Fara í efni
Pistlar

Drengurinn með ljáinn

Lífið það er sterkara en dauðinn, sagði Kristján Níels Júlíus Jónsson, Káinn, í kvæðinu um fimmtíu senta glasið. Og það hefur svo sem gerst oftar en tölu verður á komið að lífið sigri dauðann. En hvað gerist í lífi þess sem stansar við dauðans dyr, fer ekki alla leið? Raskast lífsmunstrið við þetta atvik, sem oft er fyrirvaralaust, eða heldur lífið áfram eins og ekkert hafi í skorist?

Ævar Þór Benediktsson rithöfundur og leikari tekur þennan þráð upp í splunkunýrri ungmennabók, Drengurinn með ljáinn. Hjólabrettið hans Halls splundrast undan vörubíl sem ekur um götuna en eftir stendur Hallur á gangstéttarbrúninni, fölur og skjálfandi, og þegar hann hættir að horfa á tætlurnar af hjólabrettinu finnur hann blóð renna niður leggina og sér að buxurnar eru rifnar á hnjánum.

Það hafði munað svo litlu.
Svo ótrúlega litlu.
Ef hann hefði litið til hægri fyrst, í staðinn fyrir vinstri, hefði hann ekki séð vörubílinn.
Þá hefði hann rennt sér út á götuna.
Þá hefði hann –

Hallur verður drengurinn með ljáinn, hann lendir í því að nálægðin við dauðann gerir hann næmari en aðrir eru fyrir návist dauðans og „dökkklæddi maðurinn“ tekur að stjórna honum, jafnvel þegar verst stendur á, og hinn yfirnáttúrulegi ljár verður tákn dauðans, verkfærið sem á að hjálpa Halli að aðstoða þá sem hafa lent í því að fara lengra en hann. En þessi næmni á að vara aðeins í tiltekinn tíma. Og hverfa.

Hallur er ósköp venjulegur unglingur á lokametrunum í grunnskóla og er með fangið fullt af verkefnum utan skóla og heimilis – að búa til alls konar dót og leikmuni fyrir skólaleikritið – og búinn að vera á þönum á öllum æfingum og kann verkið því utanað, og það hefur afleiðingar... Svo kemur rómantíkin og margt skemmtilegt og misskemmtilegt gerist í vinahópnum, og af og til truflast það vegna embættisverkanna með ljáinn.

Persónur bókarinnar eru margar, fjölskyldurnar ólíkar og staða krakkanna alls ekki öll sú sama. Ævar Þór dregur upp afskaplega sannfærandi mynd af venjulegum ungmennum og ég verð að segja að ég trúði þeim öllum, fannst þau öll vera eðlileg og eðlileg. Oft hefur maður rekist á persónur í unglingabókum sem gleymst hefur að gæða lífi, það á alls ekki við hér.

Drengurinn með ljáinn er unglingabók og hún gefur lesandanum endalaust.

  • Allir kaflarnir heita eitthvað dauðans, Unglingur dauðans, Frímínútur dauðans, Leikrit dauðans, Pása dauðans og svo framvegis. Það er tilefni vangaveltna.
  • Nánast allir kaflarnir enda á þankastriki, það vantar síðasta eða síðustu orðin. Lesandinn verður að botna. „Nú væru Dofri og félagar í vondum –“ „Og hann opnaði –“ „Í dyragættinni að herbergi pabba hans stóð –“
  • Kaflarnir eru stuttir, sjaldnast meira en ein blaðsíða. Stuttar leslotur henta vel þeim sem eru seinir, en svo er spennandi að bæta við einum kafla og svo öðrum.
  • Á langflestum blaðsíðum eru riss og teikningar, svarthvítar kolateikningar eftir Sigurjón Líndal, litla bróður Ævars Þórs, strák sem er á listnámsbraut VMA. Hvílík dásemd að sjá samvinnu bræðranna. Og það fyrsta sem ég hugsaði var: Það verður gaman að sjá þegar Jónsi fer að skreyta bækurnar hans Ævars með litmyndum.
  • Sérhver hluti bókarinnar hefst á örlitlu kennsludæmi. Fyrsti hluti: EINN. Lýsingarorð. Án félagsskapar, einsamall. Sjötti hluti: HETJA. Kvenkyns nafnorð. Hraustmenni, afreksmaður. Ævar er líka kennari.
  • Í upphafi hvers hluta er svarthvít opna með límmiðum – hugleiðingum og ljóðum.

Ævar Þór er með afkastamestu barnabókahöfundum Íslands og hefur hingað til ekki síst gefið bækur fyrir yngri lesendahópa, meðal annars Þínar eigin bækur, átta talsins, þar sem lesandinn fær að ráða framgangi sögunnar, og léttlestrarbækur um hliðstæð efni, auk bóka sem tengjast Ævari vísindamanni, og hann hefur auk þess staðið fyrir alls kyns átökum til að örva lestrarþrá barna. Í Drengnum með ljáinn fer hann á þá braut að skrifa unglingasögu sem er hlý og notaleg og sannfærandi án þess að verða nokkru sinni væmin. Mér finnst höfundurinn sýna lesendum, rétt eins og persónum sögunnar, fullkomna virðingu. Mér finnst þetta einfaldlega góð bók og ég gat ekki hætt – þótt þetta sé í sjálfu sér ekki spennusaga varð ég að halda áfram. Ég held að það verði svo hjá fleirum. Og mig langar til að bæta því við að Drengurinn með ljáinn er ekki einnota saga. Sá sem les hana lítur í hana aftur. Og pælir í myndunum hans Jónsa og tengir þær við textann.

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018.

Takk elsku kennari!

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
08. nóvember 2024 | kl. 13:15

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Beggja skauta byr

Jóhann Árelíuz skrifar
03. nóvember 2024 | kl. 11:11

Nenni ekki þessu kennaravæli

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 14:00