Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Brekkugata 3

Brekkugata 3 er vafalítið eitt af stærstu timburhúsum Akureyrar en það er alls fjórar hæðir og stendur á norðvesturhorni Ráðhústorgs. Við norðurenda hússins fer Brekkugatan að halla uppá við. Fá hús hefur verið byggt við jafn oft og Brekkugötu 3, en húsið hefur verið stækkað á flestalla kanta, til þriggja átta og upp á við.

Brekkugata 3 er stórhýsi, þriggja hæða timburhús á steinsteyptum kjallara og með lágu aflíðandi risi með broti (mansard). Stigabygging er á bakhlið og þar er gengið inn á efri hæðir hússins en neðsta hæð er steinsteypt og þar er gengið inn frá götu. Verslunar- og þjónusturými er á jarðhæð en íbúðir á efri hæðum. Húsið er allt bárujárnsklætt, bæði veggir og þak. Gluggar framhliðar eru heilir og póstlausir en annars eru krosspóstar í gluggum hússins. Á bakhlið hússins stendur einnig steinsteypt bakhús, Brekkugata 3b. Það hús er tvílyft steinsteypuhús með einhalla þaki en það var byggt í áföngum árin 1931-44. Þessi hús, Brekkugata 3 og bakhúsið voru tengd saman með einlyftri tengibyggingu árið 1970. Grunnflötur framhússins, án útbygginga, er skv. teikningum Haraldar Árnasonar frá 2014 um 8,88x10,22m. Að vestan er viðbygging, 6,45x3,48 og útskot á norðurstafni, 4,50x1,85m. Á suðurhlið er viðbygging við jarðhæð, 3,15x13,30m. Grunnflötur bakhúss, u.þ.b. 12x10m, útskots til vesturs 3x6m og tengibygging er um 8x9m að grunnfleti (ónákvæmar mælingar af map.is).

Árið 1901 fluttist til Akureyrar 28 ára gamall Þjóðverji að nafni Heinrich Bebensee. Hann var klæðskeri eða skraddari og stundaði iðn sína í húsi Einars Jónssonar málara á Oddeyri (Norðurgata 9, síðar flutt á Fróðasund 11). En haustið 1902 fór Bebensee að huga að húsbyggingu. Þann 18. september það ár mældi bygginganefnd lóð fyrir hann norðan við „hús Jósefs smiðs.“ Var Bebensee heimilað að reisa hús, 14x10 álnir sem eru eitthvað nærri 6,3x8,8m, að grunnfleti, 5 álnir (rúmir 3 metrar frá lóðarmörkum Jósefs). Umrætt hús „Hús Jóseps“ [Jóhannessonar] járnsmiðs, var þá nýrisið eða í byggingu. Það er í Manntali 1902 kallað Vesturgata 1 en varð ári síðar Brekkugata 1 og er það enn. Bebensee rak klæðskerastofu í húsinu og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni, en hann var kvæntur Guðbjörgu Bjarnadóttur (1879-1933) frá Illugastöðum í Laxárdal í Húnavatnssýslu. Guðbjörg tók upp ættarnafn eiginmanns síns, Bebensee.

Fullbyggt mun húsið hafa verið árið 1903 en árið 1907 heimilaði bygginganefnd Hinrik Bebensee eftirfarandi: (ath. stafsetningu, orðrétt tilvitnun)

  1. a) Byggja viðbót við norðurstafn hússins, áframhald af framhlið hússins 3 ál.x 7 ál. , að því áskyldu að eldvarnargafl sje settur fyrir norðurstafn viðaukans. Glugga og dyraskipun á framhlið má breyta eptir framlagðri teikningu.
  2. b) Breiðka húsið um 6 ál. með því að byggja við bakhlið hússins skúr jafnháan þakskeggi. Stærð hans verði 6 x 14ál. (Bygg.nefnd. Ak 1907: nr. 328)

Við þessar breytingar mun þak hússins hafa fengið svipað lag og það hefur síðan, en húsið var enn aðeins tvílyft. Á gamlársdag árið 1916 var húsið metið til brunabóta og þá lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðar og klæðskerahús, tvílyft með lágu risi og kjallara undir 2/3 af húsinu, eldvarnargafl við norðurstafn. Á gólfi (neðri hæð) við framhlið, þ.e. austamegin: ein stofa, klæðskerabúð og forstofa. Á gólfi við bakhlið þ.e. vestanmegin á neðri hæð: Klæðaskurðarstofa, tvö herbergi og forstofa. Á lofti voru alls sex stofur, þrjár austanmegin og aðrar þrjár vestanmegin og í vesturhluta efri hæðar var eldhús og búr. Þrjár geymslur voru í kjallara. Við bakhlið var lítill skúr og viðbygging við norðurstafn, jafnhá húsinu. Í húsinu voru fimm kolaofnar og ein eldavél sem tengdust tveimur skorsteinum. Allt var húsið járnklætt, veggir jafnt sem þak. Mál hússins voru sögð 10,7x10,4m og 7,5m á hæð (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916, nr. 197).

Eftir sviplegt fráfall Bebensee mun bróðir Guðbjargar, Sveinn Bjarnason, hafa tekið við húseigninni og árið 1923 tók hann til við að stækka húsið. Fékk Sveinn leyfi til að byggja upp 3. hæð hússins, með því skilyrði að eldvarnarveggurinn [frá 1907] yrði rifinn og steyptur oplaus veggur kæmi norður og vestur við útbyggingu. Mátti sá veggur ekki vera þynnri en 23 cm og nægilegt járn skyldi vera í steypunni. Á ljósmynd frá 1927 sést að húsið hefur það lag sem það hefur nú, orðið alls fjórar hæðir.

Sveinn Bjarnason, sem starfaði um árabil sem framfærslufulltrúi Akureyrbæjar, átti allt húsið og leigði út íbúðir og herbergi. Á meðal 25 íbúa Brekkugötu 3 árið 1930 er Karl Ottó Runólfsson, titlaður kennari. Karl (1900-1970) var einn af fremstu tónskáldum þjóðarinnar og er kannski þekktastur fyrir lagið Í fjarlægð . Sveinn Bjarnason stóð í miklum byggingarframkvæmdum að Brekkugötu 3 mestallan fjórða áratuginn, en árið 1931 reisti hann fyrsta áfanga bakhúss, Brekkugötu 3b. Árin 1935-37 átti hann í miklum samskiptum við Byggingarnefnd vegna bakhússins, hann vildi hækka húsið og ýmist nota viðbótarhæð undir iðnað og íbúðir. Árið 1944 byggir Sveinn enn við bakhúsið og líkt og í tilfelli framhússins tveimur áratugum fyrr, hækkaði hann húsið um eina hæð. Sú bygging var gerð eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar.. Á árunum 1969-70 gengur enn í garð „breytingaskeið“ á Brekkugötu 3 en þá mun hafa verið byggð tengibygging milli fram- og bakhúss, auk þess sem byggt var við framhúsið, einnar hæðar bygging til suðurs. Margvíslegar breytingar hafa þannig verið gerðar á Brekkugötu 3 gegnum tíðina.

Húsið hefur hýst ýmsa verslunar-, veitinga-, og iðnaðarstarfsemi, allt frá því húsið var klæðskerastofa Bebensee hins þýska og yrði alltof langt mál að telja það upp hér. M.a. hófst starfsemi verslunar Tiger (nú Flying Tiger) á Akureyri um 2002. Í húsinu hefur líka verið hárgreiðslustofa, saumastofa og Sparisjóður, svo fátt eitt sé nefnt. Bakhúsið hefur lengst af verið vörugeymsla, verkstæði og einnig íbúð. Þar var einnig leiktækjasalur um hríð. Ljóst er að Brekkugata 3 er hús með langa og merka sögu að baki, þarna hafa vafalítið þúsundir manna starfað og búið í gegnum tíðina og fólk á öllum aldri sem á minningar um einhverja verslun eða starfsemi þarna. Sjálfsagt hafa fá hús í bænum tekið jafn miklum breytingum gegn um tíðina og Brekkugata 3. Á efri hæðum hússins eru nú nokkrar leiguíbúðir og Vistvæna búðin á götuhæð.

Brekkugata 3 er stórt, stórbrotið og reisulegt hús og setur mikinn svip á hjarta Miðbæjar Akureyrar, Ráðhústorg. Það er í góðri hirðu og til mikillar prýði og á bakvið það er gróskumikil lóð sem nær upp í brekkuna neðan Bjarmastígs. Þar stóð lengi vel ein elsta og merkasta stafafura landsins, en hún féll í ofsafenginni haustlægð seint í september 2022. Í Húsakönnun, sem unnin var um Miðbæjarsvæðið er það sagt hafa „[...]gildi fyrir götumynd Brekkugötu og Ráðhústorgs. Húsið er reisulegt og stendur á áberandi stað“ (Landslag arkitektastofa 2014:38). Þá er húsið aldursfriðað, þar eð það er byggt fyrir 1923.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 18. ágúst 2015 og 14. nóvember 2023. Á myndinni frá 2015 sést stafafuran mikla vel.

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðarbækur frá 1902-21, 1921-30, 1930-35, 1935-1941 og 1941-48. Fyrstu þrjár fundargerðir, viðvíkjandi Brekkugötu 3: nr. 237, 18. sept. 1902, nr. 328, 17. júní 1907 og nr. 535, 1. maí 1923. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær. Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00