Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Möðrufell; eldra íbúðarhús

Sunnan við hæsta fjall Eyjafjarðar, Kerlingu, stendur öllu lægra fjall sem nefnist Möðrufellsfjall. Helstu sérkenni þess eru tvær „hillur“ framan í fjallinu en þar hefur einhvern tíma skriðið fram ægilegt jarðfall eða berghlaup sem sest hefur neðan í fjallinu sem mikil hólaþyrping, leiti og hæðir. Hólaþyrping þessi er alsett grettistökum og stórgrýti og kallast Möðrufellshraun. Ólafur Jónsson (1957:178-180) telur Möðrufellshraun myndað í tveimur framhlaupum, það síðara fyrir um 2500-3000 árum en óljóst með aldur hins fyrra. Þetta náttúrufyrirbæri er þannig ekki eiginlegt eldhraun, því við Eyjafjörð hefur ekki verið í eldvirkni í milljónir ára og það hraun sem þá rann, löngu orðið að jarðlögum og bergi. Fjallið og „hraunið“ eru kennd við bæinn Möðrufell, sem stendur hátt í brekkunum (um 150 m y.s.) neðan fjallsins. Bæjarstæðið er í víðum hvammi suðaustast í skriðufótum Möðrufellshrauns og þar stendur m.a. gamalt íbúðarhús, teiknað af engum öðrum en Guðjóni Samúelssyni, sem síðar varð Húsameistari ríkisins.

Saga jarðarinnar Möðrufells nær langt aftur í aldir. Þar var rekin holdsveikraspítali fyrir Norðurland frá miðri 17. öld til ársins 1848, eða í um 200 ár. Einhver annálaðasta sagan tengd Möðrufelli er raunar hálfgerð hryllingssaga, um systkini tvö er líflátin voru saklaus. Sögum ber raunar ekki saman, hvort þau voru líflátin eða földust í Möðrufellshrauni uns þau sultu í hel. Upp af jarðneskum leifum þeirra átti að hafa vaxið reynitré, Möðrufellsreynirinn og af honum komin mörg reynitré á Eyjafjarðarsvæðinu. Hvað varðar sannleiksgildi þjóðsögunnar um systkinin ólánssömu er það staðreynd, að frá fornu fari óx reyniviður í Möðrufellshrauni og út af honum mörg tré. Reynitré, m.a. í valinkunnum reynilundi á Skriðu í Hörgárdal á 19. öld og vafalítið mörg eldri reynitré Akureyrar, voru út af Möðrufellsreyninum. Sumar sögur segja, að öll reynitré í Eyjafirði séu komin af Möðrufellsreyninum (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:444). Möðrufellsreynirinn var felldur af ungum bónda á miðri 19. öld, og mun hann hafa smíðað úr henni klyfbera. Enn munu finnast reynihríslur í Möðrufellshrauni (Sbr. Hólmfríður Andersdóttir 2000:43). Meðfylgjandi mynd sýnir reynilund við Bjarmastíg 1 á Akureyri, hvort þau eru komin af Möðrufellsreyninum skal ósagt látið hér.

Gamla íbúðarhúsið í Möðrufelli er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með miðjukvisti. Á bakhlið er einnig smár kvistur. Krosspóstar eru í flestum gluggum og bárujárn á þaki og veggir múrhúðaðir. Grunnflötur hússins mun 12,8x8,8m og í Byggðum Eyjafjarðar er húsið sagt 850 rúmmetrar. Þar kemur einnig fram, að húsið hafi að mestu verið endurbyggt á árunum 1966-68. Möðrufell stendur um 500 metra frá Finnastaðavegi og er heimreiðin um 3 km frá vegamótum þess vegar og Eyjafjarðarbrautar vestri. Frá miðbæ Akureyrar að hlaðinu á Möðrufelli gætu verið um 23 kílómetrar.

