porti, kvisti og háu risi, á kjallara, þak pappaklætt. Á gólfi: 2 stofur, 2 skrifstofur, eldhús og veranda. Á lofti: 5 íbúðarherbergi og geymsla. Bygt [svo] 1888. Stærð: 25,0x10,0m. tröppur 12,5x1,3m, 2 skúrar, 4,4x1,9+6,6x2,2m, pallur 3,1x2,2m. Viðbótarbygging b. 1913, tvílyft stærð 5,6x4,4m. (Úr Fasteignamati 1918).

Í fasteignamatinu 1918 segir að húsið sé klætt steinplötum. Umræddar steinplötur eru bogadregnar skífur. Mögulega hefur Havsteen sett skífuna á í kjölfar Oddeyrarbrunans 1906, en eldvörn var einn megintilgangur steinskífu. Ekki einu sinni, heldur tvisvar hafa næstu hús við Strandgötu 35 brunnið til grunna og hlýtur timburhúsið að hafa verið í hættu í bæði skiptin. Handan Grundargötu eða við Strandgötu 33, stóð stórhýsið Hótel Akureyri, byggt 1884, en mikið breytt og bætt um 1905, m.a. settir á það turnar og skreyttur kvistur. Það hús brann til ösku í október 1908, ásamt húsinu Strandgötu 31, sem byggt var 1886. Núverandi hús við Strandgötu 33 er byggt 1924. Þann 3. september 1931 brann þáverandi Strandgata 37 til grunna, en það hús reisti téður Havsteen einnig, sem brauðgerðarhús, árið 1899. Núverandi hús á þeirri lóð (þ.e. 37) sem löngum hýsti Kristjánsbakarí er byggt í áföngum frá 1931-46. Margir muna eftir Havsteenshúsinu skífuklæddu, en skífan mun hafa verið á húsinu eitthvað fram undir 1970. Upprunalega var húsið með láréttri panelklæðningu á veggjum. Sólskálanum eða veröndinni frá 1903 var lokað um 1950 og síðan eru tveir gluggar með þverpóstum þar sem skautrúður voru áður.

J.V. Havsteen eða Jakob Valdemar Havsteen var fæddur á Akureyri þann 6. ágúst 1844. Hann nam verslunarfræði í Danmörku og árið 1875 hóf hann störf hjá Gránufélaginu og gegndi þar stöðu verslunarstjóra. Hann var við störf hjá Gránufélaginu til ársins 1887 en ári síðar hóf hann eigin verslunarrekstur og stundaði hann til dánardægurs. Hann rak umfangsmikla útgerð og fiskvinnslu, síldveiðar og söltun, auk þess sem hann rak bakarí og sláturhús. Stundaði einnig ýmsan inn-og útflutning og var þannig nokkurs konar eins manns verslunarveldi. Hann gegndi auk þess ýmsum embættum og ábyrgðarstöðum, var m.a. konsúll Dana og Svía og hlaut árið 1907 etasráðsnafnbót, einn Íslendinga fyrr og síðar. Jakob Havsteen lést þann 19. júní árið 1920.

Margt hefur verið ritað og rætt um Jakob V. Havsteen og af honum fóru margar skemmtilegar sögur, enda valinkunnur mektarmaður og einn virtasti borgari Oddeyrar. „Það var tvímælalaust að í æsku minni var Jakob Havsteen kaupmaður mestur virðingarmaður á Oddeyri“ segir Jóhannes Jósefsson í æviminningum sínum. Jakob Havsteen var gamansamur mjög og tók hvorki sjálfan sig né aðra hátíðlegar en þörf gerðist, spaugsamur og góðlátlega stríðinn. Þá má geta þess, að hann og kona hans, Þóra Emilie Havsteen, stóðu um árabil fyrir jólaskemmtunum fyrir börn og voru miklar hjálparhellur fátæks og þurfandi fólks. Greiddi Havsteen starfsfólki sínu í verslunum hærra kaup en aðrir, og sagði það vera vegna þess, að þá stæli það minna (Sbr. Jóhannes Jósefsson 1964:32).

