Fara í efni
Umræðan

Heilsuefling aldraðra og húsnæðismál EBAK

Aðalfundur EBAK, Félags eldri borgara á Akureyri, var haldinn í sal félagins við Bugðusíðu 1 þriðjudaginn 8. júní. Vegna samkomutakmarkana hafði fundinum verið frestað hvað eftir annað en nú loks var unnt að funda og það var gert með tilheyrandi spritti og grímum. Auk venjulegra aðalfundarstarfa með skýrslum um starfemina á þessu sóttarári og kosningu í stjórnir má nefna annars vegar undirritun samnings milli EBAK og Akureyrarbæjar og hins vegar ályktanir fundarins um hagsmunamál eldri borgara.

Í upphafi fundar undirrituðu Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Hallgrímur Gíslason formaður EBAK samning um félags- og tómstundastarf. Þar kemur meðal annars fram að „tryggja [skuli] eldri borgurum á Akureyri aðgang að eins góðu félags- og tómstundastarfi og þörf er á hverju sinni. Markmiðið er að tryggja og viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni þeirra til að njóta efri áranna eftir vilja og getu hvers og eins.“ Þessu starfi „er fyrst og fremst ætlað að skapa þær ytri aðstæður sem þarf til að efla frumkvæði, sjálfstæði og áhuga og stuðla að meiri virkni og þátttöku eldri borgara.“

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Hallgrímur Gíslason formaður EBAK undirrita samning um félags- og tómstundastarf. 

 

Í samningnum er meðal annars kveðið á um að EBAK hafi afnot af húsnæðinu á 1. hæð Bugðusíðu 1, bærinn standi straum af rektsrakostnaði við húsnæðið og leggi til starfsfólk, sem heyri undir forstöðumann tómstundamála. Félagið standi fyrir margvíslegu tómstundastarfi og sjái til að auka fjölbreytni þess, eftir föngum í samráði við félagsmiðstöðina í Víðilundi. Þá er í samningnum fjallað um reglulegt samráð félagsins og bæjarins, meðal annars með starfsemi Öldungaráðs Akureyrarbæjar, og árlega endurskoðun samningsins, sem hér með gildir til 31. desember 2022. Ítrekað er að tengiliður félags og bæjar sé forstöðumaður tómstundamála, en við því starfi tók snemma á árinu Bjarki Ármann Oddsson.

Húsnæðismál

Á fundinum voru lagðar fram og samþykktar tvær ályktanir, annars vegar um húsnæðismál. Þar segir í upphafi: „Aðalfundur Félags eldri borgara á Akureyri haldinn 8. júní 2021 skorar á Akureyrarbæ að hefja sem fyrst vinnu við að leysa skort á húsnæði fyrir félags- og tómstundastarf eldri borgara bæjarins. Núverandi húsnæði félagsmiðstöðvanna nægir engan veginn til að sinna því sem skyldi.“ Þar kemur fram að mikið vanti upp á að aðstaða fyrir félagsstarf eldri borgara jafnist á við það sem gerist í sambærilegum sveitarfélögum, Frá upphafi 2005 hafi húsnæðið í Bugðusíðu 1 verið of lítið, rúmi langt í frá þá starfsemi sem félagið og bærinn vilji standa að. Fram kom á fundinum að stundum hafi þurft að vísa fólki frá vegna þess að fleiri komust ekki að. Þörf sé auk stærri salar á misstórum rýmum sem hýst geta margvíslega starfsemi félagsins, námskeið, kynningar, hreyfingu og hvers kyns tómstundaiðju. Tekið er fram að árið 2005 hafi íbúar á Akureyri 60 ára og eldri verið 2669 eða 16,11% bæjarbúa, en 1. janúar 2021 var þessi aldushópur 4172 eða 21,7% bæjarbúa. Of lítið húsnæði 2005 hlýtur því að teljast alltof lítið 2021.

Heilsuefling

Hin ályktunin lýtur að heilsueflingu, en þar segir í upphafi: „ Aðalfundur Félags eldri borgara á Akureyri, haldinn 8. júní 2021, fagnar því að vinna við gerð aðgerðaáætlunar fyrir eldri borgara sé hafin og að heilsuefling verði tekin fyrir í fyrsta áfanga. Nauðsynlegt er að ráða starfsmann sem fyrst til að hafa umsjón með heilsueflingarverkefni og vera í samstarfi við íþróttafélögin og aðra samstarfsaðila við að koma því af stað. Samhliða því þarf að koma á frístundastyrk til að ná til þeirra sem helst þarf að hvetja til virkrar þátttöku. Slíkur styrkur er ódýr forvörn sem skilar sér margfalt til baka.“ Gerð er grein fyrir því að heilsuefling snúist jafnt um andlega og líkamlega þætti, mataræði og næringu. Þar sé nauðsynlegt að hvetja til þátttöku í margvíslegu tómstundastarfi sem örvi sköpunarmátt og auki vellíðan eldri borgara á allan hátt. Aðgerðir þurfi að beinast að öllum, óháð búsetu, og nauðsynlegt sé að upplýsingar berist öllum á einfaldan hátt. Bent er á að allar aðgerðir verði að miðast við áætlanir um að eldri borgurum fjölgi hlutfallslega á komandi árum. Í lokin er hvatning: „Aðalfundurinn skorar á bæjarstjórn að vinna að heildarstefnu í málefnum eldri borgara og að sýna frumkvæði og metnað í þjónustu við þá.“

Aðalfundurinn var vel sóttur og greinilegt að þörf fólks til að hittast eftir takmarkanir undanfarinna missera. Mikill hugur var í stjórn og nefndum að taka upp þráð og hefja á ný volduga starfsemi á haustdögum.

Sverrir Páll Erlendsson er í Fræðslunefnd EBAK, Félags eldri borgara á Akureyri.

Gagnsæi, ábyrgð og sameiginleg markmið

Anna Júlíusdóttir skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 10:45

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00