Þegar minnst er á Guðjón Samúelsson koma eflaust stórar og glæstar kirkju- eða skólabyggingar og aðrar opinberar byggingar upp í huga margra. En hann teiknaði, sérstaklega í upphafi ferils síns, einnig mörg smærri og íburðarminni hús m.a. til sveita. Eitt þeirra var íbúðarhús fyrir Jón Jónsson, bónda í Möðrufelli, sem hann teiknaði í janúar 1920. Þá var Guðjón nýkominn frá námi í Danmörku þar sem hann hafði m.a. kynnt sér byggingar á dönskum búgörðum. Guðjón var mjög áhugasamur um að bæta húsakost í íslenskum sveitum en sótti engu að síður í ákveðin sérkenni og byggingarlag fyrri tíma. Teiknaði hann t.a.m. margar byggingar með burstabæjarlagi. Og húsið í Möðrufelli teiknaði hann með torfþaki (!) en slíkt þak var þó aldrei sett á húsið, heldur var hefðbundið timburþak frá upphafi. Þá var gert ráð fyrir að húsið yrði gaflsneitt og kvisturinn með burstalagi (sbr. Pétur H. Ármannsson 2020:398). Jón Jónsson, sem reisti húsið var fæddur á Gilsbakka í Hrafnagilshreppi árið 1867. Hann og kona hans, Ólöf Bergrós Árnadóttir (1861-1936), fædd að Völlum í Saurbæjarhreppi, komu að Möðrufelli árið 1908, en þau höfðu áður verið í Hrafnagilshreppi m.a. á Dvergsstöðum, Reykhúsum og Syðra Laugalandi í Öngulsstaðahreppi. Þarna má segja, að Jón hafi verið kominn á heimaslóðir, því Möðrufell er næsti bær norðan við Gilsbakka, þar sem hann fæddist. Ólöf var heldur ekki langt frá sínum fæðingarstað, en hún var fædd á Völlum í Saurbæjarhreppi.

Þegar Jón og Ólöf fluttu að Möðrufelli munu þar hafa staðið þar einhverjir torfskálar en torfbæinn sem þar stóð, og birtist í Bæjalýsingum og teikningum mun fyrri eigandi og ábúandi, Páll Hallgrímsson hafa rifið að miklu að leyti (sbr. Jónas Rafnar 1975:39). Það hefur verið umtalsvert stórvirki að ráðast í byggingu steinhússins á Möðrufelli á sinni tíð, en húsið er eitt af fyrstu slíkum sem risu í Hrafnagilshreppi og með þeim stærri og veglegri í hreppunum framan Akureyrar. Heimildum ber raunar ekki saman um hvort húsið er byggt 1919 eða 1920, en uppdráttur er dagsettur 1920. Hlýtur það að taka af öll tvímæli um byggingarár hússins, en þó ekki loku fyrir það skotið, að bygging hafi verið hafin á árinu 1919, enda þótt teikningar lægju ekki fyrir. Árið 1933 var nýja húsið metið til brunabóta og lýst svo: Íbúðarhús úr steinsteypu, ein hæð með kjallara og porti og kvisti. Á aðalhæð eru 6 herbergi og forstofa. Á lofti eru 5 herbergi og geymsla. Kjallari í 7 hólfum. Steinveggur eftir endilöngum kjallara og aðalhæð. Lengd 12,8m, breidd 8,8m og hæð 7,6m. (Brunabótafélag Íslands 1933:nr.13). Í brunabótamati kemur einnig fram, að húsið kjallaragólf sé steinsteypt en aðrir innviðir úr timbri og húsið kynt með kolaofnum og steinolía til ljósa.

Árið 1924 tók dóttir þeirra Jóns og Ólafar, Árnína Hólmfríður og maður hennar Guðbrandur Ísberg Magnússon frá Snóksdal í Dalasýslu, við búskapnum. Árið 1931 tók bróðir Árnínu, Kristinn Óskar Jónsson, og kona hans Jóna Kristín Þorsteinsdóttir við búinu og munu afkomendur þeirra hafa búið hér allt til ársins 1988. Árið 1970 voru ábúendur hér þau Ingvar Kristinsson, sonur téðs Kristins Óskars og Ester Sigurðardóttir. Þá telur bústofn Möðrufells 41 kýr og 19 geldneyti og eitt hross en vegna hringskyrfis hafði allt fé verið skorið árið 1967. Þá er túnstærð 32,52 hektarar og töluvert af ræktanlegu, framræstu landi og töðufengur um 1750 hestar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:292).

Árið 1990 eru ábúendur þau Bjarni Rúnar Guðmundsson og Ragnheiður Austfjörð. Þá telur bústofninn alls 95 nautgripi, þar af 42 kýr, sauðfé, 18, 7 hross og 13 hænur. Ræktað land telst þá 39,5 hektarar. Þá, 1990, hafði risið nýtt íbúðarhús norðan þess gamla en það var byggt árið 1985. Þá voru ábúendur Þorsteinn Ingvarsson og Edda Hrafnsdóttir (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:782). Þess má geta, að Þorsteinn er langafabarn Jóns Jónssonar. Þar með þjónaði gamla íbúðarhúsið sem geymsla. Þegar byggðum Eyjafjarðar voru gerð skil árið 2010 var Lífsval ehf. eigandi jarðar og mannvirkja og ábúandi Þorbjörn Hreinn Matthíasson. Þá eru einungis hross, 37 að tölu, á jörðinni. Auk íbúðarhúsanna frá 1919 (1920) og 1985 standa á jörðinni eftirfarandi byggingar: Hesthús, áður fjós, og hlaða, hvort tveggja byggð 1970, annað hesthús frá 1984 og geymslur byggðar 1935 og 1985 (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:444). Standa útihús sunnan og neðan íbúðarhúsa.

Gamla íbúðarhúsið á Möðrufelli glæsilegt hús að upplagi og sómir sér aldeilis vel á glæstu bæjarstæði. Það lítur mjög vel út og úr fjarlægð er ekki að sjá, að þar hafi ekki verið búið í tæp 40 ár. Jörðin fór vissulega ekki í eyði þegar flutt var úr gamla húsinu, svo líkast til hefur því verið haldið við að einhverju leyti. Árið 2012 fór fram úttekt eða rannsókn á nokkrum eyðibýlum og yfirgefnum húsum á Norðurlandi, m.a. í Eyjafjarðarsýslu og afraksturinn gefinn út á bók; Eyðibýli á Íslandi. Af þeirri umfjöllun má ráða, að umgengni um húsið hafi ekki verið sérlega góð, þegar rannsóknin fór fram, 2012; eyðibýli og yfirgefin hús verða því miður oft fyrir barðinu á skemmdarvörgum. Þar kemur einnig fram, að herbergjaskipan sé að mestu óröskuð. Möðrufellshúsið gamla er væntanlega friðað vegna aldurs, þar sem það er byggt fyrir 1923 og í eyðibýlarannsókninni hlýtur húsið m.a. eftirfarandi umsögn: Húsið er glæsilegt og staðsetning þess mjög góð með tilliti ti útsýnis, náttúrufars og fallegs umhverfis. Að mati rannsakenda er húsið með reisulegri húsum í sveitarfélaginu. Viðgerð er því bæði raunhæf og æskileg áður en húsið skemmist meira (Axel Kaaber o.fl. 2012: 113). Það er svo sannarlega hægt að taka undir þessa umsögn.

Meðfylgjandi myndir af Möðrufelli eru teknar þann 3. júlí 2020 og 20. maí 2022. Mynd, sem sýnir reynitré við Bjarmastíg er tekin 18. ágúst 2015.

Að ofan: Þegar íbúðarhúsið að Möðrufelli var teiknað var gert ráð fyrir torfþaki. Greinarhöfundur ákvað að leika sér aðeins með þá staðreynd í myndvinnsluforriti ...

Heimildir:

Axel Kaaber, Bergþóra Góa Kvaran, Birkir Ingibjartsson, Hildur Guðmundsdóttir, Olga Árnadóttir, Sólveig Guðmundsdóttir Beck, Steinunn Eik Egilsdóttir og Þuríður Elísa Harðardóttir. 2012. Eyðibýli á Íslandi. Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Norður- Þingeyjarsýslu, Suður Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu. Reykjavík: Eyðibýli – áhugamannafélag.

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hólmfríður Andersdóttir. 2000. „Í Eyjafirði aldinn stendur reynir“ í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar; Skógar að fornu og nýju. Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga

Ólafur Jónsson. 1957. Skriðuföll og snjóflóð I. bindi. Akureyri: Bókaútgáfan Norðri.

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00