Fara í efni
Íþróttir

Haraldur þrefaldur Norðurlandameistari

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXVIII

Haraldur Ólafsson varð fyrstur Akureyringa Norðurlandameistari í íþróttum. Hann sigraði á Norðurlandameistaramóti unglinga í ólympískum lyftingum og náði þeim árangri meira að segja þrjú ár í röð, fyrstur Íslendinga.

Haraldur, sem er fæddur 1962, lék knattspyrnu með Þór á yngri árum en sneri sér síðan að lyftingum. Hann keppti örlítið í kraftlyftingum en ólympískar lyftingar voru hans aðal grein; hann varð margfaldur Íslandsmeistari og Íslandsmethafi og hlaut verðlaun í fullorðinsflokki á Norðurlandameistaramóti, auk þrennra gullverðlauna í unglingaflokki sem fyrr geinir.

Haraldur var kjörinn Íþróttamaður Akureyrar tvö ár í röð, 1980 og 1981.

Í ólympískum lyftingum er keppt í tveimur greinum, snörun og jafnhendingu.

Besti árangur Haraldar var þessi, í öllum tilfellum keppti hann í 82,5 kg þyngdarflokki:

  • Snörun – 138,50 kg – Stöðvar 2 mót í lyftingum 1989
  • Jafnhending – 178,50 kg – Íslandsmeistaramót 1989
  • Samanlagt – 312,50 kg – Akureyrarmeistaramót 1988

Vert er að geta þess að Haraldur er einn fjögurra Íslendinga sem hlotið hafa svokallað Elite merki Lyftingasambands Norðurlanda en það fá þeir sem hafa náð sérstaklega glæsilegum árangri. Auk hans hlutu þeir Guðmundur Sigurðsson og Gústaf Agnarsson merkið á sínum tíma og árið 2015 bættist Þuríður Erla Helgadóttir þann fámenna afrekshóp.

Til að fá merkið þarf að ná ákveðnum stigafjölda skv. alþjóðlegri stigatöflu á alþjóðlegu, erlendu stórmóti og Haraldur gerði það á Evrópumeistaramóti snemma árs 1984 þar sem hann setti bæði Íslandsmet í jafnhendingu og samanlögðu.

Eftirfarandi skýringar á ólympískum lyftingum má finna á vef Lyftingasambands Íslands:

  • Jafnhending – (á ensku, clean & jerk) er þegar stöng er lyft í tveimur hreyfingum upp fyrir höfuð. Fyrri hreyfingin er frívending og síðari hreyfingin er jafnhöttun.
  • Frívending – (á ensku, clean) er þegar stöng er lyft frá gólfi upp að öxlum í einni samfelldri hreyfingu þar sem viðkomandi beygir sig undir stöngina á réttu augnabliki og stendur upp en stöngin hvílir á brjóstkassa og/eða bognum örmum í lokin.
  • Jafnhöttun – (á ensku, jerk) er þegar stöng er lyft í einni samfelldri hreyfingu frá öxlum eða brjóstkassa með bogna arma upp fyrir höfuð, með því að beygja sig í hnjánum og rétta ásamt því að rétta úr örmum og ljúka lyftunni í jafnvægi með útrétta arma og stöngina fyrir ofan höfuð.
  • Snörun – (á ensku, snatch) er þegar stöng er lyft með útrétta arma frá gólfi og upp fyrir höfuð í einni samfelldri hreyfingu með því að toga í stöngina og beygja sig undir hana á réttu augnabliki.

Bestur í heimi í uppstoppun!

Gaman er að geta þess að eftir að Har­ald­ur hætti keppni í lyftingum vatt hann sínu kvæði í kross, hóf að stoppa upp dýr og náði enn glæsilegri árangri á því sviði. Hann varð bæði heimsmeistari og Norðurlandameistari í flokki atvinnumanna í uppstoppun fiska!