Fara í efni
Umræðan

Framhaldsskóli fyrir nemendur

Fyrir fáeinum dögum var birt niðurstaða rannsóknar Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur, Gísla Gylfasonar og Gylfa Zoëga á afleiðingum styttingar framhaldsskóla úr fjórum árum í þrjú. Þar kom fram að háskólanemar á fyrsta ári ljúka nú færri einingum en fjögurra ára stúdentar, þeir fá lægri meðaleinkunn í áföngum sem þeir ljúka og þeim er hættara við brottfalli en áður var. Tekið er fram að þetta eigi einkum við um konur en karlar verði fyrir skaðlegri áhrifum.

Það var 2015 sem ákveðið var að stytta nám í framhaldsskólum úr fjórum árum í þrjú. Enn hafa ekki verið birtar neinar faglegar forsendur fyrir styttingunni, ekkert sem varðar nám eða kennslu, stöðu þess eða gæði. Röksemdir stjórnvalda voru þær að í ýmsum samanburðarlöndum lykju nemendur stúdentsprófi 19 ára á meðan íslenskir stúdentar lykju því að jafnaði tvítugir. Með þessu myndu sparast peningar í rekstri framhaldsskólanna og nemendur komast fyrr út á vinnumarkaðinn. Þessar styttingarhugmyndir höfðu komið fram nokkrum árum fyrr og hlotið mjög misjafnar viðtökur í skólum, jafnt hjá nemendum og kennurum. Menntmálaráðherra kom í gamla skólann minn um það bil sem styttingin skall á. Nemendur þráspurðu hana hvort peningar sem spöruðust við styttinguna kæmu ekki örugglega til skólanna, til að bæta nám og námsumhverfi, og svarið var skýrt og greinilegt „já“. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að þetta var algerlega ósatt, það hafði aldrei verið ætlunin að sparað fé færi til skólanna.

Eitthvað var talað um að flytja einhverja áfanga úr framhaldsskólum yfir í grunnskóla en ég held að það hafi verið í skötulíki hafi það einhvers staðar verið gert. Hins vegar hefur sums staðar verið boðið upp á einhverja valáfanga sem geta verið gagnlegir þeim sem fara í framhaldsskóla. Nokkru áður hafði grunnskólinn verið lengdur úr 9 árum í 10. Hugmyndum um að stytta grunnskólann um eitt ár í stað þess að skera framhaldsskólann niður var ekki vel tekið, enda hafði ríkisvaldið komið grunnskólunum af sér yfir á sveitarfélögin svo ríkið gat ekkert sparað á því að knýja fram styttingu þar.

Einhvern veginn viðist hafa farið framhjá þeim sem hjá hinu opinbera fjalla um skóla og menntun að kennarar eru sérfræðingar í námi og kennslu. Til þeirra er ekki leitað. Þess í stað hefur hið opinbera miklu fremur haft í þjónustu sinni alls konar fræðinga sem hafa vissulega menntun í kennsluvísindum, en hafa jafnvel aldrei komið í skóla síðan þeir voru sjálfir nemendur þar og virðast oft á tíðum ekki hafa hugmynd um það starf eða þá þróunarvinnu sem unnin hefur verið í skólunum á öllum þeirra stigum síðan þeir voru þar börn eða unglingar. Þess vegna var lítið sem ekki hlustað á kennara þegar þeir gagnrýndu áformin um styttinguna. Á hinn bóginn var þeim gert að setjast yfir að skipuleggja þriggja ára nám án þess að skerða það sem heitið gæti. Og þar þurfti vissulega að pakka. Hins vegar virðast yfirvöld skólamála aldrei hafa viðurkennt mikilvægi félagslífs og félagsþroska. Þess vegna varð það að víkja fyrir mötuninni á fræðum á mettíma. Og það er það sem nemendur mega núna búa við. Og þeim líður ekki vel.

Nemendur segja

Eftir að skýrslan um afleiðingar styttingarinnar kom fram hefur verið talsvert um hana rætt. Meðal annars voru í Kastljósi Sjónvarpsins fjórir nemendur á mismunandi skólastigum á Akureyri inntir eftir líðan þeirra í skóla við þessar aðstæður. Meðal þess sem fram kom hjá þeim var að styttingin hefði aukið kvíða hjá nemendum, það væri sett mikil pressa á þá, allir ættu bara að vera duglegir og vinna hratt, rétt eins og væri verið að koma þeim sem fyrst burt úr skólanum, þeir ættu bara að flýta sér en fengju ekki tíma til að setjast niður og anda og þroska sjálfa sig og njóta samverunnar eða félagsskaparins. Þeir töldu að nauðsynlegt væri í núverandi ástandi að fjölga sálfræðingum til að hjálpa nemendum að fást við ótta og kvíða í stað þess að þeir þyrftu að róa sig með lyfjum. Og vegna ótta og kvíða færu færri beint í frekara nám en áður, margir tækju sér frí um lengri eða skemmri tíma og hættu jafnvel við háskólanámið. Við þetta má bæta að styttingin hefur haft í för með sér að nemendur í framhaldsskólum eiga erfiðara með að stunda annað nám meðfram skólanum, til dæmis tónlistarnám, en framhaldsskólanemum í tónlistarskólum hefur fækkað, nema þeim sem gefst kostur á að vera á tónlistarbrautum. Þá kemur þetta líka niður á möguleikum nemenda á framhaldsskólaaldri að stunda íþróttir, svo eitthvað sé nefnt.

Styttingin og skólaárið

Eins og fyrr segir var takmark stjórnvalda með styttingunni að koma nemendum ári fyrr út úr framhaldsskólanámi. Talað var um að bæta nám, en ekkert um það hvernig ætti að gera það, og búa nemendur betur undir háskóla, en ekkert heldur hvernig það skyldi gert. Reyndar var áður hægt að ljúka stúdentsprófi 19 ára og gert í mörgum skólum, margir luku stúdentsprófi 19 ára ef þeir fóru hratt og ákveðið í gegnum áfangaskóla, iðulega komu nemendur ári yngri inn í framhaldsskóla og höfðu hlaupið yfir bekk í grunnskóla og til dæmis í Menntaskólanum á Akureyri voru teknir inn nemendur í eina bekkjardeild eða svo á ári rakleitt úr 9. bekk grunnskóla en ekki 10., og það með afar góðum árangri. En stjórnvöld hugsuðu bara um aldurinn 19 ára og veturna 3.

Bent hefur verið á að í þeim skólum og í þeim löndum þar sem þessi fyrirmyndar 19 ár eru lok framhaldskóla sé skólaárið allt annað en á Íslandi. Hvergi er það jafnstutt og hér á landi, hvort heldur er í grunnskólum eða framhaldsskólum. Í útvarpsþættinum Vikulokunum laugardaginn 2. mars benti Rósa Magnúsdóttir sagnfræðingur á að í Danmörku, þar sem nemendur verða jafnan stúdentar 19 ára, væru námsdagar í grunnskóla 200 á ári en 180 á Íslandi. Í venjulegum bóknámsskóla á framhaldsskólastigi í Danmörku væru námsdagar 212 en á Íslandi 180. Á 10 ára grunnskólagöngu stæðu 200 færri dagar að baki náms í grunnskóla hér en í Árósum og á þriggja ára framhaldsskólanámi 96 færri skóladagar hér. Á öllum þessum 13 námsárum til stúdentsprófs munaði alls 296 skóladögum – það er ekki langt frá 1 ½ ári í skóla. Þetta var sem sagt ekki tekið með í reikninginn. Þá má líka nefna að í Danmörku mun algengt að nemendur fari í svokallaðan „efterskole“ að loknu 10 ára grunnskólanámi til að búa sig undir þriggja ára framhaldsskóla. Má þá ekki segja að nám að loknum grunnnskóla sé í raun og veru 4 ár?

Nemendur segja meira

Í Heimildinni var á dögunum fjallað um ástandið í framhaldsskólunum og rætt við þrjá nemendur úr MR og þrjá úr MH, stærstu bóknámsskólunum í Reykjavík. MR er elstur á landinu og mótaður af aldalöngum hefðum, ríkulegu félagslífi og afar góðum námsárangri. MH er til muna yngri en hefur verið í hópi bestu skóla og einkennst af afar miklu listalífi og mjög góðum námsárangri líka. Það hefur árum saman komið fram í könnunum á árangri nemenda í háskóla. Og þessir nemendur voru ekki par sáttir við þriggja ára framhaldsskólann, öðru nær. Þeir voru í stórum dráttum á sömu nótum og félagar þeirra fyrir norðan nokkrum dögum fyrr.

Þeim finnst námið alltof samþjappað, segjast vera að drukkna í námi og fá ekki tækifæri til að gera annað. Það þurfi að fórna – ef maður vilji taka þátt í félagslífi komi það niður á náminu en ef maður fórnaði félagslífinu þá gæti maður drukknað í náminu. Það sé alltof mikið pressa á fólki og vanti greinilega ár í viðbót til að geta unað við nám og öðlast jafnframt félagslegan þroska, og félagsskapurinn skipti verulegu máli, jafnt í skólanum og til framtíðar. Það sé greinilegt að styttingin hafi alls ekki verið gerð með hagsmuni nemenda í fyrirrúmi. Þessu hafi verið skellt á og ekkert fylgt eftir fyrr en nú, þegar þessi könnun hafi verið gerð. Og spurðir um hugsanlegar lausnir nefna þeir að lengja þurfi framhaldsskólann aftur um eitt ár og það megi örugglega stytta grunnskólann um eitt ár. Og nú vill svo til að sá menntamálaráðherra, sem ætlaði að slengja saman framhaldsskólum í haust er leið, hefur haft á orði einmitt þetta, að stytta grunnskólann og lengja framhaldsskólann á ný. Einhver kefði kallað þetta tvíverknað, sem var kallaður Kleppsvinna þegar ég var yngri. En komi hann þessu til leiðar má telja hann hafa gert eitthvað gott.

Grundvallaratriðið ætti að vera að skóli sé fyrir nemendur. Nemendum á ekki að líða illa í skólanum. Nemendur eiga ekki að hrökklast úr skóla vegna of mikils álags, kvíða, þreytu, eða þunglyndis. Skóli á að vera nemendum vinsamlegur en ekki fjandsamlegur. Auðvitað á að gera kröfur, en þær eiga að vera mannlegar. Þetta þurfa yfirvöld að skilja. Yfirvöld menntamála eiga að stuðla að öryggi, festu og vellíðan í skólum. Þau eiga ekki að vinna gegn nemendum – og reyndar ekki kennurum heldur. Þau eiga ekki að vinna óhæfuverk.

Það er nú bara svoleiðis að mínum dómi.

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00