Hús dagsins: Ránargata 13 (áður Hafnarstræti 107)
Eftir síðustu grein um Gömlu Gróðrarstöðina hafði samband við mig Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnastjóri umhverfismála hjá Akureyrarbæ. Hann vann um tíma í Gróðrarstöðinni og ber húsinu vel söguna. Erindi hans var, að honum hafði áskotnast teikningar af Gróðrarstöðinni og koma því á framfæri að langafi hans, Guðlaugur Pálsson timbursmiður, hafi flutt inn efnið í húsið og stýrt byggingu þess. Þá muni nafn hans hafa sést letrað á fjalir inni í húsinu. Þannig var byggingameistari og mjög líklega hönnuður Gróðrarstöðvarinnar, Guðlaugur Pálsson. Þakka Jóni Birgi kærlega fyrir þessar ábendingar. En af Krókeyrinni færum við okkur á Oddeyrina...
Ránargata er ein þvergatnanna sem gengur norður frá Eiðsvallagötu á Eyrinni. Liggur hún samsíða og vestan við Ægisgötu en austan við Norðurgötu. Ránargata tók að byggjast uppúr 1930 en flest húsin við hana voru byggð á fimmta og sjötta áratugnum. Húsin eru flest nokkuð svipuð, tveggja hæða steinsteypt hús með lágum valmaþökum. En hús nr. 13, sem stendur á horninu við Eyrarveg sker sig dálítið úr. Það er stórt einlyft timburhús með portbyggðu risi og miðjukvisti, járnklætt á steyptum kjallara. Grunnflötur er um 16x8,70m. Byggingalagi þess svipar raunar mjög til elstu húsa Oddeyrar t.d. við Strandgötu, Norðurgötu og Lundargötu. Enda er um að ræða hús frá því skömmu fyrir aldamótin 1900, um hálfri öld eldra en nærliggjandi hús. Og það er aðflutt, stóð áður við Hafnarstræti 107, þar sem nú er aðsetur Sýslumanns og áður Útvegsbankinn.
Ránargötu 13, áður Hafnarstræti 107, reistu þau Júlíus Sigurðsson bankastjóri og kona hans Ragnheiður Benediktsdóttir árið 1897. Þess má geta, að hún var systir Einars Benediktssonar, skálds og athafnamanns. Húsið byggðu þau við fjöruborðinu í krikanum milli Oddeyrar og Bótarinnar. Var það eitt af fyrstu húsum sem risu á hinu langa og illfæra einskismannslandi er í þá daga aðskildi Akureyri og Oddeyri. Ekki var um neitt byggingarleyfi að ræða, enda segir í Jónsbók, að bygging hafi hafist áður en landið var lagt undir kaupstaðinn, en það var árið 1896. Var þá land Stóra-Eyrarlands á Brekkunni lagt undir lögsögu Akureyrarkaupstaðar. Fram að því tilheyrði brekkan milli Akureyrar (Innbæjarins) og Oddeyrar Hrafnagilshreppi, kaupstaðarlandið þannig í raun tvær „hólmlendur“ inni í hreppnum. Það var hins vegar ekki fyrr en í febrúar 1897 að Júlíus keypti lóð milli Oddeyrar og Torfunefs með fyrirvara um nánari útmælingar. Það getur þó vel verið, að Júlíus hafi þegar hafið byggingu hússins árið áður enda þótt lóðin væri ekki í höfn formlega, en slíkt var ekkert einsdæmi. Á upphafsárum þéttbýlis á Oddeyri gátu meira að segja liðið nokkur ár frá því að hús var byggt og lóð var mæld út. Það var svo 6. apríl sama ár að lóðin var mæld út, 15 faðmar norður-suður og 22 faðmar austur-vestur. Söluverðið var 10 aurar á hverja fer-alin húsagrunns(63x63cm). Þá bættust við 10 aurar fyrir hvern faðm af annarri lóð, en höfum í huga að á þessum stað (þ.e. yst í Bótinni) var langt til næstu húsa árið 1897. Svo hæg voru heimatökin fyrir Júlíus, að stækka lóðina. Þá er rétt að geta þess, að ein alin er nálægt 63 centimetrum og faðmur var sagður 3 álnir (um 190cm). Þannig var lóð Júlíusar við Hafnarstræti 107 um 28x40m að stærð.
Júlíus Sigurðsson (1859-1936), sem fæddur var á Ósi í Hörgárdal, nam skipasmíðar hjá Snorra Jónssyni en við stofnun Gagnfræðaskóla á Möðruvöllum settist hann þar á skólabekk. Fékkst eftir það við barnakennslu, samhliða smíðum en réðst til Benedikts Sveinssonar (síðar tengdaföður Júlíusar) sýsluskrifara árið 1889. Þá fluttist hann til Akureyrar árið 1893 og gerðist þar amtsskrifari og amtsbókavörður. Þegar útibú Landsbankans var opnað á Akureyri árið 1902 var hann ráðinn útibústjóri og gegndi því starfi í nærri þrjá áratugi. Mestallan þann tíma, eða frá 1904-1931 var bankaútibúið starfrækt í Hafnarstræti 107. Þegar húsið var virt til brunabóta í lok árs 1916 var það sagt „íbúðar- og bankahús“ einlyft með porti, kvisti og háu risi, á kjallara. Enda þótt húsið sé sagt bankahús er aðeins minnst á þrjár stofur og forstofur austanmegin (við framhlið) á neðri hæð, og tvær stofur, eldhús, búr og forstofu vestanmegin (við bakhlið). Væntanlega hefur útibúið verið starfrækt í einhverri stofanna. Á lofti voru alls sex herbergi, gangur og geymsla, en fimm geymslurými í kjallara. Tveir skorsteinar voru á húsinu. Húsið var sagt járnklætt timburhús.
Þau Júlíus og Ragnheiður ræktuðu myndarlegan og gróskumikinn garð á suðurlóðinni og átti Ragnheiður fjós og dálítið tún í brekkunum bak við húsið og stundaði þar myndarbúskap og hafði karla í vinnu við hann. Það þótti dálítið sérstakt að konan sæi alfarið um búskapinn og segir Jón Sólnes (síðar ráðherra), sem vann um tíma í bankanum hjá Júlíusi, að Ragnheiður hafi yfirleitt ekki sést þegar hann heimsótti Júlíus. Hún var yfirleitt á kafi við bústörfin. Lýsandi fyrir það, var fleyg saga um tilsvar Júlíusar, þegar komið var nautið handa kúnum og hann einn heima við: „Nú hvur andskotinn, nautið komið og Ragnheiður ekki heima!“ (Jón G. Sólnes (Halldór Halldórsson skráði) 1984: 22).
Júlíus lést árið 1936 og tveimur árum síðar flutti Ragnheiður í nýtt hús, sem hún hafði reist ofan við fyrrum tún sitt, við Bjarmastíg. Eignaðist þá Útvegsbankinn húsið við Hafnarstræti 107. Í febrúar 1953 birtist auglýsing frá Útvegsbankanum í bæjarblöðunum, þar sem húseignin Hafnarstræti 107 er boðin til sölu til niðurrifs og flutnings af lóð. Í maímánuði sama ár færir Bygginganefnd Akureyrar til bókar, að Karl Friðriksson og Jón Þorvaldsson fái aðra lóð vestan Ránargötu frá Eyrarvegi suður.“ Einnig, að þeir fái að flytja á lóðina gamla Íslandsbankahúsið, Hafnarstræti 107, þar sem ætlunin er að „byggja það í sem líkustu formi og það er nú.“ Þurftu þeir að leggja fram teikningar, sem Jón Þorvaldsson gerði. Árið 1954 mun húsið hafa verið fullbúið á nýja staðnum. Nú ber heimildum raunar ekki saman, því í Sögu Akureyrar var það Árni Jakob Stefánsson sem kom að flutningi hússins ásamt Jóni Þorvaldssyni. Mögulega hefur Árni tekið við hlut Karls. En alltént voru Árni Stefán Jakobsson og fjölskylda hans búsett í húsinu eftir að það var orðið Ránargata 13. Húsið er nokkurn veginn í sömu mynd og þegar það stóð við Hafnarstræti nema hvað glugga- og dyraskipan hefur eitthvað verið breytt. En það er raunar ekki óalgengt þegar í hlut eiga hús á þessum aldri, óháð því hvort þau hafa verið flutt eða ekki. Í húsinu eru tvær íbúðir og mun svo hafa verið síðan húsið var flutt hingað.
Ránargata 13 er stórglæsilegt hús og í mjög góðri hirðu. Það setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt og nokkuð einstakt í götumyndinni enda miklum mun eldra hús og af allt annarri byggingargerð en nærliggjandi hús. Svo skemmtilega vill til, að gegnt húsinu, stendur langyngsta hús götunnar, Ránargata 14, sem byggt er 1985. Ránargata 13 er væntanlega aldursfriðað og hlýtur hátt varðveislugildi í Húsakönnun 2020. Það er ætíð æskilegra, ef hús verða að víkja, að þau séu flutt heldur en að þau séu rifin. Hið stórmerka hús þeirra Júlíusar Sigurðarsonar og Ragnheiðar Benediktsdóttur, sem víkja þurfti fyrir nýbyggingu Útvegsbankans, stendur enn með prýði og glæsibrag, þökk sé þakkarverðu framtaki stórhuga manna fyrir 70 árum síðan.
Myndirnar eru teknar þann 17. febrúar 2023.
Heimildir:
Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)
Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-53. Fundur nr. 1168, 18. maí 1953. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Halldór Halldórsson (1984) Jón G. Sólnes; segir frá viðburðaríkri og stormasamri ævi. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933. Óútg. varðv. á Hsksjs. Ak.
Jón Hjaltason (2004) Saga Akureyrar 4.bindi: Vályndir tímar. Akureyrarbær.
Steindór Steindórsson (1993) Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur