Heimsmethafi og ÓL meistari á Akureyri
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XLI
Akureyrarmót UFA í frjálsíþróttum fer fram í dag og á morgun á Þórsvellinum, þótt ekki viðri beinlínis vel til slíkrar keppni. En tilvalið er að nota tækifærið og rifja upp heimsókn mestu frjálsíþróttakempu sem steig fæti á Akureyrarvöll við Hólabraut meðan hann var og hét.
Gamla íþróttamyndin þennan laugardaginn er af Brasilíumanninum Adhemar Ferreira Da Silva. Myndirnar eru reyndar tvær eins og sjá má, teknar þegar hann heiðraði Akureyringa með nærveru sinni þriðjudaginn 15. júlí árið 1958. Da Silva var þá heimsmethafi í þrístökki (16,56 m) og tvöfaldur Ólympíumeistari í greininni; vann Ólympíugull í Helsinki 1952 og aftur í Melbourne í Ástralíu 1956.
Það var einmitt í Melbourne sem Vilhjálmur Einarsson braut blað í íslenskri íþróttasögu þegar hann varð í öðru sæti og vann þar með til silfurverðlauna í þrístökki, eftir mikla baráttu við téðan Da Silva. Íslendingur hafði ekki áður fengið verðlaun á Ólympíuleikum.
Vilhjálmur náði forystu í keppninni í Melbourne í annarri umferð, stökk þá 16,26 metra, en í fjórðu umferð af sex tókst Da Silva að gera betur. Stökk Vilhjálms var Ólympíumet sem stóð í tvo tíma, þar til Da Silva bætti metið með því að stökkva 16,35 m og þar með var gullið hans.
Það var Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR), félag Vilhjálms, sem bauð Da Silva í heimsókn til Íslands og þeir mættust tvisvar í keppni á Melavellinum í Reykjavík. Að auki voru skipulagðar ferðir til Akureyrar og austur í Hallormsstað á Fljótsdalshéraði þar sem tvímenningarnir hugðust sýna þrístökk, þótt sá misskilningur hafi reyndar birst í fjölmiðlum að þeir myndu keppa á Akureyri. KA-menn héldu vissulega frjálsíþróttamót þennan dag, 15. júlí 1958, en í yfirlýsingu sem stjórn félagsins sendi frá sér eftir mótið kom fram að keppni þrístökkvaranna tveggja hefði aldrei verið fyrirhuguð, einungis sýning.
Svo fór raunar að Vilhjálmur komst ekki til Akureyrar en Da Silva mætti galvaskur og sýndi listir sínar við mikla hrifningu norðanmanna.
Til gamans er hér vitnað í bókina Saga ÍR, sem kom út á aldarafmæli félagsins árið 2007. Þar segir höfundurinn, Ágúst Ásgeirsson blaðamaður og einn kunnasti langhlaupari ÍR og Íslands um árabil:
Er Da Silva kom til keppni á vegum ÍR hafði hann ekki tapað keppni í sjö ár og var ókrýndur konungur þrístökksins. Aðeins tvisvar hafði honum verið ógnað og átti Vilhjálmur þar í hlut í bæði skiptin; í Melbourne 1956 og Moskvu árið eftir. Á fyrra mótinu hafði Da Silva betur, stökk 15,62 m, en Vilhjálmur 15,42 m. Brautirnar voru nokkuð þungar á Melavellinum eftir undangengnar rigningar. Þeir öttu kappi aftur viku seinna, einnig á Melavellinum, og varð keppnin söguleg. Frammi fyrir eitt þúsund áhorfendum varð Da Silva að láta í minni pokann í fyrsta sinn í sjö ár því nú sigraði Vilhjálmur, stökk 15,84 m í fyrsta stökki gegn 15,64 m. Vilhjálmur gerði fimm stökk sín ógild í keppninni og Da Silva þrjú.