Verslun Havsteens var staðsett í vesturenda hússins, með inngöngudyr frá Grundargötu. Þar mun hann hafa verslað með hinar ýmsu nauðsynja- og nýlenduvörur auk áfengis, uns áfengisbann gekk í gildi 1915. Jakob Havsteen lést, sem áður segir, árið 1920 og eignaðist skrifstofustjóri hans, Jón Stefánsson þá húsið. Enda þótt verslun Havsteen hafi liðið undir lok með andláti hans, fór það ekki svo, að verslun hætti í Havsteenshúsi. Árið 1922, þegar sala á vínum var leyfð aftur, gerðist Jón framkvæmdastjóri útibús Áfengisverslunar ríkisins og opnaði útibú í kjallara hússins. Þar var áfengisverslunin fram yfir 1950 eða í rúma þrjá áratugi. Í upphafi fyllti Jón glugga verslunarinnar vínflöskum til auglýsingar og þótti mörgum nóg um en á síðari árum var hins vegar farið að öllu með mikilli leynd og gát, og þess gætt að börn sæju alls ekki hverjir komu inn í verslunina og þess þá heldur, að þau sæju hvað viðskiptavinir keyptu (sbr. Jón Þ. Þór 2021:234).

Eftir daga Havsteens varð húsið nokkurs konar fjölbýlishús og er það raunar enn. Árið 1930 er t.a.m. 31 skráður til heimilis í Strandgötu 35. Í manntalinu 1901 er húsið talið nr. 29 við Strandgötu og áður kallaðist það Consúls Havsteens hús. Árið 1940 er afgreiðsla Strandgötu 35 einföld í manntalinu. Þar stendur einfaldlega „leigt Bretum“ og ekki orð um það meir - nema tekið fram, að eigandi sé Jón Stefánsson. En breska setuliðið hafði einmitt afnot af húsinu yfir stríðsárin en einnig og aðallega norsk flugherdeild, sem hér hafði bækistöð. Kallaðist húsið þá Norges hus. Ekki er ósennilegt, að eftir brotthvarf norsku hermannanna hafi núverandi íbúðaskipan eða vísir að henni, komist á. Nú munu alls sjö íbúðir í húsinu.

Strandgata 35 er reisulegt og glæst hús, í mjög góðri hirðu og er til mikillar prýði í götumynd Strandgötu. Á árunum 2012-22 voru í gildi húsfriðunarlög, sem kváðu á um aldursfriðun húsa yfir 100 ára aldri. Er Strandgata 35 því friðuð vegna aldurs og er það vel, enda verðskuldar húsið svo sannarlega friðun. Í Húsakönnun 2020 hlýtur það einnig hátt varðveislugildi. Meðfylgjandi myndir eru teknar 23. janúar og 29. mars 2021.

Þess má geta, að lengri og ítarlegri grein um Strandgötu 35, eftir undirritaðan, má finna í nýjasta hefti Súlna - norðlensks tímarits, sem Sögufélag Eyfirðinga gefur út.

Heimildir:

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 77, 8. maí 1888. Fundargerðir 1902-21 Fundur nr. 254, 18. ágúst 1903. Fundur nr. 378, 16. apríl 1913. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Fasteignamat á Akureyri 1918. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.

Jóhannes Jósefsson. 1964. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Stefán Jónsson skráði. Reykjavík: Ægisútgáfan.

Jón Hjaltason. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa

Jón Sveinsson. „Jónsbók“, safn upplýsinga um hús og lóðir á Akureyri. 1933. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Jón Þ. Þór. 2021. Höndlað við Pollinn. Saga verslunar- og viðskipta á Akureyri frá öndverðu til 2000.

Manntal á Akureyri 1940. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Auk upplýsinga af timarit.is og manntal.is, sjá tengla í texta.

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00