Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Lundargata 6

Árið 1897 hafði Bygginganefnd Akureyrar starfað í 40 ár og haldið 150 fundi. Í 151. fundargerð segir svo orðrétt: „Ár 1897 þriðjudaginn þ. 17. ágúst 1897 var byggingarnefndin í Akureyrarkaupstað til staðar á Oddeyri eftir beiðni Björns Ólafssonar frá Dunhaga til þess að mæla út lóð undir hús hans er hann ætlar að byggja og sem á að vera 12 ál. á lengd og 10 ál. á breidd. Byggingarnefndin ákvað að húsið skyldi standa 10 ál. í norður frá húsi Baldvins Jónssonar sem þá var í smíðum í og í beinni stefnu að vestan við það og hús Jakobs frá Grísará“ (Bygg.nefnd. Ak. 1897 nr. 150). Umrætt hús Björns Ólafssonar fékk nokkrum árum síðar númerið 6 við Lundargötu. Af hinum húsunum, sem nefnd eru þarna, skal sagt frá í örstuttu máli. Hús Baldvins Jónssonar var Lundargata 4. Það brann til ösku í janúar 1965. Hús Jakobs frá Grísará var Lundargata 10. Það var byggt árið 1894. Árið 1920 var það flutt spölkorn norður og yfir Lundargötu, á lóð nr. 17. Örlög þess urðu þau sömu og Lundargötu 4, það er, húsið skemmdist í bruna 6. maí 2007 og var rifið einhverjum misserum síðar.

Lundargata 6 er einlyft timburhús á háum steyptum grunni, með háu portbyggðu risi. Á veggjum er vatnsklæðning eða panell, sexrúðupóstar í gluggum og bárujárn á þaki. Grunnflötur hússins mun vera 7,62x6,39m. Kemur það heim og saman við upprunaleg mál, 10 álnir eru 6,3m og 12 álnir um 7,5m.

Björn Ólafsson virðist ekki hafa búið lengi í húsinu en árið 1902 er Lundargata 6 komin í eigu Gránufélagsins. Þá eru fjórar íbúðir skráðar í húsinu, og íbúarnir alls fjórtán að tölu. Á meðal sextán íbúa Lundargötu 6 árið 1912 voru þau Pétur Gunnlaugsson og Sigurjóna Steinunn Jóhannsdóttir. Þann 9. febrúar 1913 fæddist sonur þeirra, Jóhann Kristinn, í þessu húsi en hann varð síðar þekktur undir nafninu Jóhann Svarfdælingur, hávaxnasti Íslendingur sem sögur fara af. Þau Pétur og Sigurjóna munu hafa flutt til Dalvíkur skömmu síðar og þaðan að Brekkukoti í Svarfaðardal.

Húsið var í eigu Gránufélagsins og síðar Hinna Sameinuðu íslensku verslana, arftaka Gránufélagsins, og leigt út til íbúðar. Árið 1931 eignaðist Tryggvi Jónatansson múrarameistari húsið. Hann reisti verkstæðishús á baklóð hússins, Lundargötu 6b. Tryggvi Jónatansson var mikilvirkur í teikningu húsa á Akureyri á fyrri helmingi 20. aldar, og á t.d. heiðurinn af drjúgum hluta stórmerkilegrar funkishúsaraðar í Ægisgötu. Kannski hefur hann teiknað þau og fjölmörg önnur hús heima í Lundargötu 6.

Mögulega hefur Tryggvi klætt húsið steinblikki, en sú klæðning var á húsinu, þegar gagngerar endurbætur hófust á því um 1985. Þeim endurbótum lauk um áratug síðar og hafði húsið þá fengið timburklæðningu og glugga í samræmi við upprunalegt útlit. Árið 2004 var steyptur nýr kjallari undir húsið og það hækkað um rúmlega hálfan metra. Teikningarnar að þessum endurbótum gerðu Haukur Haraldsson og Fanney Hauksdóttir. Nú er húsið í mjög góðri hirðu, enda hefur núverandi eigandi einnig gert mikla bragarbót á húsinu og umhverfi þess. Þannig er húsið til mikillar prýði í umhverfinu. Það er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923 og hlýtur í Húsakönnun 2020 hátt varðveislugildi sem hluti heildstæðrar götumyndar Lundargötu. Meðfylgjandi mynd er tekin 26. febrúar 2023.

Heimildir:

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 151, 17. ágúst 1897. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00