Fara í efni
Íþróttir

Heimsmeistari tvisvar og setti mörg heimsmet

Úr myndasafni Dags

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 62

Mynd af akureyrskum lyftingamönnum í Trölladyngju sem birt var um síðustu helgi vakti mikla athygli. Að þessu sinni er því upplagt að birta mynd af Jóhannesi Hjálmarssyni, sem varð tvisvar heimsmeistari öldunga í kraftlyftingum snemma á níunda áratug síðustu aldar.

Jóhannes, oft kallaður Jói Fíragott, sló fljótlega í gegn eftir að hann hóf að æfa kraftlyftingar 49 ára gamall árið 1979. Eftir að Jói kom í land eftir farsælan feril sem sjómaður á síðutogurum Útgerðarfélags Akureyringa var hann „plataður“ til þess að prófa að koma á kraftlyftingaæfingu og féll fyrir sportinu!

Jói hóf ferilinn á því að hirða mörg Akureyrarmet sem elsti sonur hans, Halldór, hefði sett og svo tók hann til við að bæta bæði Íslands- og heimsmet og var iðinn við þann kola.

Myndin að ofan var tekin á Landsmóti Ungmennafélags Íslands sem fram fór á Akureyri í júlí 1981. Jóhannes setur þarna heimsmet í hnébeygju, Gísli Rafnsson (til vinstri) og Sigurður Gestsson við öllu búnir.

Keppt var í kraftlyftingum sem sýningargrein á Landsmótinu en alþjóðlegir dómarar komu þó sem betur fer til mótsins, því Jóhannes gerði sér lítið fyrir og lyfti sex sinnum yfir gildandi heimsmeti; þrisvar í hnébeygju – mest 205 kg, hann fékk aðeins eina tilraun í bekkpressu og lyfti 120 kg og einnig aðeins eina tilraun í réttstöðulyftu þar sem hann reif upp 240 kg. Samtals eru það 565 kg, 162,5 kg meira en heimsmetið var í samanlögðu.

Ástæða þess að Jói fékk aðeins eina tilraun í bekkpressu og réttstöðulyftu var sú að dómararnir þurftu að ná flugi til Reykjavíkur. „Fleiri gátu lyfturnar ekki orðið, því það sá undir iljar dómaranna að sunnan á harðahlaupum út á flugvöll!“ sagði Akureyrarblaðið Dagur eftir Landsmótið.

Merkustu titlar Jóhannesar í kraflyftingunum voru þessir: 

  • Heimsmeistaratitill í 100 kg flokki öldunga, 50 ára og eldri, í Chicago í Bandaríkjunum 1981
  • Heimsmeistaratitill í sama flokki í Greenborow í Norður Karolínu 1982
  • Silfurverlaun fyrir 2. sæti í sama flokki á HM 1983.

Jóhannes, sem lést 2011, var gerður að heiðursfélaga Íþróttafélagsins Þórs á 90 ára afmæli félagsins árið 2005 og hann hlaut einnig heiðursverðlaun Lyftingaráðs Akureyrar.