Fara í efni
Umræðan

Geðheilbrigði í AkureyrarAkademíunni

Það hefur verið mér mikið lán að fá að tilheyra samfélagi AkureyrarAkademíunnar en þar býðst einstaklingum vinnuaðstaða til að sinna hugðarefnum sínum. Í AkureyrarAkademíunni hef ég náð að rækta geðheilsu mína og styrkja hana með því að sinna námi mínu í þroskaþjálfa- og geðheilbrigðisfræðum og kynnast um leið yndislegu fólki sem ég hef lært mikið af. Samskiptin við félaga mína í AkureyrarAkademíunni hafa veitt mér ómetanlega lífsfyllingu og gleði. Þessi atriði eru tilefni þess að ræða svolítið um geðheilbrigðismál hér á eftir.

Ætla má að flestir séu sammála um að heilbrigði sé eitt það mikilvægasta í lífi hverrar manneskju. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin skilgreinir heilbrigði sem andlega, líkamlega og félagslega velferð og vellíðan. Andleg heilsa er jafnframt skilgreind sem góð geðheilsa og vellíðan sem gerir fólki kleift að takast á við álag, nýta hæfileika sína, njóta sín í leik og starfi og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Sjálfur kýs ég að nefna andlega heilsu geðheilbrigði.

Mikil vakning hefur átt sér stað í geðheilbrigðismálum hér á landi síðustu áratugi og er fólk í vaxandi mæli orðið ófeimið við að tjá sig um eigin vandamál. Margir hafa stigið fram og greint frá reynslu sinni af margvíslegum andlegum áskorunum. Fordómar gagnvart fólki með andlegar áskoranir virðast vera á undanhaldi og upplifir fólk síður í dag að það sé brennimerkt vegna geðraskana en var fyrr á árum. Fólk gerir sér betur grein fyrir margbreytileika mannlífsins og er það í samræmi við tíðaranda nútímans að samþykkja þá sem ekki fylgja alveg „meðallínu“ fjöldans. Góðu heilli hefur framboð og aðgengi að ráðgjöf og meðferð við geðröskunum aukist að sama skapi til muna, en því miður vantar enn þar mikið upp á samanber t.d. stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á þessum málaflokki fyrr á þessu ári.

Þegar rætt er um andlega heilsu hættir fólki til að hugsa eingöngu um geðraskanir. Mikilvægt er þó að gera sér grein fyrir því að geðheilbrigði snýst um meira en að vera laus við geðraskanir. Rannsóknir hafa leitt í ljós að geðheilsa og geðraskanir eru ekki gagnstæðir pólar á sama ásnum heldur eru þeir á tveimur aðskildum ásum sem samt eru tengdir.

Orðræðan í samfélaginu um geðheilbriðgismál er gjarnan á þá leið að eina leiðin til að stuðla að almennu geðheilbrigði sé að sinna geðrænum vandamálum með faglegum hætti og lækna þau. Æ fleiri hafa þó komist að þeirri niðurstöðu að viðunandi árangri verði ekki náð á þessum vanda nema með fjölbreyttum aðferðum. Sjálfur tel ég að það þurfi að ræða betur á opinberum vettvangi hvað góð geðheilsa feli í sér og hvernig hún verði helst efld. Geðheilbrigði er ekki aðeins markmið sem sérhver einstaklingur þarf að sækjast sjálfur eftir heldur verður stjórnkerfið allt að stuðla að kjöraðstæðum þar sem hver og einn geti sóst eftir geðheilbrigði og notið þess. Þetta getur stjórnkerfið aðeins gert með því að bjóða upp á margvíslegar leiðir fyrir fólk með ólíkan vanda í mismunandi aðstæðum. Það sem skiptir máli er að fólki sé gert það auðveldara að tileinka sér og viðhalda geðheilbrigði í sínu daglega lífi á sem flestum sviðum samfélagins.

Mig grunar að við séum mörg of ginkeypt fyrir skyndilausnum og „einni allsherjarlausn“ hvað geðheilbrigðismál varðar. Sjálfur var ég lengi ómeðvitaður um hversu mikilvæg geðheilsa mín væri fyrir vellíðan mína og velferð. Jafnframt átti ég það til að flækja hlutina um of og halda út í ófærur og vafasamar fjallabaksleiðir. Það var mér hins vegar opinberun þegar ég kynnti mér fyrir nokkrum árum ítarlega rannsókn sem vinnuhópur á vegum bresku ríkisstjórnarinnar hafði gert á áhrifaþáttum vellíðunar og skýrar niðurstöður hennar. Rannsóknarverkefnið snerist um að yfirfara 400 rannsóknir í geðheilbrigðismálum til að finna leiðir til að bæta geðheilbrigði og lífshamingu fólks sem gætu flokkast sem viðurkenndar og gagnreyndar. Meginniðurstaða þessarar yfirlitsrannsóknar var sú að það væru fimm aðferðir sem helst leiddu til vellíðunar en þær snúast um mikilvægi þess að mynda félagsleg tengsl og hlúa að þeim, að hreyfa sig, að gefa af sér, að veita umheiminum eftirtekt og að halda áfram að læra.

Gunnar Árnason er félagi í AkureyrarAkademíunni og deildarstjóri í þjónustukjarna hjá Akureyrarbæ.

Hugvekja á Ýli

Hildur María Hansdóttir skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 15:30

Framtíðin er núna

Ingvar Þóroddsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 13:00

Valdið til fólksins – lykillinn að sterkara þjóðfélagi

Theodór Ingi Ólafsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 12:00

Félagshyggja hvað er nú það?

Haraldur Ingi Haraldsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:19

